Hugrökk kona sem stendur með sjálfri sér

Convenience Store Woman eftir Sayaka Murata er ein sérstakasta bók sem ég hef lesið á þessu ári. Hún fjallar um hina 36 ára gömlu Keiko. Hún hefur aldrei átt kærasta og hefur unnið í sömu matvörubúðinni í átján ár. Hún er alsæl í lífi og starfi, fjölskyldu hennar og vinum til mikils ama; fjölskyldan hennar vildi óska þess að hún fengi sér “almennilega” vinnu og vinir hennar eru alltaf að forvitnast um hvenær Keiko muni finna ástina í lífinu.

Sem barn þótti Keiko heldur undarleg og höfðu foreldrar hennar áhyggjur af því hvernig hún myndi aðlagast umheiminum að skólagöngu lokinni. Því voru þeir ánægðir þegar hún fékk hlutastarf í matvörubúð, þau skilja þó ekki hvers vegna Keiko virðist enn föst í sama starfinu átján árum síðar. Keiko líður hins vegar mjög vel í sínu daglega lífi: hún er búin að kynnast hverjum krók og kima í búðinni, veit strax hvort eitthvað muni vanta í hillurnar og finnst hún passa inn í þetta umhverfi. Hún veit þó innst inni að hún sé ekki að uppfylla samfélagskröfur um hvar hún ætti að vera stödd í lífinu á fertugsaldri. Þess vegna stekkur Keiko á tækifærið þegar hún kynnist svipuðum einfara, Shiraha, sem kemur með spennandi málamiðlun: hann er að leita sér að húsnæði og uppihaldi og fær að búa hjá henni og í staðinn þykjast þau vera kærustupar. Allir í kringum Keiko fyllast mikilli gleði yfir þessum tíðindum og trúa því að nú fari hún loksins að lifa góðu lífi og hætti jafnvel að vinna í matvörubúðinni.

Bókin, sem er sú tíunda sem Murata skrifar en sú fyrsta sem var þýdd á ensku, kom út á enskumælandi bókamarkaðnum á síðasta ári og hlaut mikið lof gagnrýnenda. Hún er frábær ádeila á væntingar samfélagsins til kvenna. Bókin gerist í Japan og tekur mið af siðum og venjum þar en á hins vegar við um flest samfélög þar sem kona er ekki talin lifa lífi sem veitir lífsfyllingu án þess að eiga maka og vera í starfi sem utankomandi aðila þykir áhugavert. Persónuleg upplifun er ekki alltaf í hávegi höfð.

Convenience Store Woman er ekki gallalaus, það tekur smá tíma að venjast sérstaka stílnum og aðal fókusinn á Keiko sem persónu hefur þau áhrif að aðrir í sögunni eins og Shiraha eru frekar flatir persónuleikarar. Einnig endar hún frekar snögglega og hefði því getað verið örlítið lengri.

Bókin hefur ekki verið þýdd á íslensku og því ekki farið mikið fyrir henni á Íslandi svo ég viti til, en góð vinkona mín með afbragðs bókasmekk mælti með henni og get ég ekki annað en gert það sama. Convenience Store Woman er stutt og fljótlesin en skilur samt sem áður mikið eftir sig. Þrátt fyrir að vera óheðfbundin er Keiko frábær kvenpersóna því að lokum stendur hún með sjálfri sér.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...