Fyrir jólin datt í búðirnar bókin Norrænu goðin eftir Johan Egerkrans í íslenskri þýðingu Sigurðar Þórs Salvarssonar. Bókin er bráðfalleg með stórfenglegum, myrkum myndum og sögum úr Völuspá, Grímnismálum, Vafþrúðnismálum og fleiri fornum norrænum handritum. Bókin kom fyrst út í Svíþjóð árið 2016 og fékk góðar viðtökur, að mér sýnist, og hefur verið þýdd á nokkur tungumál.
Ég er mikil áhugakona um norrænu goðin og klæjaði í fingurna eftir að skoða þessa veglegu bók og ég varð alls ekki yfir vonbrigðum. Svo virðist sem áhugi á norrænum goðum, ásatrú og því norræna sé í tísku (og hefur reyndar verið í nokkur ár). Það er eins og fólk á norðurslóðum, rithöfundar, þáttagerðarfólk og kvikmyndafólk sé að blása lífi í þennan áhuga og mér finnst það ótrúlega skemmtilegt.
Í Norrænu goðunum nýtir Egerkrans sér gamlar sagnir og fróðleik og augljóst er að hann hefur kynnt sér efnið vel og vandlega. Hann setur allt saman fram á mjög aðgengilegan hátt. Hann sameinar fróðleik, afþreyingu og norrænan menningararf í skemmtilegum texta. Sigurður Þór hefur svo þýtt textann af snilld og á svo fallegu máli að það var unun að lesa.
Egerkrans er að aðalstarfi myndlistamaður og myndskreytir og svo rithöfundur. Myndirnar í Norrænum goðum eru myrkar og epískar, lýsandi og grípandi og hæfa efninu að mínu mati ótrúlega vel. Norrænu goðin er bók sem ætti að vera til á heimilum þeirra sem hafa áhuga á norrænu goðsögnunum og hjá þeim sem vilja þróa með sér áhuga á því efni, því bókin er virkilega eiguleg.
Það er gleðilegt að sjá nýja útgáfu af sögunum um norrænu goðin koma út á Íslandi. Síðasta útgáfa af þessum sögum á nútímamáli í sambærilegu formi (samkvæmt minni vitneskju, það má alveg leiðrétta mig) er frá 1979, Goð og garpar úr norrænum sögnum. Það er ágæt bók, en er á fremur þvælingslegu tungumáli og höfðar ekki endilega til yngri kynslóða. Norrænu goðin passa aftur á móti öllum aldurshópum. Krakkar geta setið og pælt í myndunum og lesið textana, sem eru sumir snarpir og þægilegir, og þeir geta sökkt sér í lengri sögur. En bókin er líka tilvalin tækifærisgjöf fyrir gamlan frænda eða frænku. Bókin passar öllum!