Fyrir Norðmönnum eru glæpasögur, krimmar, jafn ómissandi og súkkulaðiegg eru okkur Íslendingum yfir páskana. Norðmenn einfaldlega verða að fá sinn krimma, sína ráðgátu og jafnvel morð. Allir skulu glugga í glæpasögu og hafa það kósý um páskana. En af hverju krimmar um páskana?
Velheppnuð auglýsingaherferð
Rekja má fyrsta páskakrimmann í Noregi til höfundanna Nordahl Grieg og Nils Lie sem skrifuðu bókina Bergenstoget plyndret i natt (1923). Þeir voru þá blankir stúdentar. Það vildi reyndar svo vel til að bróðir Grieg átti prentsmiðju og rak forlag sem gaf út bækur og blöð. Sá nýtti sér tækifærið og setti auglýsingu fyrir bókina á forsíðu blaðsins skömmu fyrir páska. Fyrirsögnin á forsíðunni var „Bergenlestin rænd í nótt“ og undir var höfundarnafn tvímenninganna í mjög smáu letri „eftir Jonathan Jerv“. Auglýsingin vakti gríðarlega athygli og bókin rokseldist. Síðan eru liðin mörg ár og Noregur er gegnumsýrður af ráðgátum um og yfir páskana – páskakrimmum. Það verður líka að vera glæpaþáttur í sjónvarpinu.
Dreifðari útgáfa
Það sem gerðist líka er að bókaútgefendur voru skyndilega komnir með tvær bókavertíðir, að hausti til og yfir páskana. Það þótti ágætt að geta dreift útgáfu bóka örlítið yfir árið. Á vorin á Íslandi eru glæpasögur í miklum meirihluta þeirra bóka sem eru gefnar út, en þær hafa ekki fengið að vera í aðalhlutverki hér á landi líkt og í Noregi (nema frá sé talinn Arnaldur á jólunum).
Það er viss afslöppun að lesa glæpasögur. Sagan fer eftir ákveðinni reglu og það er skemmtilegt að reyna að finna út hver glæpamaðurinn sé og hvað honum gekk til. Það er spennandi að setja sig í spor rannsakandans. Stundum er ekkert betra en að detta í góðan krimma.
Norðmenn taka krimmana með sér í „hytta“ eða sumarbústaðinn. Glæpasögur eru því orðnar að ómissandi hluta í bústaðnum og eru oftar en ekki skyldar eftir þar.
Krækið í krimma og holið ykkur niður í sófann um páskanna. Leysið ráðgátu á milli súkkulaðibita