Ég veit hreinlega ekki hvað ég á að segja annað en það að Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur, fréttakonu á RÚV, er mögulega óþægilegasta bók sem ég hef lesið í langan tíma. Mér líður ennþá illa á sálinni og samt eru rúmlega þrjár vikur síðan ég kláraði að lesa hana.
Ég hlustaði á hana í lestri Sigríðar áður en ég fór að sofa á kvöldin. Eftir á að hyggja var það ekki allra besta hugmynd í heimi að hlusta á dystópíska skáldsögu með raunsæislegum blæ svona rétt fyrir svefninn. Ég var orðin svo rosalega taugaveikluð í lokin að ég gat ekki hugsað um annað en að ég þyrfti að fara að sanka að mér dósamat og læra að mjólka kýr. Ekki hjálpaði svo til að Sigríður er vön að segja mér fréttirnar á kvöldin þannig að ég upplifði bókina aðeins of raunsæja í lestri hennar. Mér fannst sem þetta væri í rauninni bara fréttaflutningur úr samtímanum. En þetta er klárt dæmi um góða skáldsögu; hún situr á sálinni og fær mann til að endurhugsa hlutina og gagnrýna jafnvel samfélagið.
Samstaða íslendinga ofar öllu
Fyrir þá sem ekki vita þá fjallar bókin um tengslarof Íslands við umheiminn. Ísland einangrast algjörlega. Enginn veit hvað gerst hefur og enginn veit hreinlega hvort að líf sé utan landsteinanna. Ísland er orðið algjört Eyland eins og titillinn segir til um. Það má með sanni segja að við 20. aldar og 21. aldar búar höfum ekki upplifað Ísland sem eyland líkt og forfeður okkar gerðu enda er allt okkur á reiðum höndum og stutt í næsta áfangastað handan Atlantshafsins; eða svo til. Í kjölfar þessa tengslarofs brýst út þjóðernisrembingur mikill þar sem stjórnmálamenn halda uppi íslenska fánanum og tala um mikilvægi íslenska stofnsins og íslenskrar framleiðslu enda sé það, það eina sem íslendingar geti stólað á. Vöru- og lyfjaskortur setur sitt mark á samfélagið sem berst í bökkum og reynir hvað það getur að endurhugsa líf sitt og starf. Útlendingar; innikróað ferðafólk og innflytjendur verða óæskilegir íbúar og frumskógarlögmálin taka völdin.
Magnaður texti endurspeglar óhugnaðinn
Sigríði tekst á áhrifamikinn hátt að fjalla um málefni útlendinga og rasisma í skáldsögunni sem sveipast um fjórar meginpersónur; fréttamanninn Hjalta, fyrrverandi ástkonu hans Maríu og tvö börn hennar. Að auki fjallar Sigríður um stöðu fréttamannsins í hamförum sem þessum og samskipti fréttamanna á litla Íslandi við stjórnvöld. Hjalti er afskaplega ófullkominn karakter og gífurlega mannlegur; auðtrúa og einfaldur að mörgu leyti en að sama skapi tekst honum að lokum að sjá í gegnum lygavefi stjórnvalda og reynir að breyta rétt.
Söguþráðurinn flakkar fram og tilbaka og lýsir lífi persónanna þegar tengslarofið verður og síðan fimm árum síðar. Skrif Sigríðar eru raunsæ en texti hennar er lifandi og sterkur. Hún er óhrædd við að nota lýsingarorð og kafar djúpt ofan í tungumálið til að segja frá óhugsandi aðstæðum. Fegurðin og óhugnaðurinn endurspeglast því vel í skrifum hennar. Hvert einasta orð er valið af kostgæfni.