Vítisvélar, eftir Philip Reeve í prýðilega góðir íslenskri þýðingu Herdísar M. Hübner, er bók sem ég hlakkaði mjög til að lesa, hafði meira að segja sparað mér hana í marga mánuði. Bókin er flokkuð sem ungmennabók (YA) en gengur fyrir alla aldurshópa. Hún gerist í mjög fjarlægri framtíð, þegar borgir eru komnar á hjól, knúnar áfram af gufuvélum og lifa af því að éta hvora aðra – eins og rándýr á risastórum sléttum. En borgirnar eru þó ekki lifandi, í eiginlegri merkingu þess orðs, heldur stjórnað af manneskjum. Og sagan snýst um þessar manneskjur sem búa í þessum undarlega heimi sem Reeve hefur skapað. Reeve sækir innblástur í gufupönk, sem er töff út af fyrir sig, en hann náði alls ekki að fanga mig með sögunni – hvorki í bóka- né kvikmyndaformi. Einhverju sinni lofaði ég sjálfri mér að horfa ekki á bíómynd sem byggð er á bók áður en ég hefði lesið bókina. Ástæðan er sú að þegar maður hefur horft á myndina vill það verða svo að sýn kvikmyndagerðarfólksins á persónur og umhverfi verður fremur yfirgnæfandi yfir manns eigin ímyndunarafli. En stundum eru forvitnin og eftirvæntingin yfirsterkari og ég enda á að horfa á myndina áður en ég kemst í að lesa bókina. Það eru alltaf mistök. Ég velti því fyrir mér hvort slæm aðlögun að hvíta tjaldinu hafi eyðilagt bókina fyrir mér.
Þrjár aðalpersónur – tvö sögusvið
Sagan spinnst í kringum þrjár aðalpersónur (öll fimmtán ára): Tom Natsworthy er þriðja stigs sagnfræðilærlingur, Kate Valentínusar er dóttir hins valdamikla sagnfræðings Valentínusar og Hester Shaw er hin myrka kvenhetja og útlagi. Sögusviðið er Útilandið og London á hjólum. Tom verður fyrir því áfalli að falla af London og endar í Útilandinu með Hester Shaw. Saman reyna þau að komast aftur til London; Tom til að komast heim en Hester til að myrða Valentínus sem drap foreldra hennar og gaf henni hrottalegt ör í andlitið barnungri. Á meðan er Kate í London að reyna að kynna sér hver Hester Shaw sé og af hverju hún vildi myrða pabba hennar.
Í gegnum þessar tvær sögur, sem sameinast í lok bókarinnar, kynnist lesandinn heimi Reeve. Stórum heimi, þar sem auðlindir fara hratt þverrandi og fólk þarf í vaxandi mæli að reyna að endurnýta ólíklegustu hluti í örvæntingafullri tilraun til að lifa af.
Eins og ég sagði þá var ég spennt fyrir því að lesa bókina. Dystópíur eru sérstöku uppáhaldi hjá mér og Vítisvélar hljómaði eins og frábær dystópísk skáldsaga með dassi af gufupönki. Hugmyndin á bak við söguna er sem sagt mjög töff. En eftir því sem ég las meira þá fannst mér hún bara kjánaleg og illa uppbyggð. Fyrir það fyrsta þá fannst mér vanta tilfinnanlega á persónusköpunina. Tom er eina persónan sem fær einhvern tíma til að þroskast. Kate og Hester eru grunnar persónur sem virðast eingöngu geta búið yfir einni tilfinningu. Hester er alltaf reið og þurrprumpuleg og það eina sem skilgreinir hana er ljóta örið í andlitinu, sem maður myndi halda að krakki sem elst upp með Hrelli (hræðilegu vélmenni sem búið er til úr líki manneskju) myndi vera fljót að hrista af sér. Kate var alltaf uppfull af vantrú. Reeve ákvað líka að bæta rómantík við söguna, eins og hann hafi fengið ábendingu frá ritstjóra um að það þyrfti að bæta því við. Kossar milli ungmennanna komu því eins og skrattinn úr sauðaleggnum án þess að nokkur rómantík hafi verið byggð upp á milli þeirra. Aukapersónur í sögunni er nokkuð margar og Reeve reynir að fá mann til að bindast þeim tilfinningaböndum en mistekst það hrapalega. Þegar persóna lét lífið hélt ég áfram að lesa án þess að blikka auga. Mér var bara alveg sama!
Góð þýðing
Reeve setur mikið púður í að skapa heiminn en allt of lítið í að fullmóta persónurnar sem gerir það að verkum að lesandanum er nokkuð sama um hvað er að gerast í sögunni. Það var ómögulegt að ná tilfinningalegri tengingu við bókina. Sama vandamál á við um bíómyndina, þar sem Hrellirinn Shrike öskrar „HESTER“ endalaust og Hester, Tom og Kate virðast detta niður á ólíklegustu stöðum.
Bókin kom fyrst út árið 2001 og hefur fengið mjög góða dóma. Flestir lesendur bókarinnar á Goodreads hafa gefið bókinn skínandi dóma, segja hana hafa breytt lífi sínu og að þetta sé besti bókaflokkur sem þau hafi lesið. Vítisvélar er nefnilega fyrsta bókin af fjórum. Ég hugsa að ég gefi næstu bókum í bókaflokknum ekki tækifæri.
Þýðandi bókarinnar fær þó hól, þar sem það er erfitt að þýða vísindaskáldsögur með öllum þeim undarlegu nýju orðum og hugtakatengslum sem höfundum þeirra sagna dettur í hug að slengja fram. Herdísi tekst að sigrast á þeim áskorunum með prýði og afurðin er heilsteyptur texti sem flæðir vel áfram.