Ég var ekkert of viss um hvað mér ætti að finnast um Stormsker – Fólkið sem fangaði vindinn eftir Birki Blæ Ingólfsson þegar ég byrjaði að lesa hana. Einhvern veginn minnti hún mig á Söguna af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason, sem er svo sem ekki slæmt. Þannig að ég hélt áfram og eftir nokkra kafla í viðbót var ég kolfallin fyrir bókinni. Bókin fékk íslensku barnabókaverðlaunin í ár.
Þegar ég gúgglaði „Stormsker“ kom upp heimasíða Sverris Stormskers. Það var einmitt líka það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég sá nafnið á bókinni, sem getur ekki talist gott fyrir barnabók. En bókin minnir á engan hátt á Sverri Stormsker og eftir að ég sökkti mér ofan í bókina var ég búin að gleyma öllu um Sverri.
Á ónefndri, lítilli eyju á norðurhjara veraldar fáum við að kynnast tólf ára drengnum Ópusi. Eyjan er kunnugleg, en samt svo framandi. Ópus er ósköp venulegur strákur, sem á mömmu sem er alltaf upptekin í vinnunni. Einn daginn flýgur stórt hitabeltisfiðrildi inn um gluggann hans og skömmu síðar kólibrífugl. Ópusi finnst þetta allt saman ósköp undarlegt, enda er langt í hitabeltið frá eyjunni hans, þar sem vindurinn blæs stöðugt. Þegar Ópus kannar hvaðan fiðrildið og kólibrífuglinn koma kynnist hann Súsönnu, eldri konu sem býr í útjaðri höfuðborgar eyjarinnar og flestir krakkar óttast. Súsanna kennir Ópusi að hlusta á vindinn og skilja. Ópus kemst að því að vindurinn valdi hann til að berjast gegn ríkasta manni veraldar sem hefur sett upp þúsund siglutré á eyjunni hans til þess að beisla vindinn og framleiða tíma sem seglum. Það er allt útskýrt í bókinni hvernig það er gert.
Ég hef lengi átt í ástar/hatur sambandi við vindinn. Vindurinn getur verið hrikalegur, ljúfur, kaldur, blautur, stingandi, sterkur, hvæsandi og gólandi. Stormsker er stórkostlega frumleg bók, að mínu mati. Hún er ótrúlega íslensk. Þegar ég bjó í Noregi þá saknaði ég einskis meira en vindsins. Vindurinn gerir loftið lifandi, hann er veðrið. Þess vegna kolféll ég fyrir Stormskeri, því innst inni elska ég vindinn og vonda veðrið. Hann er Ísland. Birkir Blær býr til sögu um vindinn í bókinni, eins konar sköpunarsögu vindsins. Mér fannst hún dásamleg! Allir ættu að lesa bókina, þótt það sé ekki nema bara til að lesa sköpunarsögu vindsins.
Undirliggjandi þema í bókinni er tímaþröng fullorðna fólksins. Hver hefur ekki einhvern tímann sagt: „Mig vantar fleiri klukkutíma í sólarhringinn“ í gamni? Forstjórinn brosandi í Stormskeri hefur fundið svar við því. Hann skapar tíma fyrir allt mannkyn og græðir stórt á sama tíma en leggur líka alla jörðina í hættu. Birkir Blær stillir börnum upp á móti fullorðnum, sem er ekki óþekkt þema í barnabókum. Hann gerir það samt vel finnst mér. Hinir fullorðnu nota tímann til að vinna meira í staðinn fyrir að njóta fjölskyldulífsins eða sinna áhugamálum. Tilgangurinn með tilrauninni gleymist, allir verða enn þreyttari. Börnin gleymast og það eru sterk skilaboð. Allt fer að snúast um peninga, vinnu, arð og tekjur. Kapítalisminn á móti barnslegu sakleysi.
Birkir Blær skrifar ljóðrænan texta á stundum, svo grípandi að ég las bókina í einum rykk. Maður kemst ekki hjá því að þykja örlítið vænt um vindinn eftir lesninguna og fá jákvæðara hugarfar til hans. Mér finnst að allir Íslendingar ættu að þakka fyrir vindinn stundum.
Það eru sterk skilaboð í bókinni. Við lifum á tímum þar sem arður fárra skiptir meira máli en jörðin okkar og Stormsker talar á opinskáan hátt um það. En hún er líka alveg stórkostlegt ævintýri. Ég efast ekki um að börn eigi eftir að kunna vel við hana þótt boðskapurinn eigi ef til vill eftir að fara fyrir ofan garð og neðan hjá þeim. Yngstu lesendur búa kannski ekki yfir þolinmæði til hlusta á hana, að minnsta kosti ekki minn ungi lesandi. En hún á eftir að heilla eldri lesendur.