Bækur um sögusmíði

18. september 2025

Eitt af mínum áhugamálum, fyrir utan að lesa bækur og skrifa bækur, er að lesa bækur sem fjalla um það að skrifa bækur. Verandi INTJ persónuleikatýpa með „deep-seated thirst for knowledge“ þá kemur það kannski ekki á óvart að ég elski að sökkva mér ofan í bækur sem bæta og efla þekkingu mína. Ég ákvað því að taka saman lista yfir nokkrar bækur sem hafa gagnast mér í gegnum tíðina og sem ég tel að aðrir höfundar gætu líka haft gagn og gaman af.

Creating character arcs: The Masterful Author’s Guide to Uniting Story Structure, Plot and Character Development eftir K.M. Weiland

Það er ekki ofsögum sagt að það hafi verið ákveðinn vendipunktur á ferli mínum sem höfundur þegar ég las bókina Structuring Your Novel eftir K.M. Weiland. Eftir þann lestur skildi ég mikilvægi söguuppbyggingar. Í Creating Character Arcs sýnir Weiland hvernig taktur söguuppbyggingar helst í hendur við þróun og umbreytingu persóna. Weiland hefur skrifað fjölda bóka og vinnubóka um sögusmíði og er hafsjór fróðleiks. Vefsíðan hennar Helping Writers Become Authors var nýlega valin á lista Writer’s Digest yfir bestu vefsíðurnar fyrir rithöfunda, 12. árið í röð. Ég mæli eindregið með bókum hennar, vefsíðu og hlaðvarpi. Efnistökin eru yfirgripsmikil en mjög skipulega sett fram. Weiland segir sjálf að ef hún ætti að mæla með aðeins einni bók eftir sig þá væri það Creating Character Arcs.

The Emotional Wound Thesaurus: A Writer’s Guide to Psychological Trauma eftir Angela Ackerman og Becca Puglisi

Þær Angela Ackerman og Becca Puglisi eru engir aukvisar í bransanum. Ásamt því að hafa skrifað fjölda svokallaðra „Thesaurus“ bóka um sögusmíði halda þær úti vefsvæðinu One Stop for Writers sem er lýst sem „stærsta show-don’t-tell gagnabanka heims.“ Í Emotional Wound Thesaurus er kafað djúpt í tiltekin atburð í baksögu persónu sem hefur gert hana að þeirri manneskju sem hún er í dag (K.M. Weiland kallar þennan atburð Ghost). Þær stöllur Ackerman og Puglisi sýna hvernig við sem höfundar getum skapað trúðverðugar persónur með því að skilja hvert þeirra „emotional wound“ er. Ég mæli eindregið með öllum „Thesaurus“ bókunum og One Stop for Writers sem er verkfæri sem ég nota á hverjum degi.

Ferð höfundarins: Hugmyndaheimur goðsagna í kvikmyndum og skáldskap eftir Christopher Vogler

Ferð höfundarins heitir á frummálinu The Writer’s Journey: Mythic Structure for Writers og þrátt fyrir titilinn þá á hún erindi við alla höfunda, ekki bara þá sem skrifa ævintýra- eða fantasíubækur. Í henni fjallar Vogler ítarlega um Hero’s Journey og erkitýpur og hvernig flestar góðar sögur fylgja ákveðnum hefðum og strúktur sem eiga rætur að rekja í goðsagnir. 

Wired for Story eftir Lisa Cron

Ég er ekkert að grínast þegar ég segi að mér finnist taugavísindi heillandi fræðigrein. Og þegar ég sá að ritstjórinn og „söguþjálfarinn“ Lisa Cron var búin að skrifa bók sem notar taugavísindi til að útskýra hvað það er sem við elskum við bækur, já þá getið þið verið viss um að ég las þá bók upp til agna. Það er augljóst frá byrjun Wired for Story að Cron talar til höfunda sem skrifa svokallaðar „genre-“ eða „commercial fiction“ – sem sagt afþreyingarbókmenntir – og því þarf að setja sig í þær stellingar við lesturinn. Hún talar tæpitungulaust um það hvað virkar og hvað virkar ekki þegar skrifa á bækur „sem selja“ eins og hún orðar það. Ég get alveg skilið að bókin sé fráhrindandi fyrir ákveðinn hóp höfunda en hún inniheldur helling af góðum ráðum fyrir þá höfunda sem Cron talar til. Ég mæli líka með öðrum bókum hennar: Story Genius og Story or Die.

The Creative Act: A Way of Being eftir Rick Rubin

The Creative Act er ekki beinlínis bók um sögusmíði heldur frekar hvernig hægt er hlúa að sér sem listamanni í gegnum hringrás sköpunarferlisins. Hægt er að hoppa inn og út úr bókinni eftir því hvar maður er staddur í ferlinu hverju sinni. Bókin byrjar á því að fjalla um orkuna sem felst í sköpunargáfunni og að listamaðurinn eigi að taka orkunni opnum örmum og fagna því, eða í það minnsta sætta sig við það, að hann sé nákvæmlega það: listamaður. Rubin tekur aðrar áskoranir sköpunarferlisins fyrir og gefur heilræði um hvernig takast megi á við þær. Því á endanum er það verkefni listamannsins að klára eitt verkefni og byrja á því næsta. Það er hringrásin og hún er náttúruleg. The Creative Act ætti að vera til á öllum heimilum núverandi eða verðandi listamanna.

Writing from the Inside Out eftir Dennis Palumbo

Ef þú sem höfundur hefur einhvern tímann hugsað hvort þú ættir að ræða við sálfræðing um það hvernig það er að vera höfundur þá er það nákvæmlega tilgangurinn með bókinni Writing from the Inside Out. Palumbo var rithöfundur og handritshöfundur í mörg ár áður en hann fór í sálfræðinám og varð klínískur sálfræðingur. Skjólstæðingar hans eru fyrst og fremst höfundar og Palumbo nýtir bæði eigin reynslu sem höfundur og sína faglegu þjálfun sem sálfræðingur í vinnu sinni með skjólstæðingum og þegar hann ritaði þessa bók. Þegar maður er staddur á erfiðum stað í sköpunarferlinu (lesist: eðlilegum stað) og neikvæðar hugsanir leita á mann er þessi bók frábært fyrsta stopp til að rjúfa þann þankagang.

Lestu þetta næst

Off the Grið

Off the Grið

Aftenging er fyrsta bók lögfræðingsins Árna Helgasonar og kom út hjá Bjarti á dögunum. ...

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...