Sextíu kíló af sólskini eftir Hallgrím Helgason var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fagurbókmennta og mér finnst mjög líklegt að hún hreppi þau verðlaun, að öðrum tilnefndum bókum ólöstuðum. Ég hef brætt það með mér í nokkra daga hvað ég eigi að segja um bókina. Það að skrifa eina setningu (“bókin er rosalega góð”) um bókina nægir ekki, enda miklu meira en einnar setningar bók hér á ferðinni og ég sé svo sannarlega ekki eftir því að hafa eytt jólunum með nefið í þessari heiðgulu dásemd.

Hallgrímur skrifar sögu Eilífs Guðmundssonar og sonar hans Gests Elífssonar og um lífið og samfélagið í Segulfirði í þremur bókum. Augljóst þykir að Segulfjörður sé einhverskonar skáldanafn yfir Siglufjörð. Sagan gerist í lok nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu, á þeim miklu umbrotatímum er nútíminn ruddi sér til rúms í staðnað bændasamfélag Íslands sem var nær algjörlega háð einhvers konar þrælavinnu. Þetta hefur maður lesið um í sögubókunum.

Strax á fyrstu síðum bókarinnar gefur Hallgrímur tóninn fyrir það sem koma skal, bókin er öll eins konar hlægileg harmsaga en þó örlar á von inn á milli. Sagan er öll skrifuð í gamansömum tón þar sem skemmtileg nýyrði og gamalyrði skjóta upp kollinum á ólíklegustu stöðum og Hallgrímur leikur sér með tungumálið og orðaleiki. Það er hálfgerður vaðall á textanum en mér finnst Hallgrímur hafa komið í veg fyrir að lesandi fái leiða á textanum með því að hafa kaflana stutta og hnitmiðaða. Mér fannst textinn leikandi léttur og skemmtilegur þótt efnið væri kannski ekki hið léttasta.

Ömurð og þrælslund Íslendinga fyrr á tímum er ekki efni sem er auðvelt að koma frá sér á skemmtilegan hátt, en Hallgrímur gerir það að mínu mati á stórskemmtilega vegu sem ekki eingöngu fangar lesandann heldur vekur líka áhuga á liðnum tímum.

Eflaust gætu lærðir sagnfræðingar og aðrir færir grúskarar sagt ýmislegt miður gott um sannleiksgildi sögunnar. En það er líklega ástæðan fyrir því að Hallgrímur ákvað að breyta öllum staðarnöfnum; svo það sé ekki hægt að hanka hann á einhverjum smáatriðum eins og réttum sögulegum staðreyndum. Persónu- og staðalýsingar eru mjög litríkar. Eymd og fátækt, óþrifnaður og hin harða brynja sem Íslendingar þurftu að skarta spilar stóran þátt í sögunni. Oftar en einu sinni furðaði ég mig á því að hér væri yfir höfuð byggð ennþá, í þessu harðbýla og oft á tíðum fjandsamlega landi, að Íslendingar væru ekki fyrir löngu allir steindauðir úr hungri og vosbúð. En inn á milli leyndist vonin og hamingjan. Lýsingarnar á persónunum eru skemmtilega litríkar. Mér er hugsað til lýsingar hans á persónunni Steinku úr Bæjarkoti, sem hann lýsir sem einhvers konar forynju langt úr fortíð Íslands. Ég las lýsinguna nokkrum sinnum og hló.

Hallgrímur býr til alls konar sögur um íslenska þjóð og útskýringar á því af hverju Íslendingar eru eins og þeir eru. Ég gat hæglega hlegið upphátt að sumu glensinu en stundum hitti það of nærri heimahögum og maður glotti vandræðalega út í annað.

Þótt aðalpersónurnar í bókinni séu Eilífur og Gestur þá eru þeir ansi fjarlægir sem aðalpersónur, líkt og fólk þurfti kannski að vera á þeim tíma þegar dauðinn gat kveðið að dyrum hvenær sem var. Sextíu kíló af sólskini er ekki eingöngu um þá feðga, heldur um allt samfélagið í Segulfirði á þessum umbrotatímum í Íslenskri sögu, þegar Norðmenn kynntu Íslendinga fyrir síldinni.

Það hefur svo sem alltaf verið vitamál að Íslendingar hafa þurft að berjast við landið sitt í gegnum aldirnar. Það að búa á Íslandi er eins og einhvers konar ástar-hatur samband og er það sennilega enn í dag, rétt eins og þá og Hallgrímur gerir sér þetta samband Íslendinga við Ísland að leik í bókinni. Ég hef oft furðað mig á því að á Íslandi skuli ekki vera ríkari hefð fyrir sjávarfangi. Í staðinn fyrir að nota það sem hafið allt í kring býður og bauð upp á í gegnum tíðina hafa Íslendingar frekar sóst í að éta úldinn mat. Það er með ólíkindum og verður seint skilið. Hallgrímur gerir stólpagrín að þessu í bókinni.

Sextíu kíló af sólskini  er stórskemmtileg bók sem ég mæli með að allir lesi. Hallgrímur leikur sér að því að búa til persónur, atburði, sagnir og sögur svo úr verður skemmtilegur vaðall af skáldlegri sögu íslenskrar þjóðar á mörkum byltingar.

 

Lestu þetta næst

Dulmögnuð spennusaga

Dulmögnuð spennusaga

Nýlega kom út framhald bókarinnar Dauðaleit eftir Emil Hjörvar Petersen inn á Storytel. Bannhelgi...

Föst í Hulduheimi

Föst í Hulduheimi

Það er farið að líða á haustið. Úti er rökkur, rakt og kalt. Náttúran fellur í dvala og sjálf...

Drekar, dauði og erótík

Drekar, dauði og erótík

Hafi man eitthvað fylgst með bókaumræðum á samfélagsmiðlum á þessu ári þá er ansi líklegt að man...