Stjáni og stríðnispúkarnir

Það er fátt erfiðara en að skapa áhuga á lestri í hugum þar sem allt er á tjá og tundri og svo margt annað sem hægt er að gera. Svo margt sem bíður þarna úti! Þegar sá sjö ára datt niður á Stjána og stríðnispúkana þá varð lesturinn ögn auðveldari. Skyndilega var ekkert mál að lesa einn og einn kafla. Það var bara gaman!

Í Sjána og stríðinispúkunum segir af Stjána – ungum dreng sem geymir í herbergi sínu forláta kommóðu, sem stundum lyktar illa. Það kemur í ljós að kommóðan, sem móðir Stjána hafði keypt á nytjamarkaði, inniheldur fimm litla púka – stríðnispúka. Stríðnispúkarnir eru þó ekki illgjarnir, heldur fremur klaufalegir en vilja vel. Einn púkanna elskar ost, annar sokka og þriðji prumpar með svakalegri eggjalykt. Allir hafa þeir sín sérkenni. Allt er þetta vel til þess fallið að vekja lukku hjá ungum lestrarhestum. Í hverri bók fyrir sig lenda Sjáni og stríðnispúkarnir í mismunandi ævintýrum.

Bækurnar eru mjög mikið myndskreyttar og myndirnar eru í lit. Inn á milli fer frásagnarmátinn yfir í myndasöguform, sem gerir flettingar enn hraðari hjá lesara og tilfinningunni fyrir árangri enn meiri. Bækurnar þroska bæði myndlæsi og læsi. En það besta af öllu er að þær eru fljótlesnar, fyndnar og skemmtilegar. Þær gefa krökkum sem eru búin að ná nokkuð góðum tökum á lestrinum tækifæri til að fyllast stolti yfir að hafa klárað heila bók á skömmum tíma. Og ekki þunna kilju, heldur harða bók!

Það eina slæma við bækurnar er að krakkar eiga það til að festast í þeim. Þau klára eina, lesa næstu og svo þriðju og byrja svo á seríunni aftur.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...