Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru prentaðar á þægilegan pappír, með stóru letri og góðu bili á milli málsgreina. Miðað er við að sögurnar í bókunum séu grípandi. Hægt er að gerast áskrifandi að bókum Ljósaseríunnar og fá fjórar bækur á ári heimsendar inn um lúguna. Það er alltaf gaman að fá pakka í póstinum.
Við mæðgin höfum lesið ótalmargar Ljósaseríubækur í gegnum árin. Eldri strákarnir hafa vaxið upp úr þeim og örverpið hefur tekið við. Bækurnar eru misgóðar, eins og þær eru margar. Ég og sá yngsti höfum gaman af því að lesa spennandi bækur og fyndnar bækur. Það eru einu kröfurnar sem sá stutti setur, þótt hann láti sér lynda flest sem móðir hans stingur upp á. Og er oftast ánægður með það sem lesið er fyrir hann, blessaður.
Horfin leikföng
Nýjasta viðbótin við seríuna er bókin Ráðgátugleraugun eftir Kristínu Björgu Sigurvinsdóttur. Kristín Björg er þekkt fyrir Dulstafaseríuna, unglingabókaþríleik sem lauk með síðustu bókinni Orrustan um Renóru. Í Ráðgátugleraugunum slær hún nýjan tón og skrifar fyrir mun yngri lesendahóp.
Sagan segir af systkinunum Anítu og Andra sem fara í heimsókn í sveitina til ömmu og afa. Aníta er níu ára og Andri er fjögurra ára. Aníta er hálfsvekkt að litli bróðir hennar komi með í sveitina, enda átti hún að fá að fara ein í ömmu- og afadekur í sveitinni. En svo sættir hún sig við það. Þegar þau koma í sveitina ætla þau að leika með leikföngin sem þau tóku með sér; tvær Syrpur og fjarstýrðan bíl. En þau grípa í tómt! Syrpurnar og bíllinn eru horfin! Amma á þó ráð undir rifi hverju og sýnir börnunum Ráðgátugleraugun og þá hefst forvitnileg atburðarás sem leiðir krakkana um allt hlaðið á bænum, opnar á dularfullar ráðgátur sem þau þurfa að leysa í sátt og samlyndi og svo á flóknari gátur sem þau þurfa jafnvel hjálp við að leysa frá ömmu og afa.
Handavinna og verkfæri
Við mæðginin lásum bókina í tveimur lotum. Fyrri hluti bókarinnar fjallar að mestu um hversdagsleg málefni og þeim stutta fannst skemmtilegast af öllu að fá að fylgjast með bakarísferð Anítu. Hún valdi sér það sama og hann vill alltaf fá. En þegar tók að líða á bókina og undarlegheitin fóru að hlaðast upp þótti honum langskemmtilegast að leysa gáturnar sjálfur. Þegar hann (í fyrsta bekk) gat sjálfur leyst úr orðarugli sem álfarnir höfðu skilið eftir fyrir börnin skellihló hann og heimtaði að klára bókina. Sem við gerðum.
Það er afslappað og innilegt andrúmsloft í bókinni og allt er svolítið sakleysislegt og þægilegt. Það er enginn vondi kall, bara ævintýri og ráðgátur. Það var frískandi að fá að sleppa við dómsdaginn eða eitthvað hræðilegt sem vofir yfir okkur við lesturinn, Ráðgátugleraugun bjóða einungis upp á skemmtilegt ævintýri í leit að leikföngum.
Við mæðgin óskum eftir fleiri ævintýrum í þessum dúr frá Kristínu Björgu. Ráðgátugleraugun er spennandi, afslöppuð hversdagssaga með ævintýralegu ívafi og við mælum heilshugar með henni.