Bókakápa Aldrei aftur vinnukona

Ég hef mikið verið að gramsa eftir bókum skrifuðum um konur, helst um konur sem ekki eru sérlega þekktar. Allavega ekki hjá minni kynslóð. Í þessu gramsi mínu rakst ég fyrr á þessu ári á tvær bækur sem heita Aldrei nema kona (2020) og Aldrei nema vinnukona (2022) og eru eftir Sveinbjörgu Sveinbjörnsdóttur. Ég las þær og þótti þær alveg frábærar og var því virkilega glöð þegar ég sá að útgáfufyrirtækið Króníka gaf út nú í síðasta mánuði þriðju bókina í þessum bókaflokki eftir Sveinbjörgu, sú ber titilinn Aldrei aftur vinnukona

 

Þessar bækur eru afrakstur ættfræðigrúsks höfundar en hún hóf fyrir nokkrum árum að skoða móðurætt sína og eins og segir aftan á kápu nýjustu bókarinnar, þá varð þetta grúsk að þriggja bóka flokki. Bækurnar eru heimildaskáldsögur og fylgja sögu kvenna úr ætt höfundarins á 18. og 19. öld. Sögu fátækra kvenna sem með þrautseigju og æðruleysi takast á við lífið og tilveruna á þeim tíma sem þær voru uppi. 

Sker sig úr

Aldrei aftur vinnukona sker sig aðeins frá fyrstu tveim bókunum, þó hún sé framhald þeirra, því þar fylgja lesendur eftir Þuríði sem ákvað að ferðast alla leið til Ameríku í leit að betra lífi. Lífið var orðið erfitt á Íslandi og Þuríður vildi frekar taka áhættuna og sjá hvað væri í boði hinu megin við hafið heldur en að hýrast áfram ævilangt sem vinnukona á Íslandi. Við fylgjumst því með ferðalagi hennar og samferðafólks hennar til Ameríku og fyrstu árunum þar. Einnig fylgjumst við með systur Þuríðar í gegnum dagbókarskrif en hún bjó áfram á Íslandi og ól þar upp sín börn.

 

Áhættusamt ferðalag

Ég er mikill aðdáandi sögulegra skáldsagna og ekki þykir mér það verra þegar þær eru byggðar á ævi fólks sem var til í raun og veru, þó auðvitað sé getið í eyðurnar út frá þeim heimildum sem til eru. Bækur Sveinbjargar eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Persónur hennar eru virkilega áhugaverðar og hún fer listilega að því að taka þær heimildir sem til eru og skálda í kringum þær. Það er vandmeðfarið að gera það vel en Sveinbjörgu tekst það. Í Aldrei aftur vinnukona lýsir Sveinbjörg ferðalagi Þuríðar til Ameríku á svo ítarlegan hátt að mér leið eins og ég væri stödd um borð í skipinu eða þrammandi með Þuríði og hennar ferðafélögum á leið á áfangastað þegar þau voru komin frá borði í Ameríku. Það er hreint með ólíkindum að fólk hafi lagt upp í þessi ferðalög á sínum tíma því ekki voru þau auðveld og oft hreint hættuleg, sérstaklega fyrir börn og eldra fólk. 

 

 Stórkostlegur bókaflokkur

Bækur Sveinbjargar eru frábærar að mínu mati. Þær eru vel skrifaðar, vel úthugsaðar og þetta er hreint stórkostlega skemmtilegur og fræðandi bókaflokkur.  Það er heldur aldrei til nóg af bókum sem segja sögur kvenna. Ég mæli svo sannarlega með lestri þeirra. Ég hef heyrt það sagt og ritað að seinni tvær bækurnar séu sjálfstætt framhald af þeirri fyrstu og svo af annarri bókinni en ég verð að vera því algjörlega ósammála. Það má vel vera að hægt sé að lesa þær ekki í röð en ég mæli þó eindregið með því að gera það. Ég vona innilega að Sveinbjörg láti ekki hér við sitja og skrifi fleiri sögulegar skáldsögur.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...