Síðasta samtal mitt við ömmu mína var á hjúkrunarheimilinu, hún var eiginlega alveg hætt að geta tjáð sig, en skyldi allt. Ég sagði henni frá strákunum mínum, hvað við værum að bralla og bardúsa og ég held henni hafi þótt ágætt að hlusta á mig. Hún náði að draga mig að sér og hvísla í eyrað mitt „þú ert dugleg“. Mér þótti vænt um að heyra það frá henni, sem alla sína ævi hafði sjálf verið harðdugleg. Amma var farin að gleyma þegar ég var kominn á þann aldur að hafa vit á að spyrja hana um fortíðina. Einu sinni fékk ég þó að heyra allt um það hvernig langamma og langafi hittust. Því fylgdi vísa, sem ég asnaðist ekki til að skrifa niður. Ég sé alltaf eftir því. Ég vona að eitthvað af frændsystkinum mínum hafi varðveitt einhverjar af þessum minningum og kannski eitthvað af ljóðunum sem hún skrifaði niður. Hvar ætli þau séu nú niðurkomin?

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir skrifaði bókina Amma – Draumar í lit  þar sem hún skrifar um ævi ömmu sinnar og nöfnu; æskuna, uppvöxtinn, ástina og draumana. Minningar fyrri kynslóðar. En í staðinn fyrir að segja söguna frá upphafi til enda fær lesandinn að fylgjast með sögunni verða til. Hólmfríður Helga fer í heimsókn til ömmu sinnar, drekkur með henni kaffi og lesandinn fær að fylgjast með samtalinu eins og fluga á vegg. Svo sekkur maður inn i minninguna eins og í mjúka dýnu. Á köflum minnti bókin mig á viðtal, skrifað í blaðamannsstíl. Annars staðar var hún innblásin af tilfinningum, nostalgíu og ljóðrænni viðkvæmni. Hólmfríður Helga nær að fanga stemninguna og koma til skila til lesandans; ég fann lykt af kaffi, bragð af súkkulaði, lykt af sjó, kaldan vind við kinn.

Sögunum af nöfnunum er spunnið saman og ljóð Hólmfríðar eldri eru notuð til kaflaskipta og til að dýpka frásögnina. Hólmfríður Helga hoppar á milli nútíðar og fortíðar, en það er alltaf greinilegt hver er að tala. Frásagnirnar í bókinni byggja upp mynd af hörkuduglegri konu í gleði og sorg. Saga Hólmfríða er líklega ekki einstök. Saga hennar er saga kvennanna sem sáu um heimili og börn ólaunað og unnu síðar úti. Kvenna með fullt af börnum og magnaða ábyrgð.

Einhversstaðar rakst ég á hugleiðingu um bókina sem hljómaði einhvern veginn á þann veg að þetta væri allt að sem viðkomandi hefði viljað spyrja ömmu sína um. Ég er bara alveg sammála því. Ég vildi að ég hefði getað spurt ömmu að svo mörgu, en ef til vill er hægt að byggja upp einhverja mynd af tíðarandanum í gegnum Amma – draumar í lit, þótt lífsskilyrði Hólmfríðar og ömmu minnar hafi verið mjög frábrugðin.

Amma – Draumar í lit er einlæg bók og fróðleg fyrir marga hluti. Hún er nett og lítil og kápumyndin býður manni að koma inn, setjast yfir kaffi og spjalla saman.

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...