Morð og hlátur – hvernig má það vera?

16. september 2025

Bókakápa bókarinnar Morð og messufall

Í sumar kom út bókin Morð og messufall hjá Forlaginu. Hún er skrifuð af Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur en hingað til hafa þær báðar verið þekktar fyrir að skrifa barna- og ungmennabækur saman og í sitthvoru lagi. Morð og messufall er fyrsta skáldsagan sem þær skrifa fyrir fullorðna.

Bókin fjallar um Sif Hólmkelsdóttur, nýútskrifaðan guðfræðing sem á sér einföld markmið: að halda foreldrum sínum í skefjum og tryggja örugga framtíð fyrir son sinn. Hún vonast eftir prestsembætti en í sínu fyrsta atvinnuviðtali lendir hún í óvæntu áfalli þegar séra Reynir finnur lík við altarið. Í kjölfarið er henni boðið tímabundið starf sem kirkjuvörður í stað prestsembættis og ákveður hún að taka því til að sýna hvað í henni býr. Þegar hún kynnist svo kirkjunni og fólkinu sem henni tengist kemur í ljós að ýmislegt er í ólestri. Organistinn er hættur, bókhaldið er í óreiðu, ungmennastarfið í vanda og einn piltur úr þeim hóp horfinn sporlaust. Sif getur ekki horft framhjá þessum atriðum sem og morðinu sjálfu og flækist inn í rannsóknina á málinu – auðvitað!

Farsakennd glæpasaga

Þetta er glæpasaga sem minnir samt sem áður á einhvern farsa. Gamanleik í leikhúsi þar sem stórfurðulegar persónur mæta á svið, eru misfyndnar, taka mismikið pláss, eru miserfiðar og miseftirminnilegar. Arndís og Hulda hafa greinilega gott auga fyrir persónusköpun. Margar persónurnar eru dregnar upp af mikilli nákvæmni og fannst mér þær stundum ganga ljóslifandi fram af síðunum. Svo eru aðrar sem eru ekki jafn lifandi, ekki jafn eftirminnilegar og eru meira í bakgrunni. Það var ekki veikleiki að mínu mati heldur mögulega frekar meðvitaður gjörningur til að draga ekki athygli af þeim sem eiga að standa út úr.

Það sem mér fannst sérstaklega skemmtilegt við persónusköpunina er hversu kunnuglegar þessar týpur eru. Ég þekkti Pétur, Kormák og Jódísi strax, ekki persónulega, heldur sem ákveðnar týpur sem við öll hittum í okkar samfélagi. Þau eru afrit af fólki sem við höfum flest séð í kringum okkur á einhverjum tímapunkti í lífinu og það eykur á ánægjuna við að lesa bókina. 

Foreldrar Sifjar, aðalsögupersónunnar, eru sérkapítuli að mínu mati. Þau pirruðu mig mest af öllum, aðallega því þau eru skrifuð á þann hátt að mér fannst ég skynja strax hvaða undirstöður Sif hafði fengið í lífinu. Uppeldið, eða kannski öllu heldur upphafið sem þau veittu henni, varpar ljósi á hvers konar manneskja hún er og af hverju hún bregst við aðstæðum sem hún lendir í eins og hún gerir. Þetta gerir hana ekki aðeins að trúverðugri sögupersónu, heldur sýnir líka hversu mikið fortíðin getur mótað viðbrögð fólks í ólíkum aðstæðum.

 

Getur verið hlátur þar sem er morð?

Þó að morðið sjálft sé aðaldrifkraftur frásagnarinnar, er bókin jafn mikið um samskipti og tengsl. Það er dularfullt morð sem þarf að leysa, en það sem heldur lesandanum við efnið eru líka samtölin, samskiptin og hin mannlegu smáatriði. Það er þessi blanda sem gerir Morð og messufall að kósýkrimma frekar en hefðbundnum spennutrylli. Það má jafnvel segja að það sé léttur rómantískur strengur í sögunni með möguleg „Vinir verða ástfangin“ þema í samskiptum Sifjar og Benedikts, mágs hennar. Það er ekki gert gríðarlega mikið úr því, bara aðeins snert en það bætir við lagi af hlýju sem kemur óvænt og brýtur upp morðgátuna á skemmtilegan hátt.

Styrkleikar sögunnar að mínu mati liggja fyrst og fremst í húmornum enda væri ólíklegt að ég hefði lesið hana annars. Það er sjaldgæft að glæpasaga láti man flissa en hér tekst höfundum að skapa aðstæður sem eru svo fáránlegar að þær verða fyndnar án þess þó að skemma ráðgátuna sjálfa. Bókin fær man til að hugsa, en líka til að skemmta sér. Séra Reynir er náttúrulega algjör brandari út af fyrir sig!

Það sem kannski helst truflaði mig var hraðinn. Sum atriði dragast heldur á langinn og spennan missir aðeins mátt. Þó er það ekki þannig að sagan verði það hæg að man fyllist óþolinmæði og gefist upp heldur meira að maður hefði viljað örlítið meira púður af og til. 

Kósýkrimmi, ekki taugatrekkjandi hryllingur

Morð og messufall er fyndin, litrík og skemmtilega farsakennd glæpasaga. Hún býður ekki upp á sturlaða spennu eða traugatrekkjandi hrylling, heldur kallar á góðan kaffibolla, ullarteppi með dass af hneykslan yfir fáránleika sumra persónanna. Hún er fyrir þá sem vilja spennusögu þar sem engin bitur lögregla er í aðalhlutverki (meira bara gert smá grín að henni), þar sem viðbjóðurinn er í lágmarki og áhugaverðar persónur koma við sögu sem sumar eru fyndnar og fáránlegar og aðrar eru alvarlegri að glíma við sína djöfla, og fyrir þá sem vilja hlæja jafnvel þó morð sé grunnurinn að sögunni.

Útkoman af þessu fyrsta samstarfi Arndísar og Huldu þar sem þær skrifa fyrir fullorðna er kósýkrimmi þar sem lesandinn fær að njóta þess að fylgja ráðgátu sem er í forgrunni frá upphafi til enda, en um leið hlæja yfir því hversdagslega og stundum bráðfyndna mannlega atferli sem fléttast inn í söguna.

Lestu þetta næst

Off the Grið

Off the Grið

Aftenging er fyrsta bók lögfræðingsins Árna Helgasonar og kom út hjá Bjarti á dögunum. ...

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...