Ég las bókina Draumaland. Svefn og svefnvenjur barna frá fæðingu til tveggja ára aldurs eftir Örnu Skúladóttur þegar sonur minn var nýorðinn fjögurra mánaða. Ég fékk bókina lánaða hjá vinkonu minni, sem var sjálf með hana í einhverskonar láni frá vinkonu sinni, enda er þetta bók sem ég hugsa að fáir nenni að lesa nema aðstæður beinlínis kalli á það. Bókin kom út árið 2006 og er enn til í prenti, sem er eins gott, því það er mikilvægt að íslenskir foreldrar hafi aðgang að faglegri ráðgjöf um svefn barna úr íslensku samhengi. Annars þarf maður að gúgla á erlendum tungumálum, sem í tilfelli flestra þýðir enska, og þá er aldrei að vita hvaða skringilegheit maður endar á að lesa. Fyrir utan það að allt sem viðkemur barnauppeldi er mjög menningarbundið og því fannst mér bókin mun hjálplegri heldur en amerískar vefsíður þar sem barnið sefur „in the bedroom down the hall“, fer í bað á hverju kvöldi og hlustar á sögu fyrir svefninn frá þriggja vikna aldri. (Mjög margt við þessar bandarísku vefsíður fékk mig til að gruna að þær væru skrifaðar fyrir ímyndað samfélag hvíts millistéttarfólks í rólegu úthverfi þar sem móðirin er heimavinnandi húsmóðir í stöðugu kapphlaupi við að ala upp einhvers konar undrabarn)
Bókin er skipulögð og skýr og jafnvel mjög uppteknir ungbarnaforeldrar geta lesið hana í heild sinni á skömmum tíma, sem eru mikil meðmæli. Síðar meir er mjög auðvelt að fletta bókinni lauslega og finna einmitt það sem maður er að leita að. Það er augljóst að Arna Skúladóttir er yfirmáta skipulögð manneskja, enda varla annað hægt í tilfelli hjúkrunarfræðings sem hefur kosið að helga starfsævi sína organdi ungbörnum og svefnvana foreldrum. Bókin ber þess að vísu merki að hafa verið breytt smávegis eftir síðasta prófarkalestur, því öðru hverju birtast setningar sem eru mjög ruglingslegar. Útgáfan mætti að ósekju splæsa í lagfæringu á því, fyrst bókin selst enn vel. Það er metnaðarleysi að láta svona standa í hverri nýrri prentun á fætur annarri. Fyrri hlutinn fjallar almennt um ungbörn og svefn og sá seinni er aldursskiptur. Það gagnlegasta í allri bókinni eru skífur í upphafi hvers aldurskafla sem sýna hve mikið barnið þarf að sofa og hve lengi það getur vakað. Í hverjum aldurskafla er líka að finna bréf frá foreldrum sem biðja um ráð og þessi bréf spanna helstu vandamál sem geta komið upp á hverju skeiði.
Ég las sumsé bókina þegar barnið mitt var fjögurra mánaða og fannst hún mjög hjálpleg. Mér skilst að það sé óumflýjanlegt en engu að síður mjög mismunandi í tilfelli hvers ungbarns hvenær foreldrar þess ná botninum hvað varðar ráðaleysi og örmögnun. Í mínu tilfelli var það við fjögurra mánaða aldurinn. Fyrstu þrjá mánuðina hafði ég einhverja dularfulla aukaorku og var þar að auki fyllilega sátt við að lifa bara í minni eigin litlu sápukúlu þar sem allt sem ég gerði miðaðist við þarfir barnsins. Síðan tók við mjög erfiður mánuður, orkan var búin og barnið fór að breytast svo hratt að mér fannst ég ekki lengur hafa nokkra hugmynd um hvers það þarfnaðist. Að auki hafði ég náð því stigi að ég vildi snúa aftur í takt við umheiminn, skipuleggja daginn og hafa einhverja hugmynd um hvernig lífið yrði eftir mánuð, já eða eftir hálft ár, ár. Einhvern veginn myndi þessi litli sídottandi böggull að lokum breytast í stálpaðan krakka sem vaknaði á morgnana og færi að sofa á kvöldin en hvernig í ósköpunum myndi það gerast?
Ég hafði því ákveðnar spurningar í huga og bókin svaraði þeim fullkomlega. Að auki hvatti bókin mig til ýmissa góðra venja sem ég er fegin að hafa tileinkað mér, eins og að hafa skýran fótaferðartíma, vera alltaf búin að hátta barnið og leggja á fastan svefnstað (áður en það örmagnast í fanginu á mér svo ég sit föst og þori ekki að depla auga af ótta við að vekja það), kenna barninu að nota snuð og sofna upp á eigin spýtur. Ég hugsa samt að ég myndi ekki endilega mæla með því að foreldrar lesi þessa bók fyrr en barnið er fætt, jafnvel ekki fyrr en það er orðið tveggja mánaða, nú eða bara þegar þeir finna að þeir þurfa þess. Ástæðan er sú að það er mjög auðvelt að taka svona handbók mjög alvarlega, ekki síst fyrir fólk sem er að takast á við foreldrahlutverkið í fyrsta skipti. Höfundurinn tekur reglulega fram að bókin sé bara ætluð sem viðmið en tónninn í henni er samt oft ansi strangur og sannleikurinn er sá að í hvert skipti sem ég les bókina finn ég fyrir kvíða og jafnvel samviskubiti.
Segja má að bókin veifi í senn framan í foreldra sýn inn í himnaríki og helvíti. Skífurnar í upphafi kaflans sem sýna svefnvenjur hvers aldursskeiðs eru himnaríkið og bréfin frá foreldrum í lokin eru helvítið. Þau ein og sér eru hrollvekjandi og algör óþarfi að vera að íþyngja sér með slíkum lestri á meðgöngu. Þegar ég las bókina fyrst fannst mér svefn barnsins míns hvorki vera neitt sérstakt himnaríki né helvíti. Það svaf nokkuð vel á næturna svona almennt en heldur lítið yfir daginn. Við lesturinn fylltist ég þeirri sannfæringu að það væri á mína ábyrgð að við værum ekki stödd í svefnhimnaríkinu mikla og líklega værum við hársbreidd hjá því að hafna í svefnhelvítinu vegna allrar þeirrar linkindar og og skipulagsleysis sem ég hafði látið vaða uppi. Ætli ég sé ein um að hafa upplifað þetta? Allar mæður á Íslandi þurfa að fara í skimun vegna fæðingarþunglyndis og ég man að eina spurningin á prófinu þar sem ég skoraði nokkur þunglyndisstig var staðhæfingin „þegar eitthvað gengur illa líður mér eins og það sé allt mér að kenna“.
Ef þú ert í fæðingarorlofi, á leiðinni að lesa Draumaland eða nýbúin(n) að því, og líður eitthvað svipað, þá vil ég deila með þér þeirri játningu að nú hef ég fylgt ráðleggingum bókarinnar nokkuð vel í fjóra mánuði og hef enn ekki fengið inngöngu í svefnhimnaríkið. Það liðu líka margar vikur áður en ég náði til dæmis að kenna barninu að sofna sjálfu og himininn hrundi ekki, barnið fór ekki að sofa stöðugt verr og kalla eftir meiri og meiri þjónustu á næturnar. Ég er ekki einu sinni viss um að barnið sofi neitt betur í dag þrátt fyrir alla mína fyrirhöfn. Alls konar staðhæfingar, sem ég er viss um að eru sannar svona almennt, eiga ekki við í okkar tilfelli. Það er engin fylgni á milli þess hvort barnið sefur hálftíma eða einn og hálfan tíma í daglúr og þess hvort því var ruggað í svefn eða ekki. Það dró ekki úr næturvöknunum að ég hætti að svæfa barnið á brjósti. Það eru heldur ekki sjáanleg tengsl á milli þess hvenær barnið vaknar úr síðasta daglúr og hvort það vakni síðan oft um nóttina eða ekki. Svefninn stjórnast af einhverjum innri þörfum sem eru einfaldlega handan míns áhrifasviðs. Sorrí, en stundum er bara ekki til neinn aðgöngumiði í himnaríki. Það sem bókin raunverulega hjálpaði mér við var að gera mitt líf skipulagðara og auðveldara við umönnun barnsins og fyrir það er ég mjög þakklát. Aðrir foreldrar hafa eflaust aðra sögu að segja og þegar allt kemur til alls þá þarf bara að muna að þetta er handbók. Þú aðlagar hana að barninu og þínu heimilislífi, en ekki öfugt.