Þegar sannleikurinn sefur

Annað árið í röð sendir Nanna Rögnvaldardóttir frá sér skáldsögu og eru þær því orðnar tvær sem hún hefur sent frá sér. Nú kom út bókin Þegar sannleikurinn sefur sem er söguleg skáldsaga líkt og Valskan, bók Nönnu sem kom út í fyrra. Það sem er öðruvísi við bókina sem kemur út nú er að hún er ekki bara söguleg skáldsaga heldur einnig hrein og klár spennusaga og er það skemmtilegur vinkill.

Sagan gerist á Íslandi á 18. öld í samfélagi sem er markað af afleiðingum Stórubólu sem geisað hafði yfir landið nokkrum árum fyrr. Morð er framið. Ung vinnukona er myrt og ein af þeim fyrstu til að koma að líkinu er Bergþóra, ekkja og húsfreyja á Hvömmum. Vinnukonan er strax sett í það box af samfélaginu að hafa verið laus í rásinni og óhlýðin. 

Sögur fara á kreik og fljótt er farið að benda á mág Bergþóru sem morðingjann. Sýslumaður hefur rannsókn á málinu og fer að yfirheyra fólk og koma þá ýmsar sögur og leyndarmál upp á yfirborðið. Aðalsögupersóna bókarinnar, hún Bergþóra, leiðir lesandann í gegnum söguna og tekur virkan þátt í að leysa ráðgátuna. Sjálf hefur hún mögulega einhver leyndarmál að fela sem tengjast og tengjast ekki sakamálinu. 

Spennandi með frábæra fléttu

Bókin var ánægjulestur út í gegn. Hún er auðlesin og er hrein og klár dægrastytting. Spennandi saga sem hélt mér vel við lesturinn, enda er fléttan góð og úrlausn málsins kom mér sannarlega á óvart. Það var ánægjulegt að lesa sögulega skáldsögu sem á að gerast í íslensku samfélagi en er jafnframt glæpasaga með dass af rómans. Þar að auki kann ég að meta að aðalsögupersónan er sterk kona sem ræður sér sjálf að mestu leyti, allavega þegar við kynnumst henni.

Það voru tvenn hugrenningatengsl sem vöknuðu upp hjá mér við lesturinn. Annars vegar renndi ég hug til bóka eftir Agöthu Christie en hlutverk Bergþóru í sögunni minnti mig smávegis á persónur eins og Miss Marple eða Hercule Poirot. Svo voru það yfirheyrslurnar, lýsingarnar á þeim og samtölin sem minntu mig á þær ýmsu bækur sem skrifaðar hafa verið um til dæmis mál Agnesar og Friðriks og einnig morðanna á Sjöundá. Nanna tekur fram í eftirmála að hún hafi stuðst eilítið við söguna af Magnúsi Benediktssyni í Hólum og Úlfár-Gunnu sem gerðist í Eyjafirði í upphafi 18. aldar – og var víst eitt af umtöluðustu sakamálum þess tíma. Svo hugrenningartengsl mín til bóka um önnur íslensk sakamál eru kannski ekki skrítin, en ég telst ekki til þeirra sem þekkja mál Magnúsar og Úlfár-Gunnu vel.

 

Heillandi kaflatitlar

Nanna heillaði mig sem rithöfundur skáldsagna með Völskunni og gerir það aftur nú. Lýsingar Nönnu á mat og aðbúnaði fólks eru vel gerðar. Eðlilega er kona sem gefið hefur út ógrynni af matreiðslubókum og einnig fræðibækur um mat hæf í að lýsa öllu sem því tengist. Það sem hún er hinsvegar líka virkilega góð í er að lýsa aðstæðum þannig að maður lifi sig inn í söguna. Lýsing Nönnu á jarðarför Sigrúnar, vinnukonunnar sem var myrt, er eitthvað sem sat í mér um stund við lesturinn og setti einnig hljóminn fyrir hver staða Sigrúnar var í virðingarstiga samfélagsins. Allt frá lýsingunni á líkklæðunum, fljótheitunum við jarðarförina og hvernig hún endaði þegar líkið var flutt í kirkjugarðinn. Svo eru það orðin sem Nanna notar. Það voru hugtök og heiti sem ég hafði ekki orðið vör við í bók eða annarsstaðar í langan tíma og ég verð að viðurkenna að það voru allavega tvö orð sem ég þurfti að fletta upp og skellti ég nú uppúr yfir einu orði sem var notað til að lýsa líkamshluta. En svo voru það líka kaflaheitin sem mér fannst hreint undursamleg. Þetta litla smáatriði að notast ekki bara við kaflanúmer heldur nefna kaflana heitum og það líka svona skemmtilegum og útpældum heitum. Heiti sumra þeirra minntu mig á heiti smásagna sem birtust oft í tímaritum sem komu út um miðbik síðustu aldar. Virkilega skemmtilegt og vel framkvæmt smáatriði sem ég kunni að meta við lesturinn. Það sem helst væri hægt að setja út á er að persónusköpunin gæti mögulega hafa verið aðeins dýpri þegar kemur að sumum persónunum en hafa ber í huga að þetta er glæpasaga. Hún þarf ekki að vera djúp og tikka í öll box í bókmenntafræðilegum skilningi. Hún þarf að vera spennandi, áhugaverð, halda manni við lesturinn og vera vel skrifuð. Þegar sannleikurinn sefur tikkar í þau box.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...