Hvernig er að vera gleymd?

Vísindaskáldsögur heilla mig óendanlega mikið. Ímyndunaraflið sem þarf til að hugsa upp nýja heima, nær óhugasandi atburði og nýstárlega tækni er bara eitthvað svo magnað. Claire North hefur ótrúlega hæfileika þegar hún beitir pennanum og hefur sent frá sér fjórar vísindaskáldsögur. Lestrarklefinn hefur áður fjallað um bók eftir Claire North og mælir hiklaust með bókum eftir hana. Sagan sem varð fyrir valinu að þessu sinni var The Sudden Appearance of Hope sem kom út árið 2016 og er jafnframt fyrsta bókin sem ég les á nýja lesbrettinu.

Hope Arden er þjófur. Hún stelur demöntum og gimsteinum; verðmætum sem aðrir þjófar veigra sér við að nálgast. En Hope er með ofurmátt líkt og aðrar persónur í bókum North. Þú getur hitt Hope og átt við hana innilegar samræður en um leið og þú snýrð við henni baki er hún horfin úr minni þér ásamt öllu samtalinu. Hugmyndin að Hope Arden ein og sér er spennandi. Hvernig lífi lifir maður ef enginn man eftir manni? Við fáum að líta til baka í fortíð Hope í sögunni og fylgjast með því þegar hún hægt og rólega þurrkast úr minni foreldra sinna. Aðeins dýr og manneskjur með skaddaða heila geta munað eftir henni.

En bókin er ekki bara um Hope hina óminnisstæðu því North fléttar inn í söguna nýjum samfélagsmiðli. Perfection hjálpar notandanum að ná fullkomnun. Þú einfaldlega hleður appinu í símann þinn, gefur því aðgang að öllu þínu lífi (og North gerist svo kræf að benda á það í bókinni að Facebook appið geri eitthvað svipað sé því hlaðið niður í snjallsíma) og bankareikningum og hægt og rólega safnarðu stigum með því að gera eins og appið segir þér. Eftir því sem notandinn safnar fleiri stigum, því „fullkomnari“ verður hann og fer að lokum að fá „meðferðir“ (gegnst undir heilaþvott) til að verða enn fullkomnari. Afleiðingarnar eru að allt verður fullt af hvítu, ríku, fallegu og frægu fólki sem styðjast við Perfection. Því hvítt, ríkt fólk er það sem fjölmiðlar segja okkur að sé fullkomnun.

Ólíkt öðrum bókum North er The Sudden Appearance of Hope rífandi ádeila á samfélagsmiðla og fjölmiðlafroðuna sem öskrar á okkur úr öllum áttum alla daga. Þeir sem hafa horft á þættina Black Mirror kannast eflaust við þá tilfinningu að finnast nær öll tækni vera af hinu illa. Á tímabili leið mér eins og ég væri að lesa næsta Black Mirror þátt. Hope horfir upp á konu, sem hún kunni vel við, nota Perfection og í kjölfarið fremja sjálfsmorð. Til að hefna sín á sköpurum Perfection stelur hún demantahálsmeni í stórveislu hinna fullkomnu og niðurlægir þannig fyrirtækið. Þannig kallar hún yfir sig hefnd og reiði risafyrirtækis með ómælanleg völd í heiminu og ógrynni af fjármunum. En hængurinn er bara sá að hausaveiðararnir eiga erfitt með að finna hana, því þeir muna ekki eftir henni.

Það var spennandi að lesa bókina, þótt stundum hafi mér þótt hún örlítið langdregin og festast í huga og þjáningum Hope. Hope þarf að glíma við mikla einmanakennd, en á sama tíma hefur hún ótrúlegt frelsi til að gera hvað sem hana langar til. Eini herrann sem hún þarf að svara er hennar eigin samviska. Samfélaginu er sama um hana, það man ekki eftir henni. En hún hefur samt náð að skapa sér rafrænt líf. Fólk man eftir samtölum sem það á við hana ef það skrifast á við hana. Þannig nær North að vekja upp spurningar og hugsanir hjá lesandanum um hið rafræna líf sem margir lifa í gegnum tölvurnar sínar. Er það nóg? Eða þarf maður að eiga í samskiptum í raunheimum líka? Er nóg að eiga samskipti við manneskju eina kvöldstund en vera svo gleymdur daginn eftir?

Ólíkt öðrum bókum sem ég hef lesið eftir North er þessi hiklaust bláköld ádeila. Hún deilir á samfélagsmiðla, snjalltækjavæðinguna, þau völd sem stórfyrirtæki hafa í heiminum og heilaþvott fjölmiðla. Inn í þetta blandast svo vörumerki North; manneskja sem þarf að glíma við ofurkraft sem fylgir bölvun. Ég get mælt með bókinni fyrir flesta, en ef þú ert kominn með nóg af ádeilu á snjalltæki og samfélagsmiðla þá myndi ég sneiða framhjá þessari.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...