Íslensku bókmenntaverðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í kvöld. Sigurvegarar kvöldsins eru Hallgrímur Helgason í flokki fagurbókmennta, fyrir bók sína Sextíu kíló af sólskini, Sigrún Eldjárn í flokki barna- og ungmennabókmennta fyrir Silfurlykilinn og að lokum hlaut Flóra Íslands verðlaunin í flokki fræðirita og bóka almenns efnis. Að baki Flóru Íslands standa Hörður Kristinsson, Þóra Ellen Þóhallsdóttir og Jón Baldur Hlíðberg.
Sextíu kíló af sólskini fjallar um umbrotatíma í íslensku samfélagi um aldamótin 1900, þegar Norðmenn komu með nútímann til Íslands. Sagan segir af feðgunum Eilífi og Gesti sem lifa mjög ólíka tíma.
Silfurlykillinn segir af systkinunum Sóldísi, Sumarliða og pabba þeirra í dystópíu-heimi, þar sem mannkynið hefur eyðilagt jörðina og hver og einn þarf að berjast fyrir lífi sínu. Sigrún segir þessa sögu á einfaldan og sakleysislegan hátt.
Flóra Íslands er sagt vera eitt yfirgripsmesta rit sem komið hefur út um íslenskar plöntur. Hér er öllum 467 æðplöntutegundum íslensku flórunnar lýst í máli og myndum auk þess sem fjallað er ítarlega um byggingu, lífsferla og þróun plantna.
Lestrarklefinn óskar vinningshöfum til hamingju með verðlaunin.
Aðrir tilnefndir voru:
Tilnefningar í flokki fagurbókmennta:
- Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur
- Lifandilífslækur eftir Bergsvein Birgisson
- Sálumessa eftir Gerði Kristnýju
- Sextíu kíló af sólskini eftir Hallgrím Helgason
- Haustaugu eftir Hannes Pétursson
Tilnefningar í flokki barna- og ungmennabóka:
- Sagan um Skarphéðin Dungal sem setti fram nýjar kenningar um eðli alheimsins eftir Hjörleif Hjartarson og Rán Flygenring
- Ljónið eftir Hildi Knútsdóttur
- Rotturnar eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur
- Silfurlykillinn eftir Sigrúnu Eldjárn
- Sölvasaga Daníelssonar eftir Arnar Má Arngrímsson
Tilnefningar í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:
- Þjáningarfrelsið. Óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla eftir Auði Jónsdóttur, Báru Huld Beck og Steinunni Stefánsdóttur
- Flóra Íslands. Blómplöntur og birkningar eftir Hörð Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg og Þóru Ellen Þórhallsdóttur
- Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson
- Kristur. Saga hugmyndar eftir Sverri Jakobsson
- Skúli fógeti – faðir Reykjavíkur eftir Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur