Korka er stórkostlega hugmyndarík og orkumikil stelpuskjáta, enda hefur verið skrifuð um hana bókin Korkusögur. Systurnar Ásrún og Sigríður Magnúsdætur skrifuðu og myndskreyttu bókina saman. Korka er að einhverju leyti byggð á dóttur Sigríðar.

Korka á fjölda gæludýra, hunda og ketti, hesta og fugla, sem taka stundum þátt í ódæðum hennar. Korka ætlar auðvitað ekki að hegða sér illa og það er í raun ekki það sem hún gerir. Hugmyndirnar koma og þær ber að framkvæma strax! Hvatvísin ræður öllu og Korka framkvæmir hlutina án þess að velta þeim of mikið fyrir sér. Korka er skemmtilega áræðin stelpa, bjartsýn og glaðvær og getur án efa heillað unga lestrarhesta, þótt ég voni að þeir taki ekki upp á svipuðum uppátækjum og Korka.

Korkusögur er hluti af Ljósaseríu Bókabeitunnar. Bækurnar eru sniðnar að þörfum yngstu lesendanna; stórt letur, gott línubil og skemmtilegar myndir. Málsgreinar eru þægilega stuttar, þótt stundum hafi þær verið ívið of langar í bókinni um Korku. Þegar málsgreinum er vandlega skipt niður er svo auðvelt að gera samning við tilvonandi lestrarhest:”Þú lest þetta og ég les þetta.” Svoleiðis samningur hefur virkað vel fyrir okkur mægðinin og gekk að nokkru leyti upp við lesturinn á Korkusögum.

Okkur fannst sögurnar um Korku skemmtilegar. Hið hvatvísa eðli Korku er í fjarlægum heimi fyrir rólyndispiltunum sem  lásu bókina á mínu heimili. Þeir áttu stundum erfitt með að lesa um og hlusta á sögurna, einfaldlega af því þeir eiga erfitt með að lesa, horfa eða hlusta á sögu um einhvern sem er að brjóta reglur eða gera eitthvað af sér (þess vegna hefur ekki verið horft á Emil í Kattholti, það er of streituvaldandi). En við komumst í gegnum hana og okkur þótti hún skemmtileg. Hver veit nema Korka verði íslenska útgáfan af Emil í Kattholti, ef það koma fleiri sögur af henni?

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.