Á fyrsta ári skólagöngu minnar sat ég í nestistíma og hlustaði á umsjónarkennarann lesa upp úr bókinni Matthildur eftir Roald Dahl fyrir mig og samnemendur mína. Ég man hve rosalega skemmtileg mér þótti bókin og sagan af Matthildi hefur alltaf fylgt mér eftir þennan fyrsta lestur. Matthildur kom fyrst út árið 1986 í Englandi og sló strax í gegn, enda Roald Dahl þekktur fyrir að skrifa skemmtilegar og grípandi barnabækur. Bókin er sú sem hefur fengið hvað mesta dreifingu af bókum Dahl. Hún var þýdd á íslensku í fyrsta sinn í byrjun tíunda áratugarins og það var gerð bíómynd eftir bókinni sem kom út árið 1996.
Sagan af Matthildi er löngu orðin klassísk, þori ég að alhæfa. Matthildur er fjögurra ára þegar hún búin að lesa sig í gegnum allar barnabækur á bókasafni bæjarins sem hún býr í. Hún er afburðagreind en foreldrar hennar taka ekkert eftir henni, finnst hún nokkurs konar óþarfa viðbót í líf sitt. Foreldrar hennar, bílasalinn Hrappur og hin bingóelskandi Mylla, elska ekkert heitar en að horfa á innihaldslaust sjónvarpsefni og borða tilbúnar kvöldmáltíðir við sjónvarpið. Það er því með ólíkindum að Matthildur skuli vera eins bókelsk og gáfuð og hún er. Þegar skólaganga Matthildar hefst kynnist hún kennaranum Unu, sem sér hve afburðagáfuð Matthildur er. Krýsa skólastjóri er þó engan veginn til í að hleypa Matthildi upp um bekk. En hugur Matthildar leitar að útrás fyrir allar gáfurnar og skyndilega fer Matthildur að gera fjarflutt hluti og veldur alls kyns óskunda þannig, þó aldrei í illum tilgangi.
Matthildur er frábær saga af ofurstelpu sem sigrar hið slæma og hentar til lesturs fyrir bæði stráka og stelpur. Á síðasta ári kom Matthildur út í nýrri þýðingu frá Kver bókaútgáfu. Þótt ég muni lítið eftir því hvernig þýðingin var þegar bókin var lesin fyrir mig í fyrsta bekk, þá get ég sagt að nýja þýðingin er lipur, létt og vönduð. Nöfn persóna í bókinni endurspegla núna algjörlega innræti þeirra, svolítið líkt og það er í ensku útgáfu bókarinnar. Sagan heillar enn börn á öllum aldri og mínir drengir gátu skellihlegið að sögunni og býsnast yfir óréttlætinu. Það var svo ekkert verra að annar þeirra vildi verða eins og Matthildur, það er að segja, lesa mikið. Bókin er skreytt myndum eftir Quentin Blake, sem myndskreytti fyrstu útgáfu bókarinnar í Englandi.
Á næsta ári verður frumsýndur söngleikurinn Matthildur í Borgarleikhúsinu. Ég efast ekki um að mörg börn geti haft mjög gaman af þeim söngleik, þess vegna væri ekkert vitlaust að kynnast sögunni svolítið áður en farið er í leikhúsið.