Rýtrýt, nöffnöff, oinkoink eða snorksnork?

Þessi grís segir „rýtrýt“.

Ég hef lesið þær ófáar harðspjaldabækurnar á síðustu tíu árum. Eins og Ragnhildur kom að í pistli sínum um harðspjaldabækur fyrir stuttu eru þær jafn misjafnar og aðrar bækur sem eru gefnar út. En eins og fyrir aðrar bækur þá þarf að leggja vinnu í harðspjaldabækur og vanda til verks. Þetta eru fyrstu bækur barnanna okkar og foreldrar þurfa sumir hverjir að marglesa þær.

Eitt af því fyrsta sem börn læra þegar þau fara að fletta bókum eru hljóð dýranna. Eitt algengasta þema harðspjaldabóka er held ég dýr. Það eru sveitadýr, frumskógardýr, risaeðlur og svo krúttleg dýr. Börnin læra samviskusamlega að segja „muuu“ og „meee“ og þar fram eftir götum og fæstir þræta um hvaða hljóð kýr og kindur gefa frá sér.

Öndin segir „brabra“ og ungarnir „bíbí“.

Ég get hins vegar ekki talið skiptin hve oft ég hef reitt hár mitt yfir rithætti þessara dýrahljóða! Grís segir ekki snork, oink (enska?) eða nöff (sænska?). Á íslensku rýtir eða hrín grísinn og hann ætti því að segja „hrín“ eða „rýt“. Geitin segir „baaa“. Kindin segir „meee“. Hundur segir „voff“ en ekki boff eða eitthvað álíka. Hani segir „gaggalagó“, hænan „gagg“, hesturinn „íhaha“ eða „gobbedígobb“ og öndin „brabra“. Flestar bækur eru þó sammála um að köttur segi „mjá“, þótt vissulega segi kettir ekki alltaf mjá heldur eigi þeir til að segja brjá, eða brjíu eða eitthvað álíka. En við skrifum það ekki í barnabækur, það væri eingöngu til þess að rugla börnin og skapa óþarfa vandamál.

Ef samræmdar reglur væru um rithátt þessara hljóða þá myndum við kannski útrýma þeim vandræðalegu augnablikum þegar frænka kemur í heimsókn og fer að segja að svínið segi „rýnrýn“ og unginn segi „píp píp“ og hesturinn „hnegghnegg“. Því ef eitthvað getur ruglað litla huga þá er það ósamræmi í dýrahljóðum.

Eða kannski hefur það algjörlega öfug áhrif og auðgar líf litlu krílanna að vita að dýr geta sagt alls konar hljóð…? En fyrir okkur foreldrana sem lesum með leikrænum hætti þá ætti ritháttur hljóðanna ekki að skipta neinu máli, þar sem svínshljóð mun alltaf vera órithæft.

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...