Sif Sigmarsdóttir gaf á dögunum út sína aðra bók á ensku The Sharp Edge of a Snowflake sem Lestrarklefinn fjallaði nýlega um. Sif segir að vonandi sé von á útgáfu bókarinnar á Íslandi. En nú í haust kemur út íslensk þýðing á fyrstu bókinni sem hún skrifaði á ensku, Ég er svikari, sem kom út í Bretlandi fyrir einu og hálfu ári.
Sif hefur verið búsett í Bretlandi síðan árið 2002. Hún hélt þangað í meistaranám í barna- og unglingabókmenntum, eftir námið ílengdist hún og býr í dag í London.
Skref út fyrir þægindarammann
Það eru fáir íslenskir höfundar sem hafa gefið út efni sem þeir skrifuðu ekki á sínu móðurmáli og var áhöfn Lestrarklefans því forvitin um hvernig það ferli er og hvers vegna rithöfundur myndi ákveða að gera það. Því heyrðum við hljóðið í henni Sif.
Hvers vegna ákvaðstu að fara að skrifa bækur á ensku?
„Ég elska nýjar áskoranir og þetta var skref út fyrir þægindarammann sem mér fannst hljóma sem gott ævintýri.“
Sif segir að helsti munurinn milli þess að skrifa á ensku og íslensku sé hversu meðvituð hún er um sjálfa sig þegar hún skrifar á máli sem er ekki móðurmál hennar. „Ég óttast stöðugt að segja eitthvað klaufalegt, nota rangt orð, klúðra málfræðinni eða stafsetja hlutina vitlaust. Nú hef ég reyndar búið í Bretlandi svo lengi að ég er farin að hafa sömu áhyggjur þegar ég skrifa á íslensku – stundum glími ég við að að þýða setningar sem verða til í kollinum á mér á ensku yfir á íslensku. En rithöfundar nærast á angist svo það reddast.“
Ekkert „þetta reddast“
Hún segir það áhugaverða við að skrifa bækur bæði á íslensku og ensku vera að bera bransana saman. „Bókabransinn í Bretlandi er gjörólíkur bransanum hér heima. Breskir útgefendur eru álíka aðgengilegir og sjálf drottningin. Þeir forðast óbreytta rithöfunda eins og heitan eldinn og þeir líta ekki við bókahandritum nema þau berist þeim gegnum umboðsmenn. Fyrsta skrefið fyrir þá sem vilja gerast rithöfundar í Bretlandi er því að skrifa bók, annað skrefið er að verða sér úti um umboðsmann. Umboðsmaðurinn sér svo um að fara með handritið til útgefenda og selja þeim það.“
„Í Bretlandi er auk þess allt stærra í sniðum og hlutirnir ganga hægar fyrir sig. Ár er síðan ég skilaði af mér handritinu að bókinni minni sem var að koma út. Ég elska hvað Bretar eru skipulagðir. En stundum sakna ég „þetta reddast”-viðhorfi okkar Íslendinga.“
Bókmenntasnobbið er hallærislegt
Sif hefur gefið út fjölda ungmennabóka (Young Adult Fiction), meðal annars Ég er ekki dramadrottning og Freyju saga – Múrinn.
En hvað heillar hana við að skrifa ungmennabækur?
„Þegar kemur að bókmenntum fyrir ungt fólk leyfist manni meira. Efnistökin eru frjálsari; bókin má vera vísindaskáldsaga, fantasía, raunsæisverk eða hvað sem er án þess að hún fái einhvern stimpil á sig sem fólk snobbar gegn. Ef það er eitthvað sem mun gera út af við bækur held ég að það sé snobbið í bókabransanum. Tökum sem dæmi nýjustu bók Ian McEwan. Nýjasta bókin hans er klárlega vísindaskáldsaga – sem er hið besta mál. En McEwan þvertók fyrir að hafa skrifað vísindaskáldsögu í viðtali við The Guardian. Mér finnst svona bókmenntagreina snobb alveg ferlega hallærislegt og bera vott um vitsmunalegt óöryggi.“
The Sharp Edge of a Snowflake endar á mjög opinn hátt og því erum við í Lestrarklefanum forvitin um hvort von sé á framhaldsbók. Sif segir það enn óákveðið.
„Ég er enn á kafi við að kynna The Sharp Edge of a Snowflake. Það er fyndið, rithöfundar eru flestir innhverfar sálir sem vilja helst sitja heima á náttfötunum að skrifa næstu bók. En þegar bók kemur út eftir þá er skyndilega ætlast til þess að þeir breytist í úthverfa athyglissjúklinga, skemmtikrafta, ræðumenn og grínista. Það er lítill tími til að einbeita sér að skrifum þegar maður er staddur mitt í hringiðunni. Ég hef því ekki ákveðið enn hvað ég ætla að taka mér fyrir hendur þegar um hægist. En það er spennandi þegar allar dyr standa opnar með þessum hætti, þegar framtíðin er óskrifað blað sem hægt er að skrifa á hvaða sögu sem er.“