Ég stend við mín fyrri orð og böggla hérna út úr mér umfjöllun um Hvunndagshetjuna. Þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn eftir Auði Haralds. Þetta var fyrsta bókin sem ég las í fæðingarorlofinu, svo það er liðið hálft ár frá því ég las hana og eflaust fennt í ýmislegt. Ég fékk bókina í sængurgjöf og get svo sannarlega mælt með henni sem slíkri. Bókin kom út árið 1979 og var endurútgefin 2000 en ég er hrædd um að þeir sem vilja gleðja nýbakaðar mæður verði að þræða básana í Kolaportinu því báðar útgáfur eru að sjálfsögðu löngu uppseldar. Mitt eintak tilheyrir annarri prentun frá árinu 1979 og ég verð að segja að hún er mun eigulegri en útgáfan frá árinu 2000. Kápuhönnunin er í senn krassandi og mjög eitís en ef marka má internetið þá er nýrri kápan dauflega ljósblá og á henni er heklaður dúkur. Heklaður dúkur! Ekkert gæti lýst efni bókarinnar verr og ég tek þessu sem staðfestingu á því sem mig minnir að árið 2000 (þegar ég var tólf ára) hafi allt verið frekar döll og leiðinlegt.
En af hverju fannst mér þetta svona skemmtileg bók til að lesa með viku gamalt barn á brjósti? Augljósa svarið er það að í bókinni lýsir Auður sinni reynslu af því að verða móðir og því höfðaði efni bókarinnar mjög til mín. Vandræðalega svarið er kannski það að við lesturinn fylltist ég mikilli þórðargleði. Sama hversu erfitt mér fannst allt vera (og ég tók bókina meðal annars með mér upp á spítala) þá var allt hátíð hjá bölvuðu veseninu hjá Hvunndagshetjunni. Að einhverju leyti var Auður einfaldlega óheppin kona. Ég meina, hvaða heimsins óréttlæti er það að verða kynþroska tíu ára? Að mörgu öðru leyti þá er þetta spurning um breyttan tíðaranda, eins og Auður bendir á í bókinni. Auður er fædd árið 1947 en ég rúmum fjörutíu árum síðar. Það datt aldrei neinum í hug að ráðleggja mér að setja markið lægra heldur en hærra þegar ég var að velja mér menntun á unglingsárunum. Mér hefði heldur ekki verið meinað um aðgang að kokkaskólanum ef ég hefði sýnt honum áhuga. Þegar Hvunndagshetjan missir móður sína sem unglingur þá verður hún því fegnust að einhver frænka býður pabba hennar að vera hjá sér í fæði svo það lendir ekki á henni sjálfri. Því miðaldra karlmaður þarf augljóslega meiri stuðning undir slíkum kringumstæðum en unglingsstúlka. Þetta segir sig sjálft, hún getur bara búið ein. Og mörgum árum síðar þykir undirskrift hennar minna virði en undirskrift dæmds skjalafalsara, hann hefur það fram yfir hana að vera jú karlkyns.
Ég er líka innilega fegin því að hafa eignast barn á tímum þegar börn eru bólusett við heilahimnubólgu, þegar búið er að afsanna þá rugluðu vitleysu að það megi bara gefa ungbörnum næringu á fjögurra tíma fresti og þar sem heilbrigðar sængurkonur eru ekki lokaðar inni á spítala í heila viku eftir fæðingu. Almennt séð virðist stétt ljósmæðra hafa tekið miklum framförum í landinu á þessum áratugum sem liðnir eru. Á sængurdeildinni var ég umkringd traustvekjandi og hjálpsömum talsmönnum húð-við-húð aðferðarinnar, þar sem nýbakaðir foreldrar eru hvattir til að vera stöðugt að knúsa barnið berir að ofan, en grey Hvunndagshetjan glímdi í heila viku við eldspúandi dreka sem hvæsti á hana í hvert skipti sem hún reyndi að taka frumburðinn upp úr vöggunni. Engu að síður held ég að flestir foreldrar geti á einhvern hátt tengt við þær aðstæður að vera allt í einu kominn heim með pínkulítið og organdi barn, sem grætur bara hærra þegar þú útskýrir fyrir því: „sonasona, þú ert heima hjá þér núna“. Hvunndagshetjan er fyndin bók um erfiða hluti en sumir kaflar bókarinnar voru mér engu að síður mjög erfiðir. Ég veit ekki hvernig ég hefði tekið þeim undir vejulegum kringumstæðum, en ég hefði líklega ekki fyllst jafn djúpri angist yfir því þegar barnið hennar þurfti að leggjast inn á spítala og starfsfólkinu þar fannst ekkert eðlilegra en að það fengi engar heimsóknir dögum saman af því að hinn háheilagi heimsóknartími var á vinnutíma móðurinnar.
Í bókinni er lýst erfiðri ævi en það sem helst einkennir frásögnina er háðsk reiði svo hún verður aldrei að neinni harmkvælasögu. Lýsingar Auðar á ættingjum sínum, fyrrverandi kærustum og vinkonum á unglingsárunum eru svo fyndnar en jafnframt miskunnarlausar að ég velti því margoft fyrir mér hvort þetta fólk hefði nokkurn tíma talað við hana aftur eftir útgáfu bókarinnar. Eftir því sem leið á bókina varð mér svo smám saman ljóst að furðu mikið af þessu fólki var dáið og allir hinir voru örugglega löngu hættir að tala við höfundinn hvort eð er. Hvunndagshetjan er líklega bók sem ég myndi mæla með að lesa á alls konar krefjandi skeiðum í lífinu, á gelgjunni, í fæðingarorlofi, eftir sambandsslit, við óskilgetinn getnað. Því á sama tíma og maður getur speglað sig í aðstæðum hennar, þá er það garanterað að allt var líklega erfiðara hjá henni og alver örugglega miklu fyndnara.