PAX-bókaflokkurinn á dyggan aðdáendahóp bæði hér heima og í upprunalandinu Svíþjóð. Bækurnar rata á metsölulista og eru lesnar upp til agna á skólabókasöfnum. Það sem er kannski enn skemmtilegra er að bækurnar virðast höfða mest til strákanna sem ef til vill myndu annars ekki lesa. Þær eru hrollvekjandi, spennandi og töff.
Stjórnlaus tilberi
Alríkur og Viggó eru bræður, synir móður sem er alkóhólisti. Þeir eru nokkurs konar andhetjur og langt frá því að vera fullkomnir. Þeir eru heitfengir og verða stundum ofbeldisfullir, en hegðun þeirra er nær alltaf hægt að útskýra með því að þeir ólust upp hjá veikri móður sem sinnti þeim ekki eða vegna þess að þeir meintu vel en kunnu ekki að tjá það rétt. Þeir enda í fóstri hjá Lælu og Anders í smábænum Mariefred. Strákunum líkar strax vel við fósturforeldra sína. Það kemur þó fljólega í ljós að bræðurnir eru útvaldir til stærri verka en að ganga eingöngu í skóla í smábæ og koma skikki á líf sitt. Ójafnvægi er kominn á krafta í kringum dularfullt leynibókasafn sem systkinin Estrid og Magnar gæta. Saman þurfa bræðurnir og hin öldruðu systkini að berjast við æ kröftugri sendingar frá myrkum öflum sem sækjast eftir því að tortíma bókasafninu dularfulla. En Alríkur og Viggó þurfa að berjast gegn fleiru en myrkum öflum, því sem fósturbörn og fyrrum vandræðagemsar mæta þeir djúpum fordómum í smábænum Mariefred. Fullorðnir trúa öllu slæmu upp á þá, þeim er kennt um þjófnaði og margt annað sem illa fer. Að auki eru þeir ásóttir af eineltishrotta sem nýtur verndar föður síns, smíðakennarans.
Í PAX – Tilberinn þurfa Alríkur og Viggó að berjast við nýtt skrímsli. Að þessu sinni tilbera. Í íslenskri þjóðtrú er tilberinn vafið mannsrif, dregið upp úr heilagri jörð. Tilgangur tilberans er að ræna mjólk frá næstu bæjum og bera til tilberamóðurinnar. Tilberinn í PAX heiminum er töluvert óhugnanlegri og nútímalegri. Í Mariefred gerast undarlegir atburðir. Verðmætir hlutir, gæludýr og peningar hverfa. Alríkur og Viggó eru sakaðir um að hafa stolið hlutunum, sem skiljanlega gerir þá mjög reiða og sára. Meira að segja Anders bregst þeim, sem eru án efa verstu svikin. Alríkur og Viggó komast að því, í gegnum bækur á bókasafninu, að engin mannleg vera stendur á bak við stuldinn. Það er líklegast tilberi, sem ætti að vera auðvelt að ráða að niðurlögum. En Þar sem ójafnvægi er á öflum í bænum stækkar tilberinn óvenju mikið og er meira að segja orðinn móður sinni, dularfullri og óþekktri norn, ofviða.
Pílagrímsför í sænskan smábæ
Höfundar bókanna Åsa Larsson og Ingella Korsell búa í Mariefred sem er jafnframt sögusvið bókanna. Bærinn hefur notið mikilla vinsælda meðal lesenda bókaflokksins, sem leggja í pílagrímsferðir til Mariefred á slóðir Alríks og Viggó. Henrik Jonsson myndlýsir bækurnar af einstakri snilld og svipar bókunum til myndasagna þar sem myndirnar fá að leiða lesandann áfram í ævintýrinu. Bækurnar eru spennandi og koma stöðugt á óvart. Það sem er eftirtektarvert er að versti hryllingurinn er ekki sá sem tengist óvættum sem sækja á bæinn, heldur fremur ofbeldinu sem Alríkur og Viggó verða fyrir frá manneskjum- hvort sem það er líkamlegt eða andlegt.
Bækurnar eru spennandi og vel til þess fallnar að kveikja lestraráhuga hjá einhverjum börnum, strákum eða stelpum. Þær henta vel fyrir börn frá ellefu ára aldri og þeim sem eru þess harðari af sér.