Þrúður er átta ára stelpa sem Guðni Líndal Benediktsson hefur skrifað um í tveimur barnabókum: Stelpan sem ákvað að flytja húsið sitt upp á fjall (og þurfti að berjast við vélkjúklinga og sjóræningjaeðlur) og Stelpan sem týndi bróður sínum í ruslinu (og komst í kynni við bollamörgæsir og leðjubirni). Það verður að segja eins og er að nöfnin á bókunum eru afskaplega óþjál og fældu okkur frá bókunum til að byrja með. Þess vegna náði fyrri bókin að fara framhjá okkur þegar hún kom út í fyrra. En við rákumst á seinni bókina og erum handviss um að við ætlum að næla okkur í fyrri bókina líka.

Þrúður er stórkostlega hugmyndarík stelpa. Í Stelpan sem týndi bróður sínum í ruslinu þarf Þrúður að kljást við fuðurverur sem fela sig í ruslahrúgum. Hún þarf að bjarga litla bróður sínum Sturlu frá Ruslhvelinu, hræðilegu skrímsli sem er manað fram af ógrynni af rusli, drasli, sandi og leikföngum sem Þrúður hefur skilið eftir um allt hús. Þrúður er nefnilega ekki mjög snyrtileg ung kona. Henni finnst alls ekki gaman að taka til. Að sjálfsögðu endar allt vel að lokum. Strax í byrjun bókarinn vorum við farin að hlæja hvort sem það var vegna textans eða teikninganna. Bókin er skemmtilega hnyttin á allan hátt. Ef til vill talaði bókin sterkar til okkar, því barn eins og Sturla er til á heimilinu okkar. Okkur fannst stórfyndið að sjá Sturla klæddan upp sem risaeðlu að leika í risaeðluleikriti. Og það vermdi okkur að finna hve Þrúður ann bróður sínum heitt.

Myndskreyting Ryoko Tamura er snilldarleg! Bollamörgæsirnar fengu okkur til að skella upp úr og Sturla var ótrúlega skemmtilegur og krúttlegur. Jói hundur er oft að bralla eitthvað skemmtilegt á síðunum og ef maður skoðar hverja mynd nógu vel, þá finnur maður alltaf eitthvað skemmtilegt eða skrýtið.

Við mæðginin mælum með bókinni fyrir aðrar tætibuskur þarna úti, hvort sem það eru strákar eða stelpur. Nú þarf ég að fara að taka til, til að lenda ekki í sömu raunum og Þrúður.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...