Kríli í draumkenndri bók Tove

Tove Jansson, skapari múmínálfanna, er snillingur í að töfra fram draumkenndar sögur og gerir það bæði með orðum og myndum. Fyrir stuttu kom út á íslensku myndabók úr múmínheiminum Hver vill hugga krílið? Bókin er í bundnu máli í listilegri þýðingu Þórarins Eldjárns.

Krílið er hrætt, einmana og gríðar feimið. Það býr aleitt úti í skógi en ákveður að fara í leit að betra lífi og freista þess að fá félagsskap. Það er þó erfitt þegar maður er feiminn og hræddur. En þegar einhver annar þarfnast hjálpar, þá hverfur feimnin og hræðslan.

Bókin er falleg á allan hátt. Myndirnar eru töfrandi og það er hægt að skoða hverja blaðsíðu aftur og aftur. Þær eru litríkar og yfirfullar af furðuverum; filífjonkum, homsum og hemúlum. Alltaf eitthvað til að benda á og spyrja út í, eða bara dást að litunum. Það er eitthvað svo hlýtt við hverja blaðsíðu, þrátt fyrir að Krílið sjálft eigi ögn erfitt.

Það kemur nefnilega í ljós að það stoðar lítið segja ekkert af erfiðleikum sínum og bíða eftir að einhver hjálpi. Ef enginn veit af vandræðum Krílisins eða veit af því í skugganum þá getur enginn hjálpað eða boðið því að vera með. Og ef til vill er það boðskapurinn í bókinni – sagður í bundnu máli. Það þarf að bera sig eftir björginni og láta vita ef maður á bágt, leita sér hjálpar og hafa hátt um það. Ef maður segir ekki frá þá veit enginn að maður á bágt. Til allrar hamingju endar allt vel hjá Krílinu.

Ég er svolítið svag fyrir barnabókum í bundnu máli. Þessi bók er nær óskiljanleg fyrir börn og hana þarf að lesa með þeim. Því freistast ég til að flokka hana sem fjölskyldubók, enda hafði lesarinn (ég) mun meiri ánægju af lestrinum en áheyrendurnir (tveggja og sjö ára). Þetta er bók ekki síður fyrir fullorðna en börn. Hún gefur tækifæri til umræðu um ný orð, öðruvísi myndskreytingar og boðskapinn í bókinni.

Hver vill hugga krílið? er gullfalleg bók fyrir allt múmínáhugafólk, nýtt og gamalt.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...