Hver er uppáhalds barnabókin þín?

Í dag er dagur barnabókarinnar. Barnabækur eru fáránlega fjölbreyttar og hvert einasta mannsbarn hlýtur að eiga sína uppáhaldsbarnabók. Barnabók sem bundin er minningum, barnabók sem olli tilfinningalegu róti, barnabók sem breytti heimsmynd eða lyfti upp í hæstu hæðir kætinnar. Barnabækur hafa nefnilega ótrúlegan mátt.

Það þarf að hlúa að barnabókunum hér á Íslandi. Ekki síst þegar íslenskan á undir högg að sækja. Krakkar verða að hafa gaman að því að sökkva sér niður í bók og drekka á sama tíma í sig ný orð og ríkari orðaforða. Sá er fátækur sem ekki getur tjáð sig á viðunandi hátt. Æskilegast er að börnin séu búin að þróa með sér ágætis lestrarsið þegar þau komast á unglingsaldur. En þá er einnig vert að benda á að það mætti spýta í lófana þegar kemur að útgáfu unglingabóka.

Ég man ennþá fyrstu bókina sem ég kláraði í heild. Það var sagan af börnunum í Ólátagarði. Ég man líka fyrstu bókina sem ég sofnaði með á nefninu. Hún var um prins og var í stóru broti og mjög þung. Ég nappaði henni frá systur minni. Ég átti að vera löngu farin að sofa. Ég man eftir fyrstu bókinni sem fékk mig til að gráta, þótt ég muni ekki nafnið þá man ég kápuna. („Ég er að leita að blárri bók með klettum framan á…“) Ég man eftir að hafa gengið um í drunga eftir að hafa klárað bók, því ég óskaði einskis annars en að hún væri lengri og ekki búin.

Það var gaman að endurnýja kynnin við barnabækurnar með mínum eigin börnum. Eiginlega ættu allir að lesa barnabækur sér til skemmtunnar, fullorðinir og börn. Í þeim er alltaf eitthvað lúmskt fyndið, eða leynileg skilaboð frá höfundi til foreldranna. Barnabækur eru einfaldlega skemmtilegar!

Hvaða barnabók olli straumhvörfum í ykkar lífi? Hvaða barnabók er uppáhaldsbarnabókin þín?

 

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...