Ekkert eins ljúffengt og minningin

22. október 2024

Elísabet Jökulsdóttir hefur sent frá sér nýja skáldsögu, það er nóvellan eða stutta skáldsagan Límonaði frá Díafani. Í henni fer Elísabet yfir æskuár sín og þá nánar tiltekið ákveðna ferð til Grikklands sem hún fór í átta ára gömul með foreldrum sínum og systkinum. Það mætti segja að verkið sé partur af fjölskylduseríu Elísabetar en hún hefur auðvitað mikið verið að vinna með eigin reynslu og fjölskyldusögu í verkum sínum. Verkin Aprílsólarkuldi og Saknaðarilmur vöktu til að mynda mikla athygli þegar þau komu út en í Aprílsólarkulda fer hún yfir sambandið við föður sinn og í Saknaðarilmi tengslin við móður sína.

Smáskoðun á virkni minninga

Í Límonaði frá Díafani er fókusinn aftur á pabba hennar að ákveðnu leyti, en hér er hún meira í endurliti og skoðun á tilfinningum barnæskunnar. Minningar og virkni þeirra er einnig í brennidepli, hvernig við munum hluti og atburði stopult og jafnvel einungis með lyktar- eða bragðskyninu, hvernig sumar minningar magnast upp á meðan aðrar hverfa, og hvernig sumt sé betra í minningunni en það er síðan í núinu. 

Barnsleg augu 

Óvíst er hversu lengi fjölskyldan dvelst í Grikklandi en þetta virðist hafa verið lengri tími en sumarferðalag. Ella Stína, aðalpersónan og sögumaður, talar um að hafa farið þarna í skóla og þau flakka einnig um eyjurnar. Elísabet flakkar líka um minningarnar í verkinu og þær varpa ákveðinni hlýju, en gríska sólin gægist líka reglulega í gegnum textann. Auðvitað er munur síðan á hvort að lesendur þekki fyrri verk og sögu Elísabetar við lestri á þessari bók. Þeir lesendur sem koma inn í Díafani með fyrri verk í bakpokanum lesa þessa tilteknu sögu með öðrum brag en þeir sem renna í hana blint. Sagan hoppar til og frá eins og minningarnar – og barnslegu augun sjá á meðan hið fullorðna skáld skilur en syrgir horfin andlit.

       
Elísabet sér og spáir í tilverunni með svo skemmtilegum augum og það sést vel í þessari stuttu en meitluðu sögu. Smáatriði hversdagsins lifna við í fórum Elísabetar og springa út í merkingarbærari myndir. Lýsingar á tilfinningum ná inn að hjarta og hún er einkar lúnkinn við að byggja upp andrúmsloft í fáum orðum. 

Lestu þetta næst

Hamingjusöm sögulok?

Hamingjusöm sögulok?

Þessi umfjöllun inniheldur spilla.  Ég er nýflutt í íbúð með góðar svalir sem baðaðar eru...

Hinsegin hugarheimur

Hinsegin hugarheimur

Sjálfsævisögulegi söngleikurinn Góðan daginn faggi kom fyrst á svið árið 2021 og hlaut mikið og...

Að sleppa tökunum

Að sleppa tökunum

Spennusagan Bylur er önnur bók höfundarins Írisar Aspar Ingjaldsdóttur sem hefur áður gefið út...

Mega þorskar segja frá?

Mega þorskar segja frá?

Þorskasaga  eftir HAFstein Níelsson og Ólíver Þors(k)teinsson    Nú er loksins komið að því! Ég...

Ég vil bara að einhver muni

Ég vil bara að einhver muni

Ég vil bara að einhver muniGunnella eftir Kötlu Þórudóttur Njálsdóttur hjá Afturámóti Á sviðinu er...

Rústaðu mér

Rústaðu mér

Vinkona mín gerði mér á dögunum tilboð sem ég gat ekki hafnað. Hún var með tæplega 800 blaðsíðna...