Fjörðurinn, húsið og leyndarmálin

3. nóvember 2025

Það var rétt fyrir jólin í fyrra sem ég rak augun í bókina Í djúpinu eftir Margréti S. Höskuldsdóttur og las. Ég tók hana upp því hún var sögð vera spennusaga sem gerist á Vestfjörðum og væri með spúkí undirtón og jafnvel smá draugabrasi. Mér fannst sú bók alveg frábær þannig að ég var ansi spennt þegar ég sá að Margrét sendi frá sér aðra bók nú í ár. Lokar augum blám er titill hennar, en sú er sjálfstætt framhald bókarinnar Í djúpinu

 

Í Lokar augum blám erum við aftur stödd á Vestfjörðum og fylgjumst með lögregluteyminu Rögnu og Berg sem við kynntumst í fyrri bókinni. Sagan hefst á að tveir ungir kajakræðarar hverfa í Dýrafirði og fær lögreglan á Vestfjörðum það mál til sín. Bergur er nú fluttur til Flateyrar þar sem hann starfar hjá lögreglunni á Vestfjörðum og býr hjá föður sínum. Hann fær því þetta mál til sín, að leita að mönnunum tveimur, og fær með sér liðsauka úr höfuðborginni, hana Rögnu. Á sama tíma er ungt par að gera sér heimili í gömlu húsi á Flateyri. Konan, Elena, er af erlendum uppruna en sambýlismaður hennar, Svavar, á tengingu við Flateyri og eftir erfið ár í höfuðborginni hafa þau ákveðið að söðla um og flytja vestur til að endurstilla sig og sitt líf saman. Undarlegir hlutir fara að gerast í tengslum við húsið sem á sér nöturlega sögu og Elena veit ekki í hvorn fótinn hún á að stíga.

Draugar? Kannski. Stemning? Já, slatti.

Líkt og áður byggir Margrét sögusviðið einstaklega vel upp enda er hún vel kunnug staðháttum á Vestfjörðum. Ég hef ferðast um þennan hluta Vestfjarða og gat ég í huganum staðsett mig allsstaðar þegar ég las söguna. Það var mjög heillandi því mér þykir einstaklega gaman að lesa spennusögur sem gerast á Íslandi og þá sérstaklega þegar þær gerast ekki á eða í kringum höfuðborgarsvæðið. Persónur bókarinnar voru miseftirtektarverðar eins og búast má við í spennusögum. Persónurnar Bergur og Ragna eru áfram áhugaverðar og þá sérstaklega með tilliti til þess að jú, þau eru að glíma við allskonar persónuleg mál eins og allar manneskjur gera – löggur eða ekki – en Margrét forðast sem betur fer að falla í þá gömlu gryfju að gera þau að bitrum, þunglyndum rannsóknarlögreglumönnum sem engan þola. Það er einstaklega hressandi! Sú persóna sem skar sig svo úr á eftir þeim var Elena, unga konan sem er að gera upp húsið á Flateyri með Svavari sambýlismanni sínum. Hún er af erlendum uppruna og flytur í þetta gamla hús sem virðist eiga sér einhverja fortíð. Hún þekkir engan þarna nema Svavar en hann vinnur mikið og húsið sem þau flytja í er staðsett aðeins fyrir utan þorpið svo hún er talsvert einangruð í þokkabót. 

 

Sagan sem ég treinaði því hún var of góð

Þessi tvö mál sem einkenna bókina, hvarf ungu mannana og svo saga sambýlisfólksins Elenu og Svavars eru einstaklega vel sett upp af Margréti. Hún byggir málin vel upp og tvinnar inn spennu og eftirvæntingu af mikilli nákvæmni og svo þegar fléttan leysist kemur margt listilega vel á óvart. Bókin hélt mér á tánum, en á sama tíma tímdi ég ekki að klára hana í einum rykk. Ég vildi njóta hennar og las hana hægt sem er sjaldgæft hjá mér þegar kemur að spennusögum. Þó þetta sé „enn ein spennusagan“ í jólabókaflóðinu þá sker Lokar augum blám sig úr. Hún er bæði spennandi og virkilega vel skrifuð og það er blanda sem á alltaf skilið sérstaka athygli.

Lestu þetta næst

Off the Grið

Off the Grið

Aftenging er fyrsta bók lögfræðingsins Árna Helgasonar og kom út hjá Bjarti á dögunum. ...

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...