Kristín Ragna Gunnarsdóttir hefur haft hönd í fjölda barnabóka og er meðal annars höfundur bókanna um stjúpsystkinin Úlf og Eddu. Í ár sendir hún frá sér nýja bók og upphafið að nýrri tríólógíu, Nornasaga – Hrekkjavakan. Sagan segir frá Kötlu, sem er seinheppin og vinafá. Á Hrekkjavökunni sjálfri verður hún fyrir því óláni að hleypa Gullveigu úr prísund sinni. Gullveig fer hamförum á landinu en Katla virðist vera ónæm fyrir áhrifum hennar. Katla verður að koma í veg fyrir að Gullveig tortími heiminum og fær í lið með sér Mána, bekkjarbróður sinn. Líkt og í öðrum bókum Kristínar Rögnu er þessi listilega myndskreytt af henni sjálfri.
Þú sækir innblástur í norrænar goðsögur í Úlfi og Eddu. Hvaðan kemur innblásturinn að Nornasögu?
“Í bókaseríunni um Úlf og Eddu stillti ég nokkrum af kvenpersónum norrænna goðsagna fremst á sviðið. Ég skrifaði m.a. um Freyju, Sif, Frigg, Iðunni, Angurboðu og Rán. Gullveig varð frekar fúl yfir að fá ekki að vera með og fór að banka reglulega í öxlina á mér. Til að forða mér frá bölvun hennar lofaði ég að hún fengi að vera ein af aðalpersónunum í næstu bók. Á meðan ég skrifaði bækurnar um Úlf og Eddu var ég umkringd póstkortum sem veittu mér innblástur. Eitt þessara korta var gamalt Íslandskort líkt því sem er framan á kápunni á Nornasögu. Þegar ég var að skrifa síðasta kaflann í bókinni Úlfur og Edda: Drottningin sá ég allt í einu hreyfingu út undan mér líkt og Katla gerir í byrjun Nornasögu. Mér fannst sem sjórinn á landakortinu hefði hreyfst. Á því augnabliki kom hugmyndin að upphafi bókarinnar til mín. Mér datt í hug að láta Gullveigu gjósa upp úr eldfjallinu í landakortinu og þá var ekki aftur snúið. Ég varð að skrifa þessa bók.“
Hvernig kemst Katla í kynni við norrænar sagnir í Nornasögu?
„Katla vill komast að því hvaðan Gullveig er komin og hvað hún ætlar sér. Hún áttar sig smám saman á að Gullveig er norn og með aðstoð Uglu, mömmu sinnar sem er íslenskunörd, finnur hún upplýsingar um Gullveigu í Völuspá sem er frægt eddukvæði. Konungsbók eddukvæða reynist síðan mikilvægur hlekkur í lausn sögunnar.“
Hver er Gullveig?
„Gullveig er ævaforn norn úr heimi norrænna goðsagna. Hún hefur áður valdið miklum usla meðal goðanna og heldur nú Fullveldishátíð í Hörpu, leggur álög á landsmenn og gerir Hallgrímskirkju að höll sinni. En hún er ekki eina nornin í bókinni því Katla áttar sig á að systir Gullveigar hefur búið meðal manna í aldaraðir.“
Foreldrar Kötlu eru samkynhneigt par. Hvers vegna valdirðu að gefa henni tvær mæður?
„Þegar ég byrja að skrifa nýja bók teikna ég hugmyndakort fyrir aðalpersónurnar til að kynnast þeim betur. Mér varð fljótlega ljóst að Katla ætti tvær mæður. Samband þeirra reynist síðan mikilvægt í heildarsamhengi Nornasögutrílógíunnar en Nornasaga – Hrekkjavakan er fyrsta bókin af þremur.“
Hér fyrir neðan er hægt að lesa formála bókarinnar:
Formáli
(mjög mikilvægur)
Ég heiti Katla Þórdísar- og Ugludóttir og skrifa þessa sögu því líf mitt liggur við (eins og sagt var í gamla daga). Hafið þið nokkuð heyrt um Egil Skallagrímsson? Ugla, mamma mín, er með hann á heilanum. Bróðir minn þolir það ekki. Hann segist vera með bráðaofnæmi fyrir Íslendingasögum. Það sem mér finnst merkilegast við Egil Skallagrímsson er að hann samdi ljóð til að bjarga eigin höfði. Án djóks! Ef hann hefði ekki samið kvæðið hefði hausinn á honum verið höggvinn af. Hrikalegt! Líkt og Egill þarf ég að segja þessa sögu til að bjarga eigin skinni … og mögulega ykkar líka.
Egill samdi ljóðið fyrir kónginn Eirík blóðexi (sannarlega nafn við hæfi) og kallaði það „Höfuðlausn“. Eiríkur átti göldrótta konu sem hét Gunnhildur. Hún var svakaleg og vildi losna við Egil í eitt skipti fyrir öll. Hann var því í mikilli hættu. Ætli hann hafi nokkuð pissað á sig af hræðslu þegar hann átti að fara að flytja kvæðið? Hvað ef það þætti ekki nógu gott? Hvað ef Egill hefði beygt eitthvert orð vitlaust? Mamma segir að það sé dauðasök. Hún er sko algjör íslenskunörd og er alltaf að leiðrétta alla á heimilinu. En kannski hafði Egill bara engar áhyggjur. Hann var víst snaróður og drap fyrsta manninn þriggja ára gamall. Kári, bróðir minn, hefur stundum sagt að ég sé snaróð. Ég hef þó engan drepið og verð að viðurkenna að eftir það sem hefur gerst síðastliðna þrjá daga er ég logandi hrædd.
Ljóðið „Höfuðlausn“ birtist í Egils sögu og sagan sem ég ætla að segja ykkur hefði kannski átt að heita Kötlu saga eða Gullveigar saga en … uss, við skulum ekki segja það upphátt. Nöfn í heimi galdra eru afar máttug. Þið munið, Voldemort og allt það. Þess vegna nefni ég hana Nornasögu, svona til öryggis. Ekki vil ég kalla yfir okkur bölvun. Síst af öllu bölvun Gullveigar!