Í leit að horfnum tíma – Annálar nóbelskálds

Ég las nú á dögunum Annála Bobs Dylan sem komu út í íslenskri þýðingu Guðmundar Andra Thorssonar. Sjálfur tel ég mig ekki vera meðal hans dyggustu aðdáenda þó svo að ég hlusti stundum á tónlist hans og þyki mikið koma til textanna. Það var því engin fyrirfram ofurhrifning á Bob né verkum hans sem blindaði mig við lestur bókarinnar. Bókin er í meðallagi löng, 368 síður og við lesturinn finnst manni stundum að þær mættu vera örlítið færri. Að því sögðu finnst mér þýðing Guðmundar Andra mjög góð, þar  sem að rödd og stíll höfundar skína í gegn í textanum, laus við fingraför þýðanda.

Manneskjan bakvið listamanninn

Bókin er kaflaskipt og segir hver kafli frá einu tímabili í lífi listamannsins. Bókin byrjar á hrollköldum vetri í New York í byrjun sexunnar (7. áratugarins) þar sem Bob vinnur fyrir sér með því að koma fram á litlum kaffihúsum borgarinnar og í verkinu fær maður að sjá hvernig mismunandi skeið mótuðu Bob Dylan, bæði sem listamann og sem manneskju. Það er áhugavert að lesa þessar lýsingar af gömlum tíma í bland við hugleiðingar höfundar um hina og þessa hluti og það kom fyrir að ég gat alveg gleymt mér í þessari bók. Bókin er vel skrifuð og vel þýdd en það kemur fyrir að höfundur endurtaki sig dálítið sem getur orðið leiðigjarnt. Ég les sjálfur ekki mikið af ævisögum en las þó eitt sinn ævisögu Keiths Richards og fannst hún áhugaverð framan af en mjög leiðinleg þegar komið var í miðja bók. Eftir að Rolling Stones höfðu meikað það sagði Keith sömu þreyttu söguna aftur og aftur út bókina. Hljómsveitin fór í þessa borg og hélt tónleika, það gekk svona og svona, það var brjálað eftirpartý og svo framvegis. Eina sem breyttist voru nöfn borganna sem þeir heimsóttu og dagsetningar.
Lengi á eftir ímyndaði ég mér að ævisögur tónlistarmanna væru meira og minna allar svipaðar þessari, það er að segja eftir að listamenn hefðu meikað það. Því kom það mér skemmtilega á óvart að sagan varð aðeins áhugaverðari eftir því sem leið á feril Dylans. Hefði Dylan skrifað verkið sem hefðbundna ævisögu í tímaröð hefði það ef til vill fallið í sömu gryfju en með því að einskorða sig við ákveðin tímabil í lífi sínu verður lesturinn mjög skemmtilegur og maður veit aldrei hvað er í vændum.
Hann fabúlerar um hina ýmsu hluti í verkinu, um ljóðlist, klassísk fræði, um lífið og tilveruna og oft er það áhugaverð lesning. Skemmtilegast fannst mér þó að kynnast manneskjunni bakvið listamanninn, hugsanir hennar og væntingar um eigið líf og hvernig þær samræmdust ekki þeim væntingum sem samfélagið hafði til hans sem listamanns.
Einn hlutur sem fór dálítið í taugarnar á mér við lesturinn var undirliggjandi fortíðarþrá höfundar sem birtist í því að hefja gjörsamlega allt fólk sem hann þekkti á ákveðnum tíma til skýjanna. Ég get ekki talið hversu oft heilu síðurnar fóru að nefna hina og þessa lítt þekkta leikmenn úr heimi þjóðlagatónlistarinnar og lýsa þeim sem mönnum (þetta voru mestmegnis karlmenn) sem gátu borað göt í veggi með augunum, mönnum sem gátu jarðað mann með einni línu o.s.frv. Gott og vel Bob, ég trúi vel að þú hafir þekkt ýmsar goðsagnakenndar persónur og ég þekki vissulega ekki þetta fólk sem þú nefnir en þegar jafnvel afgreiðslumenn bensínstöðva sem þú rakst einu sinni á árið 1978 fá svona lýsingar þá er mér nóg boðið.
Heilt yfir fannst mér verkið áhugavert lesningar og varð aðeins betra eftir því sem leið á. Það var einnig spennandi að lesa loksins verk eftir nóbelsverðlaunahafann, og spurning er hvor að hann standi undir þeim merkjum. Ég er viss um að allir Dylan-aðdáendur þarna úti muni svoleiðis gleypa þessa bók í sig því hún er uppfull af athyglisverðum hlutum um listamanninn, hvar hann kynntist helstu áhrifavöldum sínum, hvernig málaralist og leikhús Brecht mótaði hann og margt annað skemmtilegt. Í lok bókarinnar er langur eftirmáli eftir þýðanda, Guðmund Andra Thorsson. Eftirmálinn er næstum ein stór lofræða um Dylan en er þó alls ekki laus við gagrýni. Þar telur Guðmundur Andri upp 60 uppáhalds lög sín með Dylan og skrifar stutta klausu um hvert þeirra. Að því loknu er farið yfir allar plötur Dylan og þar með lýkur eftirmálanum. Ég verð að viðurkenna að framan af var ég ekki of hrifinn af Annálum. Mér fannst hún nokkuð hæg og eitthvað við stílinn orkaði alveg öfugt á mig. En eftir því sem ég las lengra varð ég hrifnari og ég er feginn að ég gafst ekki upp því þetta er vel skrifað verk, fullt af heimspeki um lífið, og ljóðlist og stöðu listamannsins í heiminum.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...