Um páskana sökkti ég mér niður í glæpasögu eftir hinn margverðlaunaða Jørn Lier Horst sem skrifar bækurnar um William Wisting. Bækurnar eru gríðarlega vinsælar og árið 2019 kom út sjónvarpsserían Wisting, sem var byggð á bókunum. Mig langaði ekki að lesa í nákvæmum smáatriðum um ofbeldismál eða aflimanir og titill bókarinnar, Dulmál Katharinu, gaf fyrirheit um ráðgátu – eitthvað dularfullt og gleymt.
Ég les ekki mikið af glæpasögum. Margar þeirra eru of ofbeldisfullar fyrir viðkvæmt sinni mitt, ég held ég sé bara á því skeiði í lífinu að ég höndla ekki mikið ofbeldi – sérstaklega ekki gegn börnum. En ég hef gaman af ráðgátum. Einhverju sem hefur dulist fjölda manna og aðeins einn getur leyst það.
Gömul mál upp á yfirborðið
Fyrir tuttugu og fjórum árum hvarf Katharina Haugen af heimili sínu. Martin Haugen, eiginmaður hennar, var grunaður ásamt öðrum um að hafa orðið henni að bana en hann hefur algjörlega óskeikula fjarvistarsönnun. Katharina skyldi eftir dulmál á eldhúsborðinu sem enginn hefur getað leyst. Ráðgátan um dulmálið og hvarf Katharinu sat eftir.
William Wisting tekur upp þetta mál á hverju einasta ári til að fara yfir gögnin og freista þess að reynsla liðins árs leiði eitthvað nýtt í ljós. Hann heimsækir líka á hverju ári Martin Haugen, en með þeim hafa myndast vinabönd. Þetta árið er Martin líka horfinn. Á lögreglustöðina kemur svo Adrian Stiller frá efri stigum lögrelgunnar með annað mál – ung stúlka hvarf sporlaust 1987, málið á að opna á ný og Wisting á að leika lykilhlutverk í rannsókninni.
Hinn föðurlegi rannsóknarlögreglumaður
Lier Horst er glæpasagnahöfundur í hæsta gæðaflokki. Samtölin eru vel uppbyggð og maður hefur á tilfinningunni að ekkert sem er sagt sé óþarft. Persónurnar eru djúpar og maður binst þeim strax sterkum böndum. Sérstaklega líkaði mér við Wisting sem, ólíkt mörgum öðrum lögreglumönnum í glæpasögum, er hvorki óvirkur alki né aðfram komin af sálrænum kvölum. Hann var bara nokkuð venujulegur maður sem passar barnabarnið sitt af og til og heldur pizzakvöld með uppkomnum börnum sínum. Hann er trúverðug persóna. Föðurlegur og traustur. Fyrir vikið heldur maður með honum alla leið, því maður veit að hann á eftir að komast að réttu niðurstöðunni. Í sögunni leikur dóttir Wistings líka hlutverk við lausn málsins og mér fannst söguþráðurinn í kringum hana ekkert síðri þeim sem var bundinn við Wisting.
Dulmál Katharinu er spennandi glæpasaga sem auðvelt er að mæla með. Hún heldur lesandanum við efnið með hægfara uppbyggingu á spennu og nýjum spurningum. Spennan magnast fram á síðustu síður þar til lesandinn fær loksins svör við fjölda spurninga sem hafa safnast upp í gegnum bókina. Það besta við bókina er að á engan hátt hafði mér dottið í hug lausnin á dulmálinu eða hvarfi Katharinu, fyrr en Lier Horst afhjúpar leyndardóminn í lokin.