Bækur þurfa ekki að vera flóknar eða fullar af textum til að vera heillandi. Ég var reyndar ansi efins þegar ég fyrst fletti í gegnum bókina Leika? eftir Lindu Ólafsdóttur. Það er nær enginn texti í bókinni en að sama skapi fá teikningarnar að njóta sín algjörlega. Það var ekki fyrr en ég las bókina með augum tæplega tveggja ára drengs (ég reyndar fékk hann til að hjálpa mér) sem ég skildi bókina.

Í bókinni fylgjumst við með tveimur börnum og tuskudýrunum þeirra; Palla og Lunda, og Fríðu og Rebba. Þau leika í sitthvoru horninu. Það kemst svo babb í bátinn þegar Fríða falast eftir félagsskap Palla. Þá örlar á efa hjá Palla um möguleika þeirra fjögurra (því tuskudýrin eru líka talin með) til að leika saman.

Linda Ólafsdóttir er teiknari og myndskreytir og samkvæmt heimasíðunni hennar hefur hún sérstakt dálæti á myndskreyttum bókum. Leika? ber það algjörlega með sér. Bókin kom fyrst út á ensku í Bandaríkjunum en var þýdd fyrir íslenskan lesendahóp. Texti bókarinnar er nær eingöngu orðið “leika” en myndirnar segja miklu meira. Að sama skapi gefst foreldrum þá tækifæri til að túlka myndirnar enn frekar með barninu, án fyrirframgefins texta sem stundum festa mann í sama farinu. Palli og Fríða eru fallegar persónur, sem ná saman að lokum og leika saman. Þar sem texti er af skornum skammti í bókinni þarf að velta fyrir sér svipbrigðum barnanna á teikningunum. Það er til dæmis alveg augljóst að Palli vill ekkert með Fríðu hafa í byrjun. Þetta gefur börnunum kost á að þroska enn frekar myndlestur, sem er ekki síður mikilvægt að kunna rétt eins og hinn eiginlegi bókstafalestur.

Við tókum fram Leika? þar sem bókin er prentuð á nokkuð þykkan pappír og er því tilvalin sem næsta skref við harðspjaldabækurnar sem við höfum hingað til flett í gegnum. Pappírinn er mattur og litirnir í myndunum hlýlegir. Bókin vakti mikla lukku hjá barninu og kom af stað miklu spurningaflóði frá ómálga manneskju (“Uuuhh?”, “Booo”, og aðrar upphrópanir). Við mæðginin getum mælt með þessari bók.

Lestu þetta næst

Smáar sögur, stór orð

Smáar sögur, stór orð

Smásagan: skáldverk sem hægt er að lesa í einum rykk, við einn kaffibolla, í einni strætóferð, á...

Nútíma Agatha Christie

Nútíma Agatha Christie

Gestalistinn eftir breska spennusagnahöfundinn Lucy Foley kom út í íslenskri þýðingu í apríl 2022....