Dýr í mannagæru kenna mannabörnum orðaforða

Ein af mest lesnu barnabókum á mínu heimili er hin fagurgula Ys og þys í Erilborg (e. What do people do all day?). Erilborg þarf sjálfsagt ekki að kynna fyrir Íslendingum – þeir sem þekkja ekki bækurnar hafa vart geta komist hjá því á einhverjum tímapunkti að hafa séð teiknimyndirnar, sem hafa verið í sjónvarpinu hér á landi siðan ég var krakkalakki í byrjun tíunda áratugarins. Erilborg er hugarfóstur bandaríska rithöfundarins og myndskreytisins Richard Scarry (1919-1994).

 

Úr heimsstyrjöld í barnabækur

Scarry var kominn af írskum innflytjendum en fæddist og ólst upp í Boston. Eftir að hafa hætt í námi í viðskiptafræði gekk hann í listaháskólann í Boston þar til hann var kallaður í herinn til að þjóna í síðari heimsstyrjöldinni. Í fimm ár hafði hann það hlutverk að teikna upp kort og gera myndefni fyrir bandaríska herinn.

Eftir stríð fór hann að vinna sem myndskreytir hjá hinum og þessum tímaritum en í lok fimmta áratugarins hóf hann að myndskreyta bækur fyrir bókaútgáfuna Little golden books. Útgáfan er þekkt fyrir að vera frumkvöðull í að framleiða bækur með börn sem neytendur sérstaklega í huga. Þannig var stærð bókanna miðuð út frá því að þær færu vel í hendi barna. Auk þess voru bækurnar aðgengilegri heldur en hafði tíðkast, þær fengust í kjörbúðum en ekki bara sérstökum bókabúðum og voru ófrekar á buddu foreldranna. 

Fyrsta bókin um íbúa Erilborgar kom út árið 1963 þegar Scarry ákvað að söðla um og gerast rithöfundur líka. Scarry vildi gera bækur sem yrðu lesnar aftur og aftur af sama barninu og sagðist sjálfur vilja sjá bækurnar sínar í hillum heimila í þannig ástandi að búið væri að tjasla þeim saman með límbandi vegna notkunar.

 

Markmiðið að auka orðaforða barna

Einkenni bókanna um Erilborg eru að persónur eru allar dýr í mannahlutverkum. Kettir, hundar, svín, þvottabirnir, geitur, bavíanar, birnir, ánamaðkar, mýs og fjöldinn allur af öðrum dýrategundum koma við sögu. Markmið bókanna var og er að efla orðaforða barna, en í þeim eru til að mynda allar persónur vel merktar með nafni og starfstitli.

Þá fjallar bókin um ýmislegt í okkar daglega lífi og atvinnulífi, þar sem farið er í saumana hvernig hlutirnir eru gerðir. Til dæmis er kafli þar sem Binna litla bangsastelpa sendir ömmu sinni afmælisbréf. Þar er ferill bréfsins rakinn frá því að Binna skrifar það og hvernig það kemst svo til skila til ömmu hennar. Hlutirnir eru vissulega einfaldaðir töluvert þegar um flóknari hluti er að ræða, svo sem byggingaframkvæmdir. Það er líka bara verið að kenna börnunum orðaforða, ekki að ætlast til þess að þau verði verkfræðingar. 

 

Bók sem nýtist lengi

Eins og kom fram í upphafi hefur bókin verið þaullesin á mínu heimili. Skiljanlega, þar sem vel myndskreyttar bækur eru yfirleitt þær sem eru oftast valdar, og þar er Erilborg sko enginn aukvisi. Í hverjum krók og kima hverrar blaðsíðu er eitthvað um að vera, og maður er alltaf að taka eftir einhverju nýju í hvert skipti sem maður les bókina. Ég rakst á bókina, endurútgáfu frá árinu 2012, á hinum árlega bókamarkaði í Laugardalnum fyrir nokkrum árum síðan, minnug þess hve skemmtilegar mér þótti teiknimyndirnar á sínum tíma ákvað ég að slá til.

Bókin nýtist breiðum aldurshópi barna. Ef barnið þitt er ekki komið á það stig að hafa þolinmæði í að hlusta á mikinn texta er tilvalið að sitja bara með því og skoða myndirnar og ræða um þær. Biðja barnið um að finna hin og þessi dýr, eins og til dæmis hann Einar orm sem á það til að fela sig á ýmsum kimum og skúmaskotum.

 

Úrelt kynjahlutverk skyggja á gleðina

Það er bókinni til lasts hvað gömlu kynjahlutverkin virðast lifa góðu lífi. Samt skilst mér að bækurnar hafi verið reglulega uppfærðar með breytt samfélagsleg viðhorf í huga hverju sinni. En ég verð að segja að sú viðleitni birtist ekki í þessari bók. Allflestir karakterar eru til að mynda karlkyns og þeir fáu kvenkyns karakterar sem eru í bókinni eru í hefðbundnum kvennastörfum, húsmæður íklæddar svuntum með börn í eftirdragi, ritari, hjúkrunarfræðingur, hárgreiðslukona og klæðskeri.

Þá las ég líka einhvers staðar að karakterar sem höfðu kynþáttalegar skírskotanir svo sem indíánar og kúrekar hafi verið fjarlægðir á sínum tíma – í minni bók er samt þvottabjörninn Bandóði Billý í fullu fjöri klæddur eins og steríótýpu indíáni villtu vestranna. Ef litið er fram hjá þessum kreddum þá er bókin hin mesta skemmtun fyrir börn og foreldra og fræðandi í kaupbæti.

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...