Fyrir ekki svo löngu var mér sagt að ein af þeim bókum sem lesin er í tætlur á skólabókasöfnum sé 40 vikur eftir Ragnheiði Gestsdóttur. Á skólabókasafninu sem umræðir var bókin svo marglesin að hún lá undir skemmdum. Bókasafnsfræðingurinn sem ég ræddi við harmaði það að ekki væri hægt að kaupa nýtt eintak af bókinni, sem kom upprunalega út árið 2001 og hefur því við ófáanleg í nokkur ár.

Það var því alveg kominn tími til að endurútgefa þessa unglingabók og svo virðist sem útgefendur hafi heyrt ákallið, því Björt bókaútgáfa gaf bókinni nýtt líf í endurbættri útgáfu fyrir stuttu.

Ólétt eftir 10. bekk

Í bókinni segir frá Sunnu Guðmundsdóttur sem er að klára 10. bekk. Eftir síðasta prófið fagna krakkarnir saman og Sunna hittir Bigga, sætasta strákinn í bekknum og þau eiga saman eina nótt. Þegar líður á sumarið kemur í ljós að nóttin eina hafði afleiðingar, sem Sunnu finnst hún þurfa að takast á við einni.

Þegar bókin kom út á sínum tíma gleypti ég hana í mig, enda féll ég akkúrat inn í markhóp bókarinnar – unglingsstelpa. Ég las bókina spjaldanna á milli nokkrum sinnum og kunni hana næstum því utan að, þess vegna var það eins og að hitta gamlan vin að lesa nýju útgáfuna.

Ragnheiður hefur einstakt lag á að skrifa bækur fyrir börn og unglinga og er margverðlaunuð fyrir skrif sín. Í 40 vikum finnst mér Ragnheiður ná að súmmera upp öllum tilfinningum óléttrar unglingsstelpu, óttanum, vanmættinum, vantrúnni og að lokum sáttinni. Sagan er skrifuð í fyrstu persónu frásögn frá sjónarhorni Sunnu, en lesandi fær líka að kynnast bestu vinkonunni Brynju og lítillega foreldrum Sunnu og ömmu. Það sem er í mestu aðalhlutverki í bókinni er ólétta Sunnu og ítarlegar lýsingar á óþægindunum sem fylgja þessu ástandi eru mjög raunsannar.

færð til nútímans

Í nýrri útgáfu bókarinnar er sagan færð fram til nútímans með örlitlum formála og eftirmála, þar sem átján ára dóttir Sunnu finnur dagbók móður sinnar. Það er sniðugt að færa söguna til nútímans, en mér fannst það svipta lesandann ögn spennunni yfir óléttu Sunnu. Mér fannst mest spennandi að vita hvers kyns barnið yrði og hvaða nafn það fengi. Nú kemur það fram í formála að bókinni. Ég velti fyrir mér hvort hægt hefði verið að koma bókinni inn í nútímann með öðrum ráðum.

Ég efast ekki um að 40 vikur eigi eftir að finna nýja lesendur nú þegar bókin er fáanleg aftur. Nú geta skólabókasöfnin líka nælt sér í ný eintök af þessari klassísku unglingabók, og skipt út gömlu útjöskuðu eintökunum.

 

 

 

Þess má svo til gamans geta að Ragnheiður var gestur í hlaðvarpi Lestrarklefans í júní.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...