Ævar Þór Benediktsson bregst ekki aðdáendum sínum og sendir frá sér eina bók að vori, líkt og hann hefur gert fyrri ár. Að þessu sinni er bókin þó ekki endapunkturinn við lestrarátak – eins og bækurnar um bernskubrek Ævars hafa verið – heldur eru hér á ferðinni Hryllilega stuttar hrollvekjur. Ágúst Kristinsson myndskreytir bókina.
Hryllingurinn fær að njóta sín
Ævar Þór hefur aldrei farið leynt með að hann sækir mikinn innblástur til Stephen King og þar af leiðandi í hrylling og spennu. Í Þín eigin bókunum hans oft stutt í hryllinginn, þó stundum kímniblandinn hrylling. Hann hefur hingað til verið varkár (það verður þó að segjast að Þín eigin hrollvekja var ansi hrollvekjandi) og gætt að því að ganga ekki fram af ungum lesendum sínum.
Í örsagnasafninu Hryllilega stuttar hrollvekjur fær hrylllingurinn að njóta sín. Sögurnar eiga að skelfa og vekja hroll. Þær virðast vera til þess gerðar að vekja upp myrkfælnina. Svolítið líkt og þegar maður sat í myrkri í æsku og hvíslaði draugasögum sín á milli. Ævar skrifar um uppvakninga, vampírur, skrímslið undir rúminu og það sem mér finnst vera alíslenskt fyrirbæri – hræðilega skrímslið sem leynist undir ristinni í miðri sundlauginni.
Myndir Ágústar ýta svo enn frekar undir hryllinginn og jafnvel gera ekki svo hryllilegar sögur hryllilegar. Ég get vel ímyndað mér að mörg börn muni sjá andlit á glugganum næsta vetur eða veigri sér við að hugsa illa til annarra, með hugann við hræðilegan drýsilinn sem skríður upp úr gólfteppinu.
Varnarorðin
Ég mæli ekki með bókinni fyrir viðkvæm börn, eða mjög myrkfælin börn, því sögurnar enda oftar en ekki á því að ógnin afhjúpar sig og er ekki ímyndun sögupersónunnar. Skrímslin eru raunveruleg í sögunum. Ógnin er raunveruleg. Og myrkfælnin sem kemur eftir lesturinn er líka raunveruleg.
Lestrarklefinn fékk tæplega ellefu ára strák til að lesa bókina. Ævar fékk sjálfur krakka á þessum aldri til að lesa bókina yfir og flokka sögurnar í þrjá flokka; vont, verra og verst. Þannig eru ekki svo hryllilegar (en samt hrollvekjandi) sögur í fyrsta hluta bókarinnar en eftir því sem lesandinn les lengra verða þær hræðilegri. Álitsgjafinn las hálfa bókina í einum spretti, þar til hann kláraði söguna „Flækja“. Þá lokaði hann bókinni með velgju, kvartaði undan magaverk og vildi ekki lesa meira. Hann fylgdi varnarorðunum úr formálanum. Því fylgdi þó dómi álitsgjafans að bókin væri skemmtileg, öðruvísi og hrollvekjandi og hann ætlaði að halda áfram með hana seinna – þegar hann er eldri. Hann er ögn myrkfælnari eftir lesturinn og myndi ekki vilja lesa hana í myrkri eða að vetri til. Þess vegna er útgáfutími bókarinnar alveg fullkominn.
Dáleiðandi lesning
Ævar víkur ekki frá stílnum sínum, þótt hann sé ekki eins margorður og í mörgum öðrum bókum, enda þurfa sögurnar að vera stuttar. Hann nýtir sér stílinn úr þín eigin bókunum og setur lesandann í spor sögupersónunnar. Sumar sögur eru þó sagðar í þriðju persónu, sem gefur Ævari tækifæri til að skapa persónur sem eru jafnvel ekkert mjög viðkunnanlegar. Við lok sumra sagnanna er maður bara feginn að illa fór fyrir þeim (eins og í síðustu sögunni, stráksi uppskar eins og hann sáði).
Í þessu smásagnasafni fjallar hann um hrylling sem er jarðbundinn (tannlækna heimsókn) og ójarðbundinn (vampírur, uppvakningar, skrímslið undir rúminu). Það hefði mátt gæta betur að yfirlestri á bókinni á nokkrum stöðum rakst ég á innsláttarvillur við lesturinn og einhvers staðar vantaði orð eða punkt. En það breytir því þó ekki að sögurnar eru hrollvekjandi og ávanabindandi, það er erfitt að slíta sig frá þeim. Þær uppfylla þörfina eftir einhverju sem hræðir. Það er auðvelt að gleyma sér. Og það er verra ef maður gleymir sér og les fram á kvöld… inn í myrkrið.