Didda Dojojong og Dúi Dúgnaskítur er hasarbók af ágætustu gerð. Ég hef alltaf verið afskaplega hrifin af rithöfundinum Einari Kárasyni og þarna sýnir hann á sér aðra hlið og skrifar þessa fínu bók fyrir krakka.  Bókin fjallar um Dúa, sem býr í blokk í Hlíðahverfinu ásamt fullt af öðrum krökkum en lendir upp á kant við aðalspíruna í hópnum, vegna pabba þeirra beggja sem ekki eiga skap saman. Syndir feðrana eiga það jú til að smita út frá sér í komandi kynslóðir. Didda hinsvegar býr í næstu blokk við hliðina ásamt öðrum krökkum og börn þessara tveggja blokka mynda gengi sem eigast stanslaust við, ýmist í illu eða góðu. Didda er einfari sem fer ekki eftir neinum lögmálum blokkagengja og hún kemur og fer þegar henni sýnist og leikur við hvern þann sem henni hentar hverju sinni.

Þegar innbrotafaraldur geysar í hverfinu dragast þau Dúi og Didda inn í atburðarrás sem reynist bæði hættuleg og afdrifarík. Þau komast fyrir tilviljun að því hverjir séu innbrotsþjófarnir og hvar þýfið sé geymt og þá reynir á samtakamátt krakkanna í þessum blokkum. Þau neyðast til að taka höndum saman og leggja til hliðar gömul ágreingingsefni. Þegar upp er staðið verður ekkert aftur sem var, hvorki hjá krökkunum í blokkunum né feðrunum sem hafa árum saman staðið í leiðigjörnum þrætum. Og eins og svo oft vill verða, óvinir verða vinir og þeir fordómar sem við höfum í garð þeirra sem við þekkjum ekki eru yfirleitt alltaf tilhæfulausir.

Það er eitthvað alveg spes við bækurnar hans Einars. Persónurnar í bókum hans eru svo lifandi og svo trúverðugar. Og ekki bara aðalpersónurnar eða þær sem mest fer fyrir, heldur líka þær sem ekkert koma við sögu. Eins og til dæmis róninn á fyrstu blaðsíðu bókarinnar um Dúa og Diddu.

„Á þessum árum í Reykjavík voru innbrot yfirleitt þannig að einhver fullur kall braust inn í sjoppu til að fá sér pulsu og stela smápeningum, og svo fannst hann morguninn eftir sofandi í porti bak við sjoppuna með vasa fulla af klinki og síríuslengjum og allur útmakaður í túmat og sinnepi.“

Það er ekki annað  hægt en að sjá þetta algjörlega fyrir sér.  Þessar persónulýsingar eru alveg hreint ótrúlega fyndnar.  Eða hvernig hann nefnir krakkana, þegar þrír Gummar búa í sömu blokk þarf að aðgreina þá svo þeir eru kallaðir Gummi á fyrstu, Gummi á fjórðu og svo Gummi-Gummi-og-Atli. Svo er það nostalgían sem grípur mann. Ég man vel þann tíma þegar ekkert sjónvarp var á fimmtudagskvöldum og júlímánuður allur var sjónvarpslaus. Þvílíkir dásemdartímar.  Þegar krakkar hópuðust út í leiki og bófahasar öll kvöld og mæður stóðu gargandi á tröppunum bæði fyrir kvöldmat og eins fyrir háttatíma að reyna að smala inn með misjöfnum árangri.

Bókin um Dúa og Diddu kemur út 1993 þegar sjónvarpsfríin voru löngu aflögð en andinn í bókinni minnir mig svo sterklega á þennan tíma. Mikið sem ég sakna hans oft.  Því þó það sé takki á öllum þessum græjum sem við höfum til að stela af okkur tímanum þá virðist oft ansi erfitt að taka það skref að ýta á hann.

Þessi bók hefur elst vel og þegar mér tekst að pota henni að einhverjum krakkanum á skólabókasafninu þá vekur hún yfirleitt lukku. Ekki skemmir svo fyrir undirliggjandi húmor sem fullorðna fólkið skilur.  Bókin er hlý og notaleg, hún er spennandi og stundum svo óbærilega spennandi að maður fær hroll við að ímynda sér þær aðstæður sem sögupersónurnar koma sér í.  Ég er til dæmis haldin innilokunarkennd og tók það stundum á að lesa sig í gegnum ákveðna kafla.  Í stuttu máli og það sem ég er að reyna að segja er að maður lifir sig inn í þessa bók, persónurnar standa ljóslifandi fyrir framan lesandann, Helle hin danska og vinir Agnars svo dæmi séu tekin og frásagnargleði Einars nýtur sín til fulls. Ekki spillir svo fyrir skemmtileg myndskreyting Önnu Cynthiu Leplar. Þessi bók er löngu ófáanleg en ég ætla að kíkja eftir henni á fornbókamörkuðum og reyna að næla mér í eintak.

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...