Svikarinn eftir Lilju Magnúsdóttur kom út fyrir stuttu. Bókin er byggð á smásögu sem sigraði Gaddakylfuna árið 2008, smá- og glæpasagnaverðlan Mannlífs og Hins íslenska glæpafélags. Mér sýnist á öllu að hætt sé að veita Gaddakylfuna, þau hafi lognast út af.

Smásögunni líkur þar sem ung kona er ein á hraunbreiðu þar sem giftur ástmaður hennar skilur hana eftir. Lilja heldur áfram þar sem frá var horfið í smásögnni í bókinni Svikarinn. Konan vaknar í hrauninu og ráfar um í leit að ástmanni sínum sem er frammámaður í viðskiptalífinu. Unga konan ratar ekki heim, enda virðist hún lítið vita um nokkkuð sem gerist utan stór-Reykjavíkursvæðisins.

Bókin byrjar eins og ágætis sakamálasaga. Mig langaði helst að vita eitthvað um það hvers vegna unga konan var skilin eftir sofandi á mosagrónu hrauni, að því er virðist til að deyja á köldum marsdegi. Einsetubóndi rambar fram á konuna í myrkinu og skýtur yfir hana skjólhúsi á bóndabænum sínum. Ég hlakkaði til að lesa um ástæðurnar fyrir því að ástmaður hennar vildi losa sig við hana á þennan hátt. Var það ætlunin að hún skyldi deyja? Hvað kom upp á í þeirra sambandi? Ég var með fullt af spurningum. En það olli mér vonbrigðum að fá lítið að vita um allt þetta. Og ástmaðurinn sem virðist hafa öll svörin er horfinn eins og dögg fyrir sólu, yfirgefur fjölskylduna sína, ástkonu, son og starf. Í staðinn fyrir að vera spennandi glæpasaga þróaðist bókin yfir í nokkurs konar ástarsögu, þar sem karlmenn eru fjallmyndarlegir og hafa einhver skrýtin áhrif á konur og konur eru valdlausar og alltaf hissa.

Ef til vill er hægt að lesa ástarsöguna úr kynningartextanum á kápu bókarinnar. Bókin er ekki auglýst sem sakamálabók, en byrjun hennar býður upp á hörkuhasar og von til þess að leysa samsæri og finna óréttlæti á hverri blaðsíðu í bókinni. Frásögnin er hins vegar róleg og yfirveguð, segir frá ungu konunni og lífi hennar. Smátt og smátt fær lesandi líka að kynnast eiginkonu ástmannsins og það kemur í ljós að hún hélt líka framhjá. Þannig að maður er aldrei viss um hver hinn eiginlegi „svikari“ er, því allir í bókinni ljúga. Hugsanlega eru það skilaboðin með bókinni, lygar kalla á fleiri lygar og aðeins tímaspursmál hvenær spilaborgin hrynur.

Fljótlega kemur líka í ljós að bókin á að gerst í kringum síðustu aldamót áður en allir urðu sítengdir með snjallsímum, þegar maður þurfti að hringja inn til að tengjast netinu. Það var svolítið frískandi að lesa þannig sögu. Sveitarómansinn fær virkilega að njóta sín, unga konan finnur hamingjuna í sveitinni. Viðbrögð aðalpersónunnar voru að mínu áliti oft órökrétt og skrýtin og valdaleysi hennar var mjög áberandi. Hún heldur bara áfram að vera þar sem hún var skilin eftir, fer ekki heim til sín aftur.

Hugmyndin að bókinni er fín, en það er eins og það hafði þurft að strekkja betur á söguvefnaðinum. Hún er mjög laus ofin, mér fannst ég ekki tengjast persónunum, oft á tíðum fóru viðbrögð persónanna í taugarnar á mér og sumar persónur fékk maður að vita of lítið um.

Ég get mælt með bókinni fyrir þá sem vilja lesa gamaldags ástarsögu, með örlítilli fléttu af svikum, samsæri og lygum, ást og sveitarómans. Spennandi glæpasaga er hún hins vegar ekki.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...