Afkvæmi svarts og hvíts segir sögu sína

Glæpur við fæðingu eftir Trevor Noah í framúrskarandi íslenskri þýðingu Helgu Soffíu Einarsdóttur er bók sem fæstir ættu að láta fram hjá sér fara. Í bókinni segir Noah frá uppvexti sínum í Suður-Afríku, á tíma þegar aðskilnaðarstefnan var upp á sitt besta. Noah er sonur hvíts manns frá Sviss og svartrar Xhosa konu, tilvera hann er sönnun um glæp foreldra hans. Hann er glæpur við fæðingu.

Bókin tilheyrir áskriftarbókum frá Angústúru, þar sem miðað er við að þýða áhugaverðar bækur sem slegið hafa í gegn í heimalandinu og sígild nútímaverk sem ekki hafa áður komið út á íslensku.

Með húmorinn að vopni

Þótt bókin snúist að mestu um uppvöxt Noah þá kynnist maður líka hinni eitilhörðu konu, móður hans. Konunni sem ákvað að fara á skjön við aðskilnaðarstefnuna með því að eignast Trevor, sem byggði líf sitt upp úr algjörri fátækt og lét nær ekkert stoppa sig. Í byrjun hvers kafla leynist örlítill fróðleiksmoli um undarlegheitin sem fylgdu aðskilnaðarstefnunni. Molinn gefur jafnframt tóninn fyrir kaflann sem fylgir á eftir. Noah gerir óspart grín að hinni órökréttu kynþáttahyggju og -mismunun sem átti sér allt of lengi stað í Suður-Afríku. Þetta er ágæt leið til að fræðast um jafn hryllilegan og ömurlegan tíma því stundum þarf smá húmor til að horfast í augu við hryllinginn.

Maður er aldrei jafn mikið maður sjálfur og þegar maður kúkar. Maður eignast þessa stund þar sem maður áttar sig: Þetta er ég. Þetta er sá sem ég er. Maður getur pissað án þess að pæla í því, en ekki kúkað. Hefurðu einhvern tíman horft í augun á ungbarni þegar það kúkar? Það öðlast stund algjörrar sjálfsvitundar. Kamarinn eyðileggur þetta fyrir manni. Rigningin, flugurnar, maður er rændur því að eiga þessa stund með sjálfum sér og það ætti ekki að ræna nokkurn því. (Bls. 65)

uppistandari gerist rithöfundur

Noah er líklega þekktastur sem þáttastjórnandi bandaríska sjónvarpsþáttarins The Daily Show á Comedy Central. Hann er uppistandari, grínisti og plötusnúður. Hann er því nokkuð þekktur víða um heim en það var ekki fyrr en bókin var tekin fyrir í bókaklúbbnum mínum sem ég gerði mér fullkomlega grein fyrir því hve frægur hann er orðinn (kv. þessi sem er alveg dottin út úr dægurmenningunni). Meðlimir téðs bókaklúbbs eru konur á aldrinum 20-60 ára og margar höfðu þær sömu sögu að segja: „Sonur minn horfir á þættina hans“. Synirnir, sem flestir eru á aldrinum milli tvítugs og þrítugs, höfðu þó ekki áttað sig á því að Glæpur við fæðingu væri bók sem höfðaði til þeirra. Má þar líklega kenna um kápu bókarinnar sem er í hinni hefðbundnu (og fallegu) hönnun sem einkennir bækur í áskrift frá Angústúru. Ungu karlmenn, látið kápuna ekki glepja ykkur, því innihald bókarinnar höfðar svo sannarlega til ykkar!

Noah er góður uppistandari. Eftir að ég las bókina hans sökkti ég mér í að horfa á uppistandið hans – allt sem finnst á Netflix. Bókin er skrifuð í sama stíl og uppistandið hans. Hver kafli er skörp innsýn í líf hins unga Noah og í gegnum þessar sögur púslar lesandinn saman lífshlaupi hans. En þrátt fyrir að vera skrifuð í gamansömum talstíl, þá er undirtónn sögunnar alvarlegur og Noah bindur bókina saman í eina heild með móður sinni. Einhverjir myndu segja stílinn tætingslegan og óþægilegan. Hann höfðaði þó til mín og ég gat engan veginn slitið mig frá bókinni. Til allrar lukku lagðist ég í flensu um leið og ég tók upp bókina og gat því lesið óáreitt (stundum er ekkert betra en flensa þegar maður finnur góða bók). Flensan og bókin eru þó alls ótengd og ég tel hverfandi líkur á að aðrir leggist í flensu við lesturinn.

Glæpur við fæðingu er saga af erfiðum uppvexti, en jafnfram um það hvernig húmor, gamansemi, jákvætt hugarfar og staðfesta geta létt undir í lífinu. Bókin er frábær í alla staði. Þó vona ég að Angústúra íhugi að endurútgefa bókina með annarri kápu, því ég myndi svo gjarnan vilja sjá bókina í höndunum á öllum ungu karlmönnunum sem hún á fullt erindi til.

 

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...