Njótum líðandi stundar

Ég greip splunkunýja og frekar litsterka kápu á bókasafninu í þetta sinn.  Stór og mikil prófílmynd af fjólublárri konu sem líkist helst Angelinu Jolie ríkir yfir bakgrunninum og fyrir neðan eru fleiri litlar fígúrur í ýmsum iðkunum. Bókin heitir Undraherbergið og er eftir Julien Sandrel.

Thelma er framakona sem stefnir langt og hátt í starfi sínu hjá snyrtivörufyrirtæki.
Hún er afskaplega upptekin og sjálfstæð. Hún elur ein upp tólf ára son sinn Louis, sem er íþróttalegur og erfiður frammúr rúminu alla morgna eins og allir unglingar ættu að vera.

Strax á fyrstu síðunum veistu að eitthvað óskaplegt er í vændum, því að Thelma varar okkur við því sjálf.
Thelma og Louis eru á leið sinni í gegnum París á fund við móður Thelmu. Hún er önnum kafin við að hlusta á yfirmann sinn í símanum á meðan Louis reynir ákaft að fanga athygli hennar er hann leikur brellur sínar á hjólabrettinu. Á þessari leið mun lífi þeirra umturnast á einu augnabliki.

Þar sem ég el upp ungan mann sjálf var ég ekki viss um hvort ég vildi lesa meira. Ég skellti bókinni saman um stund og þorði ekki áfram, svo skelfileg er tilhugsunin að lenda í þessum aðstæðum Thelmu. En bókakápan? Hún segir að bókin sé í senn átakanleg, fyndin og komi á óvart. Fyndin? Og hvað er þetta Undraherbergi? Ég opna bókina og les.

Sögumaðurinn er Thelma, eða í upphafi er eins og við lesum úr endurminningum Thelmu.  Við fylgjumst með því hvernig hún tekst á við þennan nýja raunveruleika og það með aðstoð stílabókar Louis sem hún finnur í herberginu hans.
Ég átti erfitt með að sætta mig við atburðarásina í fyrstu, hún var svo hröð og óvænt. En þegar bókin var hálfnuð fann ég skyndilega til ótta. Ótta yfir því að sagan væri alltof stutt! Ég held að ég hafi aldrei upplifað þá tilfinningu. Sagan hafði svo sannarlega komið mér á óvart.
Þetta er saga sem minnir okkur á að njóta líðandi stundar. Hún er vissulega hugljúf og ekki að furða að einhver hefur tryggt sér kvikmyndaréttinn af bókinni, sem ég vona að verið kvikmynduð sem fyrst.

Lestu þetta næst

Köld slóð

Köld slóð

Eva Björg Ægisdóttir sigraði Svartfuglinn með glæpasögu sinni Marrið í stiganum árið 2018 og hefur...