Rauða minnisbókin er frumraun blaðakonunnar Sofiu Lundberg og hefur slegið í gegn svo um munar og hefur verið nú þegar verið þýdd á fjölda tungumála um allan heim.
Kápan er lokkandi og gefur loforð um ferðalög. Það er ástæðan fyrir því að ég greip hana úr hillunni á bókasafninu. Ég elska ferðalög.

Sagan hefst þar sem 96 ára gamla Doris situr þögul við borð í íbúð í Stokkhólm á meðan heimilishjálpin stormar um eldhúsið og blaðrar látlaust. Gamla konan sléttir úr dúknum og endurraðar hlutunum af þráhyggju fyrir framan sig. Sagan er sögð í nútíð Dorisar þess á milli sem við fáum að lesa úr minningum sem hún hefur skrifað niður og ætlar Jenný frænku sinni. 

Faðir Dorisar gaf henni minnisbók í 10 ára afmælisgjöf sem hún ætti að fylla af nöfnum þeirra sem hún hittir á ævinni. Hann var maður sem þráði að leggja heiminn að fótum sér en vegna vinnu á tréverkstæði, sem hann erfði, og fjölskyldu sem hann þurfti að sjá fyrir gat hann aðeins upplifað ævintýrin í bókum. En hörmung skellur á fjölskylduna og Doris er beinlínis kastað út í heiminn og neyðist til að sjá um sig sjálf.

Eina sambandið sem hún á við umheiminn í ellinni er við Jenny. Doris er ömmusystir Jennyar sem býr í San Francisco og þær talast vikulega saman á Skype.
Samband frænknanna fannst mér furðulegt í fyrstu. Hvernig gat samband svona fjarskyldra kvenna verið svona náið? En eftir því sem líður á frásögn Dorisar og röð þeirra atvika sem marka líf hennar þá er ekki annað hægt en að hrífast af sambandi þeirra.

Bókin er vel skrifuð og persónurnar eru fjölmargar og einstakar með alla sína kosti og galla. Þetta er ástarsaga af bestu gerð og óhjákvæmilegt að fella tár af bæði sorg og gleði á sama tíma! Það er ekki hægt að leggja söguna frá sér. Þú munt sofna með hana á andlitinu og leita að henni um leið og þú vaknar.

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...