Jónína Leósdóttir hefur lengi verið ein af þeim höfundum hvers bækur fara sjálfvirkt á leslistann minn þegar þær koma út. Bækurnar um eftirlaunaþegann hana Eddu þykja mér skemmtilegar svo ég var spennt þegar ég sá að út væri komin ný glæpasaga eftir Jónínu með nýjum persónum. Bókin heitir Launsátur og er ein af bókum Forlagsins í jólabókaflóði ársins.
Matvörur og klósettpappír
Sagan byrjar með látum, lesandinn er strax kominn inn í atburðarrásina sem hefst á að rannsóknarlögreglukonan Soffía leitar eftir sérfræðiaðstoð við lausn máls hjá Adam sem er sálfræðingur og reyndar einnig fyrrverandi eiginmaður Soffíu. Málið sjálft snýst um ofsóknir og skemmdarverk. Nálum er troðið í matvöru og klósettpappír, hálka er búin til á tröppum og brotist er inn í bíla. Málið er allt hið furðulegasta og tilgangur hins seka frekar óljós framan af. Covid-19 kemur sterkt inn í söguna sem kemur ekki á óvart þegar um er að ræða samtímabókmenntir en þó er heimsfaraldurinn ekki að koma við sögu á þann klassíska hátt að sögupersónur séu að veikjast eða að lenda í sóttkví í hrönnum. Heimsfaraldurinn er allt um lykjandi en aðallega vegna gríðarlegrar hræðslu Adams við Covid-19 og hans viðbrögð því. Hann er svo gott sem lamaður vegna heimsfaraldursins og hræðist hann mikið.
Soffía og Adam, Adam og Jenný
Þó sakamálið sjálft sé virkilega áhugavert og hafi haldið mér við efnið þá var það þó ekki það né fléttun heimsfaraldursins inn í söguna sem mér fannst mest heillandi heldur samband Adams og Soffíu og einnig samband Adams og Jennýjar. Soffía og Adam eru að einhverju leyti og að því er virðist, fljót að detta inn í sitt gamla samskiptamynstur. Hún er hin ákveðna Soffía sem fær sínu framgengt og nær ekki alltaf að vera kurteis eða nærgætin. Hún er smá þessi týpíska löggupersóna sem birtist reglulega í bókum og sjónvarpsþáttum. Adam er svo hinn undirgefni í sambandinu, hann nær ekki að setja henni mörk þrátt fyrir góðar áætlanir þar um.
Svo er það hún Jenný. Adam og Jenný. Þarna kom höfundur mér skemmtilega á óvart. Samband Adams og Jennýjar er virkilega áhugaverð flétta inn í söguna sem heillar mig sérstaklega.
Hið nýja glæpasögu tríó?
Ef það er eitthvað sem ég varð helst fyrir vonbrigðum með er að ég hefði viljað sjá kafað aðeins dýpra í Adam og Jenný og allt sem þar liggur að baki. Einnig var hliðarsagan um Rebekku Rósu frekar sérstök. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg tilganginn með þeirri sögu. Hún byrjaði vel en missti flugið frekar hratt.
En mögulega verða fleiri sögur um rannsóknarlögregluna Soffíu og sálfræðinginn og fyrrverandi eiginmann hennar Adam? Þá gefast kannski fleiri tækifæri til að skoða þeirra samband sem og samband Adams og Jennýjar betur. Hver veit? Vonandi.