„Hrollvekjan er könnun á frumótta og varnarleysi“

Emil Hjörvar Petersen sendi frá sér bókina Hælið fyrir stuttu. Bókin er unnin í samstarfi við Storytel, eins og bókin Ó, Karítas sem kom út í fyrra. Viðtökurnar við báðum bókum hafa verið framar vonum segir Emil. „Þetta var víst ein best heppnaða útgáfa Storytel á Íslandi frá upphafi. Gríðarmargir hlustuðu og heilt yfir voru viðtökurnar jákvæðar,“ segir Emil um viðtökurnar við Ó, Karítas. Að þessu sinni kom hljóðbókin Hælið út á prenti líka. Emil er þekktur fyrir hryllingsblandnar furðusögur, til dæmis þríleikinn Sögu eftirlifenda, þar sem hann sækir í sagnaarf Íslendinga og fortíðina. Hælið sækir efnivið úr svipaðir átt.

Sögusviðið bað um að vera notað

Hælið er hroll­vekj­andi skáld­saga sem hríf­ur les­and­ann með sér á óhugn­an­legt flakk um bæði tíma og rúm, þar sem drep­sótt­ir fortíðar og af­tök­ur í vog­in­um koma við sögu. Lesarar að hljóðbókinni eru Sólveig Arnarsdóttir fyrir aðalpersónuna Uglu, Guðrún Eyfjörð (GDRN) fyrir dótturina Grétu og svo Guðmundur Ingi Þorvaldsson fyrir endurlitin. „Þetta er alveg magnað teymi sem smellpassar,“ segir Emil.

Sögusviðið er Kópavogshælið. „Ég ólst upp í Kópavogi, hjólaði þvers og kruss um bæinn og ég man eftir því hvað mér fannst mikil mystík vera yfir Kópavogshæli,“ segir Emil sem hefur búið úti í Svíþjóð í áratug. Þegar hann flutti svo aftur til Íslands sá hann Kópavogshælið út um skrifstofugluggann. „Það má segja að hugmyndin að skáldsögunni hafi gerjast með mér öll þessi ár.“ Hugmyndin að sögunni hafi þó kviknað fyrir alvöru sumarið fyrir flutningana. Árið áður hafði skýrsla vistheimilanefndar komið út, þar sem meðal annars var fjallað um illa meðferð á vistfólki Kópavogshælis. Við heimildarvinnu fyrir aðra skáldsögu rakst Emil á gögn um Kópavogshæli. „Gamla byggingin, sem nú er friðuð, hýsti geðfatlaða einstaklinga aðeins í skamman tíma. Starfsemi Kópavogshælis sem flestir þekkja var í nýrri byggingunum þar sem Líknardeild Landspítalans er núna. Gamla hælið og saga þess vakti mesta athygli mína. Það var byggt að undirlagi kvenfélagsins Hringsins árið 1926, teiknað af Guðjóni Samúelssyni. Þá var það kallað Hressingarhælið og var fyrir berklasjúka. Nokkru síðar hýsti það síðustu holdsveikissjúklinga Íslands, en þeir voru færðir frá Lauganesspítala þegar Bretar tóku hann yfir. Hin holdsveiku voru í raun látin deyja út þarna inni. Skammt frá hælinu, við botn vogsins, eru tóftir þingstaðar, þ.e. á Þinghól þar sem Kópavogsfundurinn var haldinn. En þar var fólk líka dæmt til dauða og tekið af lífi. Ein heimild lýsir dómi yfir miklum ribbalda sem hafði verið í valdastöðu á Íslandi. Hann kemur svo sannarlega fyrir í Hælinu.“ Þarna var komin ágætis efniviður fyrir góða skáldsögu. „Sögusviðið hreinlega bað mig ‒ sem hjólaði þarna um í æsku, flutti svo burt og skrifaði skáldsögur ‒ að skrifa hrollvekju. Í raun sögulega hrollvekju.“ Sagan tók Emil um þrjú ár í smíðum. Eftir skrif, endurskrif, endurhugsun og að lokum sátt er Hælið nú komin út sem hljóðbók og á prenti.

Menningararfurinn tilvalinn í hryllingsskrif

Emil skrifar hrollvekjur, bókmenntagrein sem hefur hingað til ekki verið mjög áberandi hér á landi, en fer þó vaxandi. „Ef ég hefði tekið mark á þeim sem sögðu við mig að fantastískar bókmenntir virka ekki á Íslandi væri ég einhvers staðar emjandi að skrifa eitthvað sem mig langaði ekkert til að skrifa ‒ eða hreinlega væri ekki að skrifa lengur og það eru örlög sem ég vil ekki hugsa um.“ Emil segir að það sem heilli hann við hrollvekjur og fantatískar bókmenntir sé hvernig hið tilvistarlega og yfirnáttúrulega mætist. „Hrollvekjan stendur mun nær raunsæislegum skáldskap en aðrar fantastískar bókmenntir. Í henni er að jafnaði unnið með hið óséða og hið ankannalega í bland við aðstæður venjulegs fólks í samtímanum, sem oft þurfa að kljást við bældar tilfinningar, margskonar erfiðleika – hversdagslega og andlega ‒ og jafnvel tráma þegar óhugnaðurinn læðist inn í söguna. Hryllingurinn er könnun á frumótta og varnarleysi manneskjunnar, en um leið lýsing á þrautseigju einstaklinga. Þessi atriði geta birst á margvíslegan hátt, hvort sem það er með sálfræðilegu eða grótesku ívafi.“ Emil telur að hrollvekjurnar séu vannýtt bókmenntagrein á Íslandi „því menningararfur okkar er botnlaus efniviður fyrir hryllingsskrif“.

Ris og fall í hverjum kafla

Hljóðbækur njóta sívaxandi vinsælda á Íslandi, sem og annars staðar í heiminum. En er einhver munur á því að skrifa fyrir eyra eða auga? „Í mínu tilviki er það ekki svo frábrugðið. Ég veit ekki hvers vegna. Kannski af því að stíllinn minn hentar hljóðbókarforminu? Eða af því að vinnuaðferðir mínar stemma við það sem Storytel leitar eftir?“ Þó eru nokkrir þættir innan bókarinnar sem eru sérstaklega uppsettar fyrir eyra. Til dæmis séu tvær persónur að prófa sig áfram með hlaðvarpsþátt í Hælinu.  Einnig leggur hann meiri vinnu í vönduð og góð samtöl.

„Ég skrifaði Ó, Karítas frá grunni sem Storytel Original. Hún er byggð upp á tíu löngum köflum. Hugsunin var sú að hver kafli hefði sín átök, ris og úrlausn. En ég skrifa oft þannig hvort sem er. Í fyrri bókum hef ég reynt að finna hverjum kafla tilgang, það er í senn sjálfstæðan tilgang og innan heildarinnar. Ef mér er byrjað að leiðast þá er ástæðan oftast sú að kaflann vantar þennan sjálfstæða kjarna, sem ég reyni þá að finna.“

Tekur þátt í IceCon í nóvember

Hælið kemur út í október, sem er svo að segja mánuður hrollvekjunnar. „Ég flyt til að mynda fyrirlestrar um hrollvekjur á bókasöfnum höfuðborgarsvæðisins í kringum Hrekkjavökuna.“ Einnig mun Emil taka þátt í ráðstefnunni IceCon í byrjun nóvember. „Icecon er furðusagnahátíð Íslands þar sem fantasíum, vísindaskáldskap og hrollvekjum er gert hátt undir höfði. Hátíðin hefur verið haldin tvisvar áður og heppnast gríðarvel. Fólk erlendis frá sýnir henni mikinn áhuga og hún eflir tengsl okkar við það sem er að gerast handan hafsins. Ég kem fram á pallborði um hrollvekjur ásamt Hildi Knútsdóttur og Jóhanni Þórssyni. Síðan les ég upp úr smásögunni minni „The Cryptid“ („Kynjaskepnan“) sem kom út á ensku á árinu, í safnritinu The Best of World SF.“

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...