Eftirlitslaus börn í Austurbænum

Randalín, Mundi og leyndarmálið er fjórða bókin um vinina tvo í Austurbænum. Bækurnar eru eftir Þórdísi Gísladóttur sem skrifar textann og Þórarinn M. Baldursson sem teiknar myndirnar. Þau Randalín og Mundi eru börn sem líklega eru í yngri bekkjum grunnskóla, en skólasókn er þó víðsfjarri þeirri tilveru sem lýst er í bókunum. Bækurnar fjalla um sumarbústaðaferðir, könnunarleiðangra með strætisvagni og leiki í bakgörðum. Alltaf gerist síðan eitthvað óvænt sem kryddar rækilega upp á þessi hversdagsævintýri.

Í nýjustu bókinni er komið haust og farið að kólna. Randalín lætur það þó ekki stoppa sig í að ganga berfætt í skónum og þau Mundi eru á sífelldu vappi um götuna sína. Þau eignast nýjan vin, stofna rapphljómsveit og njósna um grunsamlegan nágranna.

Þriðja bókin um Randalín og Munda kom út árið 2015, hvað kemur til að þið ákváðuð að endurlífga seríuna?

„Ég lít ekki beint á þetta sem endurlífgun, þau voru alltaf lifandi. Fyrsta bókin um Randalín og Munda kom út haustið 2012 og ég hugsaði þá bara um hana sem eina staka bók en ekki ritröð. Svo leið ár og ég skrifaði aðra bók um þau og hélt þá að hún yrði sú seinni en síðan kom sú þriðja 2015. Ég held alltaf að allt sem ég skrifa sé mitt síðasta orð og að ég muni aldrei skrifa neitt framar þegar ég klára bók. Mér líður einmitt þannig núna, bæði varðandi Randalín og Munda og ljóðaskrif (ég var að gefa út ljóðabókina Mislæg gatnamót um daginn). Í fyrra skrifaði ég útvarpsleikrit um Randalín og Munda og bókin sem kemur út núna er sprottin upp út því verkefni. Málið er svo líka að það er vaxandi eftirspurn eftir þessum krökkum. Fólk er almennt frekar seint að kveikja á barnabókum, höfundarnir þurfa helst að vera sprellandi og æpandi á torgum veifandi höndunum til að þær fái athygli, en eftir því sem árin líða og lesendur fyrstu bókarinnar stækka og eldast hef ég fengið sífellt fleiri pósta og spurningar um hvort ég ætli ekki að skrifa fleiri bækur um Randalín og Munda. Ég gæti trúað að ég endi eins og Tove Jansson, sem seldi kannski 300 eintök af fyrstu bókunum um Múminálfana, Randalín og Mundi verða sennilega á bollum, lyklakippum og sængurverum þegar ég er dauð.“

Þau Randalín og Mundi eru býsna ólíkir karakterar, hún er mikil æðibuna á meðan hann er meiri intróvert. Samt ná þau svona vel saman. Byggirðu þau á einhverjum fyrirmyndum úr raunveruleikanum, eða er þetta bara góð blanda til að drífa áfram söguþráðinn?

„Það eru engar beinar fyrirmyndir að þeim en þau eru samt bæði alveg eins og fólk sem ég þekki og hef umgengist alla mína ævi. Randalín er hugmyndarík og frekar óforskömmuð en Mundi dálítið bældur og vel upp alinn. Þau eru bara eins og fólk er almennt, held ég, við erum flest bæði hvatvís og bæld í misstórum skömmtum og þegar skáldaðar persónur eru annars vegar er gott að ýkja persónurnar aðeins til að gera söguna skemmtilegri. Einhverjum lesendum hefur blöskrað hvernig Randalín hegðar sér, ég hef alveg fengið að heyra það, en ég hef samt kynnst óþekkari og sérvitrari krökkum en henni. Það eru líka persónur í bókunum sem tala ekkert sérstaklega vandaða íslensku og ég er ekkert meðvitað að vinna með þjóðararfinn og leggja mig fram um að láta sögupersónurnar tala vandað bókmál sem gæti fallið betur í kramið hjá kennurum og öfum og ömmum eða fólki sem leitar að málfarsfyrirmyndum. Ég gæti það auðvitað alveg og það væri jafnvel einfaldara að skrifa þannig (ég er frekar gömul kona, alin upp af fólki sem talaði hálfgert fornmál og ég er með mjög fín próf í gamaldags fræðum og hef lesið goðafræði, orðsifjafræði og Íslendingasögurnar komplett), en ég bara nenni því ekki því ég er svo mikill sósíalrealisti að mér finnst miklu skemmtilegra að láta sögupersónur segja að einhver sé alveg osom en að láta þær tala í klisjukenndum orðtökum og nota orð eins og humátt og alltént og yfrið. Ég hef alls ekkert á móti þannig stíl en ég sjálf hef bara ekki gaman af að skrifa svoleiðis orð. Hugsanlega verður þetta til þess að bækurnar mínar muni ekki eldast sérlega vel en það verður þá bara að hafa það (og þegar bollarnir og lyklakippurnar eru komnar í framleiðslu munu hvort sem er mjög fáir nenna að lesa bækurnar). En já, Randalín og Mundi eru ólík og ég held að kannski nái þau þess vegna vel saman og séu svona góðir vinir, erum við ekki oft svag fyrir fólki sem er svolítið ólíkt okkur sjálfum?“

Sumt í bókunum virkar dálítið gamaldags, eins og nöfn aðalpersónanna og það hvernig þau eru alltaf úti að leika eftirlitslaus. Samt eru bækurnar kirfilega staðsettar í samtímanum. Randalín og Mundi nota spjaldtölvur, vita hvað Tinder er, þekkja fólk af erlendum uppruna og hlusta á Sölku Sól. Seturðu þessar andstæður viljandi fram? (Eða er kannski Austurbærinn fullur af krökkum að kanna heiminn upp á eigin spýtur?)

„Randalín er náttúrlega mjög gamaldags nafn, komið úr miðaldabókmenntum (sagði ég áðan að ég væri ekki að vinna með þjóðararfinn?) og Mundi heitir því karlalega nafni Ámundi, sem er reyndar nafn úr minni fjölskyldu, ömmubróðir minn og langa-langafi minn hétu Ámundi. Sögupersónur verða að heita einhverjum skemmtilegum nöfnum, annars verða þær svo flatar. Það væri fáránlegt ef Ronja ræningjadóttir héti Sigríður og ef Jón Oddur og Jón Bjarni hétu bara Oddur og Bjarni þá væru þeir mun minna sniðugir. Annað held ég nú að sé ekki beinlínis gamaldags í þessum bókum, þau þvælast auðvitað á milli húsa og stelast út en það er bara af óþekkt, þau mega ekkert vera eftirlitslaus úti að njósna um fólk og stelast inn í kjallara, enda eru þau skömmuð fyrir það. Það eru samt stundum krakkar hérna í Austurbænum að leika sér úti á gangstétt og úti í görðum, kannski eru þau bara að heimsækja afa sína og ömmur sem vita ekki að börn eiga að vera inni að horfa á Kalla og súkkulaðigerðina á Netflix.“

Myndirnar og textinn fléttast skemmtilega saman í bókinni, bæði umhverfið og persónurnar verða ljóslifandi. Vinnið þið Þórarinn bækurnar samstíga eða skiptist þið skipulega á handritinu? (Hvort kom á undan, lýsingin á stórkostlegu rapp-outfitti barnanna, eða myndin?)

„Ég skrifa textann fyrst og sendi svo handritið á Þórarin Má og hann les og teiknar. Ég er með hálfgerða þráhyggju fyrir því að segja honum ekki hvað mér finnst að hann eigi að teikna, ég nefni kannski eitthvað en ég vil alls ekki vera með fyrirskipanir. Hann er svo snjall lesandi og góður teiknari og svo lunkinn við að fanga smáatriðin. Mér finnst spennandi að bíða eftir því að hann sýni mér teikningarnar, það er svo gaman að sjá hvað hann langar að teikna og ég held að fólk vinni betur ef því er leyft að hafa frjálsar hendur.“

Bókin kemur líka inn á alvarleg málefni, sem börn á þessum aldri eru líkleg til að heyra um í fréttum. Er þetta eitthvað sem þér finnst mikilvægt að ræða við börn?

„Já og nei, það þarf auðvitað að ræða við börn um allt mögulegt og þau heyra það sem er í fréttum og taka það inn á sig. Þegar ég var að alast upp var ég með miklar áhyggjur því ég bjóst stöðugt við kjarnorkusprengju yrði dúndrað á Keflavík og að ég myndi stikna og brenna eins og börn sem ég hafði séð á myndum frá Hírósíma. Það hefði verið gott ef einhver hefði rætt það við mig. Börn í dag hlusta á fréttir og þau eru með loftslagskvíða og þau heyra um flóttamenn eða umgangast flóttamenn eða eru jafnvel flóttamenn sjálf og það þarf auðvitað að tala um það. Ég er mikill aðdáandi krakkafréttanna á RÚV, það er frábært efni (líka fyrir fullorðið fólk). Ég er samt frekar metnaðarlaus uppalandi og finnst ég ekki beinlínis vera að reyna að ala neinn upp með mínum skrifum. Ég er allt of meðvituð um eigin galla og vanhæfni mína til að vera góð fyrirmynd þannig að ég á mjög erfitt með að vera einhver Georg Brandes með fingurinn á lofti. Engu að síður finnst mér mikilvægt að berjast fyrir jafnrétti og betra samfélagi og það geri ég til dæmis með því að gefa lesendum tækifæri á að lesa um og ræða alvarleg málefni, það er kannski mitt litla framlag.“

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...