Barnsmorð á Skárastöðum

Þar sem skömmin skellur -Skárastaðamál í dómabókum eftir Önnu Dóru Antonsdóttur, sagnfræðing, er í senn bæði dáleiðandi lesning, upplýsandi og hræðileg (í þeim skilningi að atburðirnir eru skelfilegir). Skárastaðamál er 160 ára gamalt dómsmál þar sem dauði tveggja ungbarna er rannsakaður, annað barnið finnst hvergi. Að auki hefur Skárastaðabóndinn verið sakaður um sauðaþjófnað.

Anna Dóra byrjar bókina með hvelli. Svo miklum í raun að lýsingarnar ollu mér velgju, en ég varð að vita meira. Hvernig dó ungabarnið? Hver fyrirfór því? Því strax á fyrstu síðum er það augljóst að það var ekki móðirin sjálf sem deyddi barn sitt heldur einhver annar. Atburðirnir gerðust í Miðfirði í Húnavatnssýslu, ekki svo löngu eftir að Agnes og Friðrik voru líflátin fyrir sín brot. Þeir atburðir voru í fersku minni fólksins á staðnum og svo virðist sem þögn, afskiptaleysi og ótti ráði ríkjum. Tvær konur eru barnshafandi á Skárastöðum. Önnur eignast barnið, en hin „lætur það ekki koma í ljós“.

Íslenskar dómabækur eru ómetanleg heimild um íslenskt samfélag. Vitnaleiðslur, eins og þær sem Anna Dóra greinilega styðst við í bókinni, gefa ekki bara upplýsingar um liðna atburði heldur einnig álit dæmenda á vitnunum, samfélagsstöðu, andrúmsloft í baðstofunni og svo margt fleira. Til dæmis er þar að finna læknisvottorð þar sem talað er umvinnukonur sem greinilega vitgrannar og svo margt fleira. Mér virðist sem Anna Dóra hafi nýtt sér þessa brauðmola sem hægt er að tína upp á milli línanna til að skapa dýpri söguþráð. Af og til fær lesandi að gægjast inn í huga löngu látinna sýslumanna og hreppstjóra. Nú, eða valdasjúks og drykkfellds húsbónda. En líka inn í huga kvenna, sem hingað til hafa ekki fengið mikið pláss í sögubókum. Meðferð Önnu Dóru á heimildunum sem hún notar er til sóma, að mínu áliti. Bókin verður þó seint talin til „harðra“ heimilda, þar sem Anna Dóra gefur sér örlítið skáldaleyfi. Fyrir vikið verður bókin auðveldari aflestrar og höfðar til breiðari lesendahóps.

Íslenskar dómabækur eru yfirfullar af dulsmálum, þar sem konur leggja dul á óléttu sína, eignast barnið einar og láta það aldrei koma í ljós. Flestar kvennanna sem fengu dóma fyrir dulsmál í íslenskri dómasögu voru vinnukonur. Vinnukonur sem vissu ekki hvað annað þær gátu gert, en að láta börnin aldrei koma fram. Það er sár tilhugsun. Sjálf hef ég eytt meiri tíma en ég hefði þurft að gera í að lesa heilt dómsmál um dulsmál í Eyjafirðinum á svipuðum tíma og Skárastaðamálið. Texti Önnu Dóru kvikar ekki langt frá því sem kemur fram í dómabókum. En þó hefur hún lagst í einhverjar frekari rannsóknir, kryddað hér og þar og í lok bókarinnar fær lesandi að vita afdrif allra helstu leikanda í Skárastaðamálinu.

Sagt er að aldrei eigi að dæma bók af kápunni, en við vitum öll að við gerum það samt. Kápan á Þar em skömmin skellur er algjörlega úr takti við innihaldið. Þar er mynd af nútímalegum múr með gaddavír, sem á engan hátt gefur til kynna þá fortíð sem leynist í bókinni. Vissulega væri hægt að túlka múrinn sem þagnarmúr, sem umlukti allt íslenskt samfélag, en þá þarf maður að vita innihald bókarinnar.

Anna Dóra tekur sér skáldaleyfi til að skapa andrými í texta sem annars er hætt við að verði of þurr. Skárastaðamál sjálft er umtalað í íslenskri sögu og Önnu Dóru tekst vel til við að koma málinu til nútíma lesenda án þess að fara of langt frá því sem raunverulegar heimildir segja til um.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...