Það er fátt sem gleður mig meira en þegar rithöfundar taka flókin, þung, þurr eða erfið málefni og skrifa um þau með skemmtilegum hætti. Fyndnum, jafnvel! Það er hrein unun að lesa bók sem fær mann til að hugsa og reynir aðeins á mann, en skemmtir á sama tíma. Bókin Eikonomics – Hagfræði á mannamáli, eftir hagfræðinginn Eirík Ásþór Ragnarsson er frábært dæmi um slíka bók.

Upprunalega valdi ég að kaupa og lesa bókina vegna þess að ég er að byrja að læra rekstrarhagfræði í september og mig langaði að öðlast einhvers konar grunnþekkingu á faginu áður en ég mæti í fyrsta tímann. Ég er fyrrum málabrautarnemandi, sem er svolítið eins og að hafa einhvern tímann verið skáti (eitt sinn, ávallt). Viðhorf fólks, þar með talið málabrautarnemenda sjálfra, er stundum á þá leið að málabrautarnemendur veljist í sitt fag ekki vegna ástríðu sinnar á tungumálum, bókmenntum og menningu, heldur fyrst og fremst vegna djúpstæðrar vankunnáttu á tölum og óbeitar á vísindum.

Ég gæti skrifað langan pistil til varnar hugvísindum (bendi á þennan ótrúlega góða pistil sem ég les mjög reglulega), en ætla að halda mig við að fjalla um bókina.

Hagfræði snýst um fólk

Strax í innganginum slær höfundurinn tóninn fyrir restina af bókinni, þegar hann segir okkur að hagfræði snúist ekki bara um peninga, heldur um fólk. Í lokaorðum bætir hann svo um betur og undirstrikar fyrir hverja bókin er skrifuð og af hverju hún er svona mikilvæg. Bókin er skrifuð fyrir alla sem hafa áhuga á samfélagsmálum og er meðal annars ætlað að efla fólk til þess að veita sérfræðingum aðhald með auknum skilningi á því um hvað hagfræði snýst.

Ein besta leiðin til að gera flókið viðfangsefni aðgengilegt er að tengja það við daglegt líf. Eiríkur lýsir t.d. umboðsvanda með samlíkingu við heimilisuppvask, kapítalismi er útskýrður með Mackintosh-tilraun og einokun er útskýrð með mjög áhugaverðum kafla um uppruna Monopoly-spilsins. Nafnið á spilinu ætti vissulega að vera ákveðin vísbending, en ég þekkti ekki til og þykir eftir á að hyggja alveg stórmerkilegt að ég hafi aldrei heyrt þetta áður, og grunar að það eigi við um fleiri.

Spjaldanna á milli

Ég var búin að búa mig undir að þurfa að hafa svolítið fyrir því að lesa þessa bók, en þar kristallast einmitt það viðhorf sem höfundur vill reyna að breyta. Mín upplifun er sú að það hafi tekist hjá honum, en ég átti erfitt með að leggja bókina frá mér, var alltaf að lesa upphátt fyrir eiginmann minn úr bókinni og ég las hana gjörsamlega spjaldanna á milli. Allt frá inngangi til þakkarkaflans í lok bókarinnar.

Auðvitað er upp að einhverju marki verið að einfalda hluti sem í grunninn eru flóknari en svo að hægt sé að gera þeim skil með einföldum dæmum. Mér finnst bókin samt alls ekki líða fyrir það. Það er ekki ætlunin að útskrifa hagfræðinga með lestri þessarar einu bókar, heldur er ætlunin að kynna fyrir alls konar fólki grunnhugmyndir hagfræðinnar, og því ber að mínu mati að meta bókina á grundvelli þess.

Orðskýringakaflinn og punktar höfundar í endann eru punkturinn yfir i-ið, en þeir gera skemmtilega bók jafnframt að gagnlegri bók. Orðskýringakaflinn inniheldur hnitmiðaða samantekt á helstu hugtökum og punktar höfundar benda meðal annars á heimildir sem hægt er að kynna sér nánar ef áhugi er fyrir hendi.

Samantekt

Heilt yfir var bókin bæði gagnleg og skemmtileg og vakti áhuga minn á hagfræði, sem er eftir allt saman hvorki þurrt né leiðinlegt fag, heldur alltumlykjandi og mannleg.

Lestu þetta næst

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...