Sagan segir að myndin af fyrsta múmínálfinum hafi verið rissuð upp á útihús á æskuheimili Tove Jansson. Þá var múmínálfurinn þó ekki þybbinn og vinalegur, heldur átti hann að vera ljótasta vera sem nokkru sinni hafði verið til. Myndin átti að vera háðsmynd af heimspekingnum Immanuel Kant, en sagan segir að Tove og Lars bróðir hennar hafi þrætt um kenningar Kant með þeim leikslokum að Tove þurfti undan að láta. Að tapa rökræðum um kenningar Kant er nóg til að gera hvern mann óðann. Ég sé þetta ljóslifandi fyrir mér. Ung Tove, með dökkan blýant – kannski kol? – að krota á vegg útihússins. Hún er reið og úfin, pirruð út í bróður sinn og Kant sjálfan. Hún er að hefna sín á þeim báðum. Kant skyldi sko verða ljótasta vera nokkru sinni í hennar túlkun. En þótt fyrsti múmínálfurinn hafi átt að vera hrottalega ljótur og óaðlaðandi þá átti Tove eftir að nota hann oftar í framtíðinni.
Myndin af múmínálfunum breyttist og þróaðist í gegnum árin og á tímabili notaði Jansson múmínálf sem undirskrift undir skrípasögur sem hún teiknað fyrir dagblöð. Fyrsta sagan um múmínálfana kom út árið 1945 og heitir í íslenskri þýðingu Þórdísar Gísladóttur Litlu álfarnir og flóðið mikla. Síðan komu sögurnar út hver á eftir annarri næstu árin og voru sumar þeirra þýddar á íslensku á áttunda áratugnum. Fyrir síðustu jól voru Múmínálfarnir og halastjarnan (1946) og Pípuhattur galdrakarlsins (1948) endurútgefnar í þýðingu Steinunnar Briem, ásamt fyrstu sögunni um múmínálfana sem birtist þá í fyrsta sinn á íslensku.
Fjölskyldusögur
Sögurnar eru töfrandi, heillandi og draumkenndar. Persónurnar eru alltaf samkvæmar sjálfum sér. Snorkarnir, Múmínmamma, Snabbi, Snúður, Múmínsnáðinn, Múmínpabbi, Hemúllinn… Ég þori næstum að alhæfa að allir eigi sér sína uppáhalds persónu úr múmínálfunum. Fyrsta sagan af múmínálfunum er eins konar sköpunarsaga. Múmínmamma og múmínsnáðinn ganga í gegnum skóg í leit að nýjum stað til að búa á og í leit að Múmínpabba, sem stakk af með hattíföttunum einn daginn. Á meðan á ferðalagi Múmínmömmu og Múmínsnáðans stendur verður mikið flóð sem skolar þeim að lokum í Múmíndal, þar sem Múmínpabbi hefur búið þeim heimili. Sagan hoppar úr einu í annað og persónur eru kynntar til sögunnar hratt og fara úr henni eins fljótt. En söguþráðurinn er áhugaverður fyrir vikið, það er engin leið að giska á næsta atburð.
Múmínálfarnir og halastjarnan er heilsteyptara ævintýri en fyrsta sagan af múmínálfunum. Þar hefur Tove verið með fullmótaða hugmynd að ævintýri í huganum. Því hefur verið haldið fram að halastjarnan sé leið Tove til að skrifa um kjarnorkuógnina, enda kemur hún út skömmu eftir að kjarnorkusprengjum var varpað á Hiroshima og Nagasaki. En hvað sem bókmenntaspekúlantar lesa úr sögunni þá er sagan heillandi, spennandi og ekki síst frábært ævintýri. Í sögunni birtast margar persónur sem í dag eru ódauðlegar (Hemúllinn, Snúður). Mér þykir alltaf skemmtilegast að lesa um Múmínmömmu, sem hlýtur að vera jafnlyndasta persóna bókmenntasögunnar.
Í Pípuhatti töframannsins kynnist lesandinn enn fleiri persónum og ævintýrin verða bara æsilegri. Múmínsnáðinn finnur töfrahatt sem breytir eggjaskurn í ský sem hægt er að fljúga um á. Hvaða barni hefur ekki dreymt um að snerta skýin (og orðið fyrir vonbrigðum þegar flogið er í gegnum þau á flugvél…). Í mörg ár trúði ég að hægt væri að svífa um á skýjum vegna þessarar sögu. Lendi múmínálfur í hattinum breytist hann í kynjadýr! Að sjálfsögðu fer allt úr böndunum og leita þarf lausna, en eins og í öllum sögum Tove þá endar allt vel.
MÚMÍNSAMSTEYPAN
Eftir að sögurnar um múmínálfana slógu í gegn óx höfundarverk Jansson og varð að risastórri samsteypu. Nú þykir fátt finnskara og fallegra en múmínálfur. Teikningar og persónur úr sögunum eru notaðar á skrautmuni, nýjar sögur eru uppdiktaðar og gefnar út með viðhöfn. Það er hægt að læra litina, tölurnar og að púsla með múmínálfunum. Það er hægt að hella kaffi úr múmínkönnu í múmínbolla sem stendur á múmínbakka á múmíndúk, og svo auðvitað drekka kaffið úr bollanum (og jafnvel kaffið gæti verið sérsök uppáhelling múmínmömmu!). Þú getur þurrkað þér með múmínhandklæði eftir sundferðina, klætt þig í múmínföt og greitt þér með múmínbursta. Ef þú átt leið til Finnlands, geturðu heimsótt múmínálfana sjálfa í Múmíndal!
ekki missa af upprunalegum sögunum
Múmínálfarnir eru orðnir miklu meira en sögur í bók og ímynd þeirra hefur ferðast langt frá upprunalegu sögunum. Við sem ólumst upp á tíunda áratug síðustu aldar þekkjum sögurnar um múmínálfana jafnvel betur í gegnum teiknymyndirnar sem voru framleiddar í kringum 1990 en af bókunum sjálfum. Teiknimyndirnar eru nokkuð trúar sögunum eins og þær birtast í bókunum. Tove var listakona og því er hver mynd í bókunum listaverk. Teiknimyndirnar ná ekki að endurspegla töfrandi myndir Tove þótt þær nái að einhverju leyti að miðla fallegum textanum sem er blæbrigðaríkur og töfrandi.
Múmínálfarnir eru alltaf fyrir augunum á okkur. Það er nær sama hvert maður fer. Ég græt ekki ofgnóttina af múmínvörum, sjálf á ég dágott safn af bollum. Uppáhaldsbókamerkið mitt er líka múmínbókamerki (Mía litla – þótt ég sæki frekar í stóíska ró Múmínmömmu þessa dagana). Þegar álfarnir hvítu og þybbnu eru alltaf fyrir augunum á okkur, þá eykur það líkurnar á því að einhver þarna úti fyllist þrá eftir því að lesa sögur Tove enn á ný og jafnvel deila þeim með barni. (Eða bara eiga þær með sjálfum sér, því það er stundum bara fínt). Það er alltaf gaman að geta lesið sögurnar eins og Tove Jansson skrifaði þær – dásamlega súrar, draumkenndar og yndislegar. Það er því mikill fengur af bókum eins og Múmínálfunum þar sem þremur fyrstu sögunum um múmínálfana hefur verið safnað saman í eina veglega bók. Þar er sagan um múmínálfana og flóðið mikla birt í fyrsta sinn í íslenskri þýðingu. Bókin kemur líka einstaklega vel út við hliðina á múmínbollasafninu þínu – því hún er gullfalleg.
Ég vona að haldið verði áfram að endurútgefa sögurnar um múmínálfana.