Fjölbreyttir hæfileikar Rosalinganna

Nýjasta bók Kristjönu Friðbjörnsdóttur er Rosalingarir, fjörug bók um krakka sem þurfa örlitla aðstoð við hið hefðbundna nám enda mikið hæfileikaríkari á öðrum sviðum. Saman fara þau í sérkennslu hjá Halldóri Satrúrnusi, eða herra Halla. Herra Halli er besti kennari í heimi! Hann sér styrkleika krakkana og nýtir þá í náminu. En dag einn hverfur herra Halli, sporlaust! Sólberg7, Melkorka Marsibil og Artúr verða að komast að því hvað varð um herra Halla.

Kristjana er þrautþjálfaður barnabókahöfundur og hefur sent frá sér bækurnar um Fjóla Fífils, Ólafíu Arndísi og Freyju og Fróða. Kristjana semur líka námsefni fyrir grunnskóla og því er hægt að nálgast námsefni upp úr Rosalingunum á heimasíðunni rosalingar.is ásamt upplestrum úr bókinni og textabrotum. Halldór Baldursson myndskreytir bókina með skemmtilega skoplegum myndum.

Hvaðan koma Rosalingarnir?

Rosalingarnir koma héðan og þaðan. Ég vann í grunnskóla í mörg ár og kynntist þar ótalmörgum frábærum krökkum sem kenndu mér margt um leið og ég gerði mitt besta til að fræða þá. Krakkarnir í sögunni, Artúr, Melkorka Marsibil, Sólberg7 og Ari spruttu fram í heilabúinu fyrir mörgum árum og hafa ekki látið mig í friði. Þau vildu endilega komast á prent til að segja segja sögu sína og fá að hrósa herra Halla.

Herra Halli er mögulega skemmtilegasti kennari nokkruntímann. Hann sér styrkleika krakkanna og nýtir þá. Hvaðan kemur Halli og á hann sér fyrirmynd í raunveruleikanum?

Herra Halli er rosalegur! Ég væri meira en til í að hitta hann yfir góðum kaffibolla og spjalla um töfrabrögð, The Rolling Stones og ánamaðka. Við Halli eigum ýmislegt sameiginlegt skal ég segja þér. Og hann er þrusukennari sem nær að styrkja og styðja Rosalingana sína. Kennarar fá nefnilega það merka tækifæri að hafa mótandi áhrif á sína lærlinga. Ég hef verið heppin að kynnast mörgum kennurum á lífsleiðinni sem hafa nýtt þetta tækifæri vel. Fólk sem beitir margvíslegum aðferðum við að fræða, hvetja og draga fram það besta hjá nemendum sínum. Þetta fólk á líklega allt eitthvað í honum herra Halla.

Hvað viltu að lesendur taki með sér eftir lestur bókarinnar?

Fyrst of fremst vil ég að þeir hrópi húrra og klappi saman lófum og stappi jafnvel niður fótum. (Þeir sem lesa bókina til enda skilja hvað ég á við.)
En auk þess vona ég að lesendur leiti uppi sína styrkleika, ef þeir þekkja þá ekki nú þegar. Hæfileikar eru nefnilega margvíslegir og liggja víða. Öll búum við að einhverjum styrkleikum og eigum að fá tækifæri til vinna með þá og nýta til að yfirstíga veikleika. Þó þinn hæfileiki sé ekki endilega á stundaskrá grunnskólans þýðir ekki að hann sé ekki miklvægur, nauðsynlegur, verðmætur og ómissandi.

Hvað fannst þér skemmtilegast að skrifa?

Ég á mér mörg uppáhalds atriði í þessari sögu. Mér fannst mjög gaman að lýsa þeirri stund er herra Halli og krakkarnir hittast í fyrsta skipti. Kaflann þar sem súkkulaðifroskar koma við sögu var líka skemmtilegt að skrifa, sérstaklega þar sem ég borðaði marga slíka froska til að fá innblásturs.  Ég held að þó að lokakaflinn sé í mestu uppáhaldi hjá mér. Ég flissaði, skellti upp úr og táraðist smá við að pikka þann kafla. Það var erfitt að kveðja þessar persónur. Mér þykir sérlega vænt um þær.

Teikningar Halldórs Baldurssonar eru ótrúlega skemmtilegar og draga fram
húmorinn í bókinni. Hvers virði er það að vera í samstarfi með góðum
teiknara?

Ómetanlegt! Halldór er vel að sér í listinni að segja sögu í mynd. Það er virkilega gaman að vinna með teiknara sem grípur inn í söguþráðinn og bætir við hann. Ég hefði viljað hafa miklu miklu fleiri teikningar í bókinni enda eiga texti og myndir einstaklega vel saman þegar segja á góða sögu!

Til að lesa brot úr bókinni mælir Lestrarklefinn með því að áhugasamir kynni sér heimasíðu bókarinnar, rosalingar.is.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...