Hin hugrakka Lukka og hugmyndavélin

Lukka er tólf ára stelpa sem verndar stórkostlegan dýrgrip. Á ferð um Suður-Ameríku fékk hún í hendurnar dýrmætustu uppfinningu sem nokkurn tímann hefur verið fundin upp, hugmyndavélina. Hugmyndavélin virkar þó ekki, því hún bilaði fyrir löngu síðan og það vantar einhverja hluti í hana. Lukka hefur eytt nokkuð löngum tíma í að reyna að laga hana, sem henni ferst vel úr hendi þar sem hún er mjög klár stelpa sem kann að gera við hluti. Nú þegar eru komnar út þrjár bækur eftir Evu Rún Þorgeirsdóttur um Lukku og hugmyndavélina; Lukka og hugmyndavélinLukka og hugmyndavélin í svakalegum sjávarháska og Lukka og hugmyndavélin hætta í háloftunumLogi Jes Kristjánsson myndskreytir bækurnar.

Þar sem hugmyndavélin er ein dýrmætasta uppfinning nokkurn tíman hefur verið fundin upp, þá girnast hana margir. Á flakki um landið með foreldrum Lukku, sem eru eitursvalir fornleifafræðingar, endar Lukka ásamt Jónsa bróður sínum oft í svakalegum ævintýrum. Lukka og Jónsi þurfa að kljást við illmenni í Smáadal í fyrstu bókinni, sem hafði í hyggju að búa til gull úr ull. Í annarri bókinni lenda þau í sjávarháska þegar annað illmenni rænir af þeim vélinni og skilur þau eftir úti á sjó. Í þriðju bókinni þurfa þau svo að takast á við höfuðpaurinn, þann sem stendur á bak við allt saman. Hugmyndavélin spilar sinn þátt í sögunni með því að koma krökkunum til bjargar, en vélin er öflug og ætti ef til vill ekki að nota.

Sögurnar um Lukku og hugmyndavélina eru tilvaldar fyrir krakka sem vilja lesa spennandi sögu um stelpu sem getur allt. Sögurnar eru saklausar og hraðar og henta því krökkum sem frekar vilja lesa stuttar hnitmiðaðar sögur með einföldum söguþræði, en þó leynist smá áskorun í honum.

Uppbyggingin í hverri bók er mjög svipuð. Lukka og Jónsi fara á nýjan stað með foreldrum sínum, kynnast góðmenni sögunnar, komast þar á eftir í kynni við illmennið, lenda í hættu og bjargast með hjálp hugmyndavélarinnar og fyrrnefnds góðmennis. Hugmyndavélin er því miður óvirk í öllum bókunum og ég var satt að segja alltaf að bíða eftir því að hugmyndavélin fengi sína rullu, að hún væri notuð. Hún var þó eingöngu notuð til að láta hluti fljúga um og bjarga krökkunum á ögurstundu. En þá hjálpar að hafa annað sjónarhorn á söguna. Við vorum tvö sem lásum sögurnar saman og félaga mínum í lestrinum þótti bókin spennandi einmitt af því að Lukka var alltaf að reyna að laga vélina. Því fylgdi áskorun.

Af einhverri ástæðu var mér oft hugsað til Tinna og ævintýra hans á meðan ég las bækurnar. Ég veit ekki hvort spilar meira inn í þar; texti Evu Rúnar eða myndir Loga Jes Kristjánssonar. Teikningarnar eru fallegar, vandaðar og skemmtilegar og Logi nær að fanga töfra bókanna algjörlega með myndunum. Persónurnar eru teiknimyndafígúrulegar, alveg eins og þær koma fram í textanum. Ýktar og furðulegar. Líklega minna þær mig á Tinna vegna þessa.

Bækurnar um Lukku og hugmyndavélina eru skemmtilegar bækur fyrir krakka sem vilja lesa bækur hratt, en samt hafa mikla spennu. Sögurnar heilluðu lestrarfélaga minn á tíunda ári, sem fannst geggjað að lesa um forna uppfinningu og krakka sem virkilega sigrast á öllu. Mér fannst vanta meiri aksjón frá hugmyndavélinni.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.