Jana Hjörvar

Kristjana er fjögurra dætra móðir, eiginkona og fóstra Fúsa sem er áhugaverður, næstum mennskur köttur. Hún er líka bókasafns- og upplýsingafræðingur og starfar sem slíkur á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni þar sem hún safnar allri íslenskri bókaútgáfu í skylduskil. Það starf hefur í för með sér hún hefur ferlega góða afsökun til að liggja yfir og kynna sér þær bækur sem koma út hverju sinni sem gerir þó það að verkum að ferðirnar í bókabúðirnar eru orðnar heldur margar og bókaskápunum heima fyrir fjölgar og fjölgar. Líf hennar snýst því að mjög miklu leyti um bækur, bæði í leik og starfi. Kristjana hefur alla tíð lesið mikið og tekið bækur fram yfir aðra tómstundaiðju. Að hennar mati er það að setjast niður og hverfa inn í heim bókarinnar eftir strembinn dag á við góða íhugun og slökun. Sumir stunda jóga, sumir hugleiða, Kristjana les. Þrátt fyrir það hafði hún ekki orðið mikið vör við né kynnst öðrum bókaormum sem lesa mikið og hafa áhuga á að deila upplýsingum um hvaða bækur þeir lesa eða diskútera efni þeirra. Ekki fyrr en fyrir um tveim árum þegar hún byrjaði af rælni að deila því sem hún les á Instagram aðgangi sínum @janahjorvarreads. Þá fann hún aðra bókaorma og hefur kynnst hinu íslenska og erlenda “bookstagram” sem er hreint frábært fyrirbæri sem enginn bókaormur ætti að láta framhjá sér fara. Þó ber að vara við að við slíkt gæti leslistinn lengst allverulega. Það eru helst rómansbækur, skvísubækur og íslenskar bókmenntir, nýjar og gamlar og af öllum tegundum sem lenda í lestrarbunkanum en einnig annað efni sem heillar hverju sinni.

Fleiri færslur: Jana Hjörvar