Spennuþrungin og tilfinningarík saga vafin í undurfagran texta

Bókin kom út árið 1999 og fékk Ólafur mikið lof fyrir. Meðal annars var seldur kvikmyndaréttur að bókinni en því miður hefur enn ekki verið gerð kvikmynd, svo ég viti til.

Mér líður smávegis eins og ég hafi verið að kveðja góðan vin í hvert skipti sem ég klára góða bók. Smá leiði myndast en á sama tíma líður mér vel í sálinni af því ég fékk að kynnast góðum vinum og ferðast inn í nýja og ókannaða heima.

Í þetta skipti var það bókin Slóð fiðrildanna eftir Ólaf Jóhann, enn ekki hvað! Ég elska bækurnar hans Ólafs; allt við þær hreinlega. Söguþráðurinn, persónurnar og textinn – Ólafur skapar með þessari þrenningu ógleymanleg verk og engu heldur hann eftir í snilli sinni í þessari fallegu skáldsögu. Kvenpersónur hans er líka sérstaklega vel skrifaðar að mínu mati, bæði sem kona og sem lesandi.

Tilfinningarót og mjúkur texti

Sagan gerist fyrir og eftir seinna stríð. Dísa er alin upp á Kópaskeri en flytur ung að árum til Englands þar sem hún hyggst leggja stund á matreiðslu hjá yfirkokki á fínum veitingastað. Brátt kynnist hún ástinni en einnig köldum örlögum breyttrar heimsmyndar í kjölfar stríðsins.

Söguþráðurinn flakkar fram og til baka í tíma og smám saman kynnist lesandinn fortíð Dísu sem og samtíð. Margt miður gott kemur í ljós og augljóst er að líf Dísu hefur verið þyrnum stráð. Í undiröldu sögunnar bærast óleyst vandamál og flóknar tilfinningar en það er líklega eitt af einkennum Ólafs að mínu mati; þessi sterka undiralda óleystra óþæginda sem síðan spretta fram í lok sögunnar.

Allan tímann er hin ósagða saga, hinn ósagði sannleikur, að valda lesanda spennu og maður getur hreinlega ekki lagt frá sér bókina fyrr en sannleikurinn kemur í ljós. Á sama tíma líður lesandanum samt vel vegna þess að Ólafur skrifar svo undurfagran texta sem er uppfullur af friði og mjúkum tilfinningum. Þar birtist þessi óútskýranlegi friður í andstæðunni sem er saga Dísu, sorg hennar og gleði. Þess vegna er svo magnað að lesa verk Ólafs. Hann er einn af okkar bestu höfunum og þessi skáldsaga er ein sú fallegasta.

 

 

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...